John de Nysschen, forstjóri Cadillac, og Mark Reuss, framkvæmdastjóri hjá General Motors, kynntu nýjan Cadillac XT5 lúxusjeppa á bílasýningunni í Los Angeles í nóvember en eftirspurn eftir stórum bílum hefur farið vaxandi.
John de Nysschen, forstjóri Cadillac, og Mark Reuss, framkvæmdastjóri hjá General Motors, kynntu nýjan Cadillac XT5 lúxusjeppa á bílasýningunni í Los Angeles í nóvember en eftirspurn eftir stórum bílum hefur farið vaxandi. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Robert Wright í New York Bandarískur bílaiðnaður hefur gengið í endurnýjun lífdaga og eftir sex ára uppgang reyndist árið 2015 hið söluhæsta í sögu bílaframleiðslu í Bandaríkunum.

Bandarískir bílaframleiðendur kórónuðu makalaust sex ára batatímabil með líflegri sölu í desember. Salan í lok árs ýtti endurfæddri bílaframleiðslunni upp fyrir fyrra met frá árinu 2000 í heildarfjölda seldra bíla.

Vaxandi bjartsýni neytenda, hagstæð lán og lágt bensínverð hafa örvað söluna mun lengur en Wall Street hafði búist við. Þó þess megi vænta að hægi á vextinum, spá markaðsgreinendur því að 2016 verði líka metár.

Fyrstu sölutölur desembermánaðar benda til þess að á síðasta ári hafi verið seldir í kringum 17,5 milljón fólksbílar, jeppar og pallbílar, sem er meira en 17,3 milljóna bíla metið sem sett var árið 2000.

Gífurlegur uppgangur frá 2009

Þessi metsala undirstrikar uppganginn sem hefur verið hjá bílaframleiðendum, sem er langt umfram það sem búist hafði verið við síðan geirinn náði botni árið 2009, en þá voru aðeins seld 10,4 milljón ökutæki.

„2015 var afburðagott ár,“ segir Bill Fay, framkvæmdastjóri Toyota í Bandaríkjunum. Í desember voru sölutölur 10,8% hærri hjá Toyota, þriðja stærsta bílaframleiðanda landsins miðað við sölutekjur, en árið á undan.

Salan jókst um 5,7% hjá General Motors í desember miðað við sama mánuð í fyrra, 8,4% hjá Ford og 13% hjá FiatChrysler. Hefur salan ekki verið betri í desember hjá FiatChrysler síðan Chrysler var stofnað árið 1925.

Jeppar og pallbílar seljast vel

Það hjálpaði bílaframleiðendunum sérstaklega hve góð sala hefur verið í flokki stærstu bíla . Salan á jeppum og pallbílum hefur borið greinina uppi síðan eldsneytisverð byrjaði að lækka fyrir 18 mánuðum.

Ford hefur greint frá því að sala á Ford- og Lincoln-jeppum hefur aukist um 13,6%, og salan á pallbílum um 13%. GMC-jeppinn frá GM seldist 13% betur en árið á undan. Söluaukningin hjá FiatChrysler á árinu kom nær öll til vegna 42% söluaukningar á jeppum úr Jeep-línunni.

Michelle Krebs, sérfræðingur hjá bílafréttasíðunni Autotrader.com, segir að söluþróunin á árinu hafi komið fólki þar á bæ á óvart.

Hún skrifar aukna sölu á pallbílum á minnkandi atvinnuleysi, sér í lagi í geirum á borð við byggingariðnað.

„Þúsaldarkynslóðin er líka byrjuð að búa og farin að eignast börn,“ segir hún og bendir á að flóknu nýju barnabílstólarnir rúmist betur í jeppum en í fólksbílum.

Sveiflur í bílasölu ýktar

Mark Wakefield, sem fer fyrir bílasviði ráðgjafarfyrirtækisins AlixPartners, segir sveiflurnar í bílasölu ýktari en efnahagsaðstæður gefa tilefni til hverju sinni; fari hærra en innistæða er fyrir í efnahagslegri uppsveiflu og lengra niður í niðursveiflu.

„Það hefur verið jafn og góður bati á vinnumarkaði,“ segir Wakefield. „Á sama tíma hefur verið gott framboð á lánsfé, bæði hvað varðar vaxtastigið og betri lánamöguleika fyrir þá sem mælast með minna lánstraust.“

En bæði Wakefield og Krebs benda á vísbendingar um að söluaukningin hafi náð hámarki.

Krebs tiltekur að þeir afslættir sem seljendur eru að bjóða séu á uppleið og það bendi til að framleiðendur séu að leggja meiri áherslu á markaðshlutdeild en hagnað.

Wakefield segir að salan árið 2016 gæti numið 300.000 fleiri ökutækjum en á árinu 2015 en hækkandi vextir og vaxandi framboð á notuðum bílum muni á endanum þrengja að sölunni á nýjum bílum. „Við teljum að salan sé að ná hámarki,“ segir hann.