Kjötiðn Snúin staða er komin upp.
Kjötiðn Snúin staða er komin upp. — Morgunblaðið/Þórður
Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is Báðum kennurum kjötiðnardeildar Menntaskólans í Kópavogi var sagt upp í byrjun árs, en enginn nemandi sótti um nám við deildina á vorönn 2016.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Báðum kennurum kjötiðnardeildar Menntaskólans í Kópavogi var sagt upp í byrjun árs, en enginn nemandi sótti um nám við deildina á vorönn 2016. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að hún verði endanlega lögð niður, en ekki liggur fyrir hvernig nemendafjöldi við deildina verður í haust.

Skólameistari MK og formaður Matvís, félags iðnaðarmanna í matvæla- og veitingageiranum, telja þörf á endurskoðun iðnnámskerfisins.

Erfiðlega gengið að auglýsa

Að sögn Margrétar Friðriksdóttur, skólameistara MK, er nú komin upp staða sem aldrei hefur áður verið. „Það hafa verið afskaplega fáir nemar í þessari deild, en ekki svo slæmt að það sé enginn. Það er ljóst að þarna þarf eitthvað að skoða málið til framtíðar,“ segir hún.

Kynningarstarfsemi fyrir kjötiðnardeildina hefur ekki gengið sem skyldi. „Við höfum reynt að kynna námið eins við getum og tekið þátt í sýningum faggreinafélagana, en það virðist að það sé ekki áhugi hjá ungu fólki á að sækja námið,“ segir hún.

Sökin hjá fyrirtækjunum

Níels Sigurður Olgeirsson, formaður Matvís, félags iðnaðarmanna í matvæla- og veitingageiranum, segir stöðuna slæma í geiranum og að kjötiðnarnemar hafi dreifst nokkuð eftir að Verkmenntaskólinn á Akureyri hlaut leyfi til kjötiðnarkennslu. Helsta vandamálið sé þó að fáar stöður séu í boði hjá kjötiðnaðarfyrirtækjum fyrir nema. „Það vantar ábyrgðina hjá fyrirtækjunum að taka nema. Ég held að þar séu menn svolítið að skjóta sig í löppina með því að halda ekki nýliðun. Stefna þeirra hefur verið röng, að ráða kjötiðnaðarmenn aðeins í verkstjórastöður og fá aðra til að vinna,“ segir hann.

Margrét segir að skólinn hafi ekki bein tengsl við fyrirtæki hvað nemastöðurnar varðar, hann eigi þó samstarf við stéttarfélög og fyrirtæki eins og kostur sé.