Gengið verður úr skugga um það á næstunni hversu mikið af síld er í Kolgrafafirði. Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjasviðs Hafrannsóknastofnunar, segir að það komi ekki á óvart að vart hafi orðið síldar í firðinum undanfarið.

Gengið verður úr skugga um það á næstunni hversu mikið af síld er í Kolgrafafirði. Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjasviðs Hafrannsóknastofnunar, segir að það komi ekki á óvart að vart hafi orðið síldar í firðinum undanfarið. Þar geti verið nokkur þúsund tonn, en hann segist telja óhugsandi að mikið magn sé á ferðinni. Fregnir hafa borist af miklu og fjölbreyttu fuglalífi innan við brú í firðinum undanfarið, en Þorsteinn hefur eftir heimildamönnum sínum vestra að á því sé verulegur dagamunur.

Veturinn 2012-13 er talið að um 50 þúsund tonn af síld hafi drepist í Kolgrafafirði í tveimur umhverfisslysum, en stór hluti stofns íslensku sumargotssíldarinnar hafði þar vetursetu. Síldardauðinn er rakinn til súrefnisskorts, sem varð í sjónum í logni og köldu veðri. Undanfarið hafa sambærilegar aðstæður ekki skapast því blásið hefur flesta daga.

Smásíld mældist í litlum mæli í síldarleiðangri í Breiðafirði í október, en stærri síldar í veiðanlegu magni hefur hins vegar ekki orðið vart þar í vetur. Stóru uppsjávarskipin hafa einkum verið að veiðum í Jökuldýpi og Kollugrunni í haust og vetur. Í vikubyrjun fékkst ágætur afli djúpt vestur af Faxaflóa. aij@mbl.is