Eitt sinn var því haldið fram að Ísland yrði Kúba norðursins ef landinn gengi ekki að kröfum Breta og Hollendinga í Icesave-deilunni víðfrægu. Enn hefur sú samfélagsbreyting látið á sér standa.

Eitt sinn var því haldið fram að Ísland yrði Kúba norðursins ef landinn gengi ekki að kröfum Breta og Hollendinga í Icesave-deilunni víðfrægu. Enn hefur sú samfélagsbreyting látið á sér standa. Innherji veltir því hins vegar fyrir sér af fullri alvöru hvort höfuðborg landsins, og þar er ekki vísað til Havana, kunni að verða Napólí norðursins. Ástæða þeirra vangaveltna tengjast því ófremdarástandi sem komið er upp í sorphirðumálum í höfuðstaðnum. Nú fær rusl sem komið er í tunnu degi eftir síðustu losun, að taka út frekari þroska í heilar tvær vikur, þar til öskubíllinn vitjar þess og kemur því á áfangastað. Slíkt mun óhjákvæmilega hafa mikinn subbuskap í för með sér og illan daun í mörgum tilvikum.

Og Napólí kemur óhjákvæmilega upp í hugann því í þeirri sögufrægu og nafntoguðu borg hlóðst ruslið upp í lengri tíma vegna forystuleysis borgaryfirvalda. Var ástandið orðið svo slæmt að neyðarástandi var lýst yfir árið 2008 og ríkisstjórn Ítalíu blandaði sér í málið.

Ekki er komið að slíku neyðarástandi á þessari stundu í Reykjavík en margt bendir til að það stefni í þá átt. Sorphirðugjöldin hækka og hækka og sorphirðuþjónustan versnar og versnar. Verst er að þar er um þjónustu að ræða sem borgararnir eru nauðbeygðir til að kaupa af borginni. Á þeim markaði er engin samkeppni og því virðist borgin engan áhuga hafa á því að halda þjónustustiginu á mannsæmandi stigi.

Í Napólí urðu málalyktir þær að risastórt flutningaskip, sem nefnist Norðurstjarnan, flytur stöðugt fullfermi af rusli frá Napólí til Hollands. Hver veit nema að ástandið sem upp er komið í höfuðborginni verði leyst með því að ruslið frá Napólí norðursins verði að lokum flutt til landsins sem reyndi hvað það gat til að breyta Íslandi í Kúbu norðursins.