Hanna Zoëga Sveinsdóttir fæddist 25. september 1939. Hún lést 24. desember 2015. Útför Hönnu fór fram 5. janúar 2016.

Veistu, sagði Nanna vinkona mín við mig fyrir margt löngu, hún Hanna er að fara að gifta sig. En spennandi, sagði ég og þar með var sá dagurinn sveipaður ævintýraljóma. Á þessum árum var svo margt sem tengdist Hönnu eitt allsherjar ævintýri hjá okkur Nönnu. Við vorum litlar stelpur, 10-12 ára, Hanna var ung kona, eignaðist kærasta og horfði til framtíðar, þetta var spennandi líf í okkar huga. Við sáum lífið í rósrauðum bjarma. Seinna lærðum við að lífið er ekki rósrautt, ekki hjá okkur og ekki heldur hjá Hönnu, lífið er í öllum litum og Hanna kynntist öllum regnbogans litum í sínu lífi.

Ég fékk hana Nönnu í afmælisgjöf, var Hanna vön að segja, það munaði bara einum degi á afmælisdögunum okkar. Það var sérstakur strengur milli þeirra systra alla tíð, ósýnilegur en sterkur strengur. Ég man þegar Hanna og Gummi bjuggu í „gamla húsinu“, Bankastræti 14, og ég var stundum með Nönnu að passa þá Svein og Jón Val eða bara í heimsókn. Það voru góðar stundir, Hanna var alltaf hlý og skemmtileg, mikill húmoristi og notaleg heim að sækja. Og börnunum fjölgaði, Binni, Gunnar og svo Gigga litla. Börnin uxu úr grasi, eignuðust fjölskyldur og dreifðust um veröldina eins og nútímafólk gerir. Heimurinn er nánast landamæralaus. Hanna og Gummi voru tvö saman þar til Gummi dó í kjölfar veikinda. Hún var þó aldrei ein því fjölskyldan var alltaf nálæg. Jón Valur hugsaði til dæmis afar vel um mömmu sína í hennar veikindastríði þegar komið var að leiðarlokum hjá henni.

Ég er þakklát fyrir allar góðu minningarnar sem streyma fram þegar hugurinn reikar aftur í tímann, þakklát fyrir að hafa kynnst Hönnu með fallegu augun og hlýja brosið og ríkari af því að hafa þekkt Hönnu og fólkið hennar. Minningin lifir og hún er dýrmæt.

Og svo kemur nótt.

Svartnættið er eins og svalandi veig,

er sál þín drekkur í einum teyg.

Þreytan breytist í þökk og frið,

þögnin í svæfandi lækjarnið,

haustið í vor...

Hafðu þökk fyrir öll þín spor.

Það besta, sem fellur öðrum í arf,

er endurminning um göfugt starf.

(Davíð Stefánsson)

Ég votta fjölskyldu Hönnu, vinum og öðrum vandamönnum mína dýpstu samúð. Guð blessi ykkur öll.

Ragna Valdimarsdóttir.

Elsku Hanna mín, nú ert þú búin að kveðja okkur hér í veraldlegu lífi og haldin á vit ævintýranna með honum Gumma þínum. Eftir sitja gríðarlega margar og góðar minningar um fallega og góða konu sem ég frá unga aldri kallaði ekki bara Hönnu heldur Hönnu mömmu. Hanna mamma var svo samtvinnað hjá mér að ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég var kominn á unglingsárin að ég kallaði þig alltaf mömmu! Oft er sagt að enginn viti hvað átt hefur fyrr en misst hefur og enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Þegar maður kveður ástvini í hinsta sinn áttar maður sig betur á því að það eina sem skiptir máli eru minningarnar.

Ég á nóg af minningum um þig, elsku Hanna mamma mín, frá því ég var peyi bíðandi spenntur eftir að þú sæktir mig á Njálsgötuna til að gista í Huldulandi, heimsóknir í sjoppuna á Vesturgötu/Landspítalann/Háskólann, skammir eftir prakkarastrik með Gunnari og Atla Sveini, eiga annað heimili í Faxatúni, tartalettur a la Hanna, sextugsafmæli þitt í Ameríku, heimsóknir með litlu fjölskylduna mína til þín og Gumma í Bankó og svo mætti lengi telja. Nú veit ég hvað morgundagurinn ber í skauti sér hjá þér; þú og hann Gummi þinn eruð sameinuð á ný og horfið saman glöð og brosandi á arfleifð ykkar. Elsku Hanna mamma, ég, Ingibjörg, Kristófer Ingi, Arnór Ingi og Svava viljum þakka þér fyrir allar góðu samverustundirnar og allar þær fallegu minningar sem við munum ávallt bera í brjósti okkar með bros á vör.

Elsku Svenni og Fanney, Jón Valur, Binni, Gunnar og Norma, Gigga og Halli, barnabörn og aðrir fjölskyldumeðlimir, við vottum ykkur innilega samúð og kveðjum Hönnu mömmu með söknuði. Við biðjum góðan guð að styrkja okkur öll sem syrgjum hana.

Kristinn, Ingibjörg,

Kristófer Ingi, Arnór

Ingi og Svava.