Á fyrstu æfingu ársins Þeir mættu fyrstir í Akraneshöllina. Frá vinstri: Jón M. Guðjónsson, Ragnar Eyþórsson, Hjálmar Rögnvaldsson, Hannes Þór Guðmundsson, Sigurður Reynisson, Einar Viðarsson, Þröstur Stefánsson, Ólafur Arnar Friðriksson, Guðjón Guðlaugsson og Óskar Þorsteinsson.
Á fyrstu æfingu ársins Þeir mættu fyrstir í Akraneshöllina. Frá vinstri: Jón M. Guðjónsson, Ragnar Eyþórsson, Hjálmar Rögnvaldsson, Hannes Þór Guðmundsson, Sigurður Reynisson, Einar Viðarsson, Þröstur Stefánsson, Ólafur Arnar Friðriksson, Guðjón Guðlaugsson og Óskar Þorsteinsson. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Þröstur Stefánsson og félagar mættu á fyrstu æfingu ársins í Akraneshöllinni í vikubyrjun.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Þröstur Stefánsson og félagar mættu á fyrstu æfingu ársins í Akraneshöllinni í vikubyrjun. „Öll hreyfing er af hinu góða og það er svo gaman í fótbolta,“ segir Þröstur, sem hóf að leika með meistaraflokki ÍA fyrir ríflega hálfri öld og verður 72 ára á árinu.

Þröstur segir að menn hafi komist vel frá jólaátinu enda þýði ekki að gleyma sér og detta í spik heldur verði menn að halda sér í formi. „Við tökum vel á því og skemmtum okkur um leið,“ segir einn elsti ef ekki elsti iðkandi landsins í fótbolta. Hann bætir við að gömlu liðsfélagarnir séu löngu hættir og nú leiki hann sér með nær tvöfalt yngri mönnum, m.a. skólabróður yngri dótturinnar, stundum jafnvel með þrefalt yngri mönnum. „Sumir þessara gömlu öfunda mig en þeir eru margir hverjir búnir í fótunum og verða að láta sér nægja að horfa á,“ heldur Þröstur áfram.

Nám í Samvinnuskólanum á Bifröst varð til þess að Siglfirðingnum, sem þótti efnilegur í knattspyrnu og á skíðum og vann meðal annars til verðlauna á unglingalandsmóti á skíðum, bauðst starf í Samvinnubankanum á Akranesi 1965. „Ég sló til og ætlaði að vera í smátíma en hér er ég enn og enn að.“ Þess má geta að Hjálmar, bróðir hans heitinn, var afreksmaður á skíðum og Friðleifur, hinn bróðirinn, gat sér gott orð í badminton og frjálsíþróttum.

Hættur en lyfti bikarnum

Þegar Skagamenn urðu Íslandsmeistarar 1970 var Þröstur fyrirliði. Hann segir að allir titlarnir séu eftirminnilegir, Evrópuleikirnir á móti Dinamo Kiev og landsleikirnir. „Ég spilaði líka nokkra bikarúrslitaleiki en varð ekki bikarmeistari fyrr en ég var hættur að spila,“ rifjar hann upp. „Ég var formaður Íþróttabandalags Akraness þegar við unnum bikarinn í fyrsta sinn, unnum Val í úrslitaleik 1978 með marki Péturs Péturssonar og þá sögðu strákarnir að ég mætti lyfta bikarnum,“ segir hann og leggur áherslu á að félagsskapurinn sé ómetanlegur.

Þröstur fer reglulega í göngutúra með eiginkonunni, Guðmundu Ólafsdóttur, en hún sá til þess á sínum tíma að hann settist að á Akranesi. Einnig hjólar hann um bæinn þegar aðstæður leyfa, meðal annars á æfingar. „Ég er á tíu gíra hjóli en reyndar „alltaf í sama gírnum“. Vonandi verð ég sprækur áfram og að strákarnir vilji hafa mig með,“ segir kappinn síungi.