Reynir Eyjólfsson
Reynir Eyjólfsson
Eftir Reyni Eyjólfsson: "Sumar af þeim jurtum, sem hér eru teknar fyrir eru ekki á markaði hérlendis en eru auðfáanlegar víða erlendis."

Notkun jurta er teljast til svokallaðra fæðubótarefna til lækninga á margs konar kvillum hefur farið vaxandi að undanförnu eins og kunnugt er. Þessar vörur eru gjarnan auglýstar sem náttúruleg efni án aukaverkana eða milliverkana (víxlverkana) við lyf og önnur efni. Þetta er þó fjarri öllum sanni, enda hvílir lyfjafræðin að miklu leyti á plöntuefnafræðilegum grunni, og því er full þörf á faglegum upplýsingum hér að lútandi. Slíkar upplýsingar hafa þó ekki legið á lausu hér á landi og er þessum greinaflokki ætlað að ráða þar nokkra bót á. Fyrri greinar birtust í Morgunblaðinu 7. ágúst, 30. október, 26. nóvember og 22. desember 2015.

Þessi skrif eru stuttorð en vonandi gagnorð og sæmilega auðskilin bæði almenningi og heilbrigðisstéttum. Ekki er tekin ábyrgð á villum eða missögnum. Sumar af þeim jurtum, sem hér eru teknar fyrir eru ekki á markaði hérlendis en eru auðfáanlegar víða erlendis. Fjallað er um jurtirnar í röð af handahófi.

Einir – Juniperus communis – Juniper

Notaður plöntuhluti: Þurrkað ber.

Innihaldsefni: Ilmolía (mýrsen, sabínen, alfa- og beta-pínen, 4-síneól, kampfen, límónen), sútunarefni (tannín), díterpenar, flavónóíð (amentóflavón, kversetín, ísókversetín, apígenín).

Virkt efni: Ilmolía (alfa-pínen).

Notkun: Þvagræsandi, blöðrubólga.

Aukaverkanir: Langvarandi inntaka á eini í miklu magni getur valdið nýrnaskemmdum, krömpum og öðrum alvarlegum aukaverkunum.

Milliverkanir: Einir eykur virkni blóðsykurslækkandi lyfja, svo sem glímepíríðs, glýbúríðs, insúlíns, píóglítazóns, rosíglítazóns, klórprópamíðs, glípízíðs, tólbútamíðs. Sömuleiðis eykur hann virkni þvagræsilyfja, t.d. klórtíazíðs, klórtalídóns, fúrósemíðs, hýdróklórtíazíðs.

Varúð: Þungaðar konur og konur með börn á brjósti ættu alls ekki að nota eini.

Glitbrá – Tanacetum parthenium – Feverfew

Notaður plöntuhluti: Lauf.

Innihaldsefni: Seskvíterpenlaktónar (partenólíð, artíkanín, santamarín), mónóterpenar og seskvíterpenar (tújón, sabínen, kamfóra, 1,8-síneól, umbellulón), flavónóíð (apígenín, díosmetín, kversetín, jakeídín, jakeósídín).

Virk efni: Seskvíterpenlaktónar (partenólíð, santamarín).

Notkun: Mígreni, (liðagigt – gagnsemi ósönnuð).

Aukaverkanir: Óþægindi í munni, áblástur, niðurgangur, hægðatregða, brjóstsviði, ógleði.

Milliverkanir: Eykur virkni blóðþynnandi lyfja, svo sem aspiríns, íbúprófens, heparíns, warfaríns og þar með hættu á blæðingum. Getur haft áhrif á lyf, sem umbreytast í lifrinni, t.d. lóvastatín (blóðfitulyf), fexófenadín (ofnæmilyf) og mörg fleiri.

Varúð: Þungaðar konur og konur með börn á brjósti ættu ekki að nota glitbrá.

Hvítlaukur – Allium sativum – Garlic

Notaður plöntuhluti: Laukur (rótarhnýði).

Innihaldsefni: Lífræn brennisteinsefni (allisín, allýlmetýltrísúlfíð, díallýldísúlfíð, díallýltrísúlfíð, díallýltetrasúlfíð, allýlprópýldísúlfíð), mónóterpenar (sítral, geraníól, línalól, alfa- og beta-fellandren), flavónóíð (kempferól, kversetín).

Virk efni: Lífræn brennisteinsefni.

Notkun: Kvef, inflúenza, æðakölkun, háþrýstingur, krabbameinsvörn o.m.fl. („allra meina bót“).

Aukaverkanir: Andremma, annars eru aukaverkanir fátíðar. Þó hefur verið greint frá sviða í munni og maga, brjóstsviða, uppþembu, niðurgangi, ógleði, uppsölu, ofnæmi.

Milliverkanir: Hvítlaukur minnkar áhrif ísóníazíðs (berklalyf), ýmissa eyðnilyfja (nevírapín, delavirdín, sakvínavír), getnaðarvarnalyfja, sýklósporíns (ónæmisbælandi lyf). Hins vegar eykur hann áhrif margra lyfja, svo sem parasetamóls (verkjalyf), klórzoxasóns (vöðvaslakandi lyf), etanóls, teófyllíns (astmalyf), svæfingarlyfja (enflúran, halótan, ísóflúran, metoxýflúran), lóvastatíns (blóðfitulyf), sveppalyfja (ketókónazól, ítrakónazól), fexófenadíns (ofnæmilyf), tríazólams (svefnlyf), blóðþynnandi lyfja (aspirín, klópídógrel, díklófenak, íbúprófen, naproxen, dalteparín, enoxaparín, heparín, warfarín) og þar með hættu á blæðingum.

Varúð: Þungaðar konur og konur með börn á brjósti ættu ekki að nota hvítlauk nema í hófi (sem krydd).

Höfundur er doktor í lyfjafræði.