Stjórnvöld tóku ákvörðun árið 2009 um að draga sig að stærstum hluta út úr fjármögnun Íslandsbanka og Arion banka sem stofnaðir voru í árslok 2008.
Stjórnvöld tóku ákvörðun árið 2009 um að draga sig að stærstum hluta út úr fjármögnun Íslandsbanka og Arion banka sem stofnaðir voru í árslok 2008. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is 2,5 milljarða kostnaður lenti á ríkissjóði vegna þess hversu langan tíma það tók FME að veita Kaupþingi heimild til að fara með ráðandi eignarhlut í Arion banka.

Ríkissjóður fær ekki bættan 2.427 milljóna vaxtakostnað sem féll á hann í tengslum við stofnun Arion banka. Ástæðuna segir fjármála- og efnahagsráðuneytið vera þá að það hafi tekið Fjármálaeftirlitið langan tíma að veita Kaupskilum, félagi sem að fullu er í eigu slitabús Kaupþings, heimild til að fara með ráðandi eignarhlut í Arion banka. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins frá 29. desember síðastliðnum við fyrirspurn sem Morgunblaðið sendi ráðuneytinu hinn 15. júní síðastliðinn. Þar var leitað svara við því af hverju hluti þess vaxtakostnaðar sem ríkið hafði lagt út fyrir vegna stofnunar Arion banka og Íslandsbanka fékkst ekki greiddur af Kaupþingi og Glitni þegar samið var um að slitabúin eignuðust ráðandi hluti í bönkunum tveimur, en ViðskiptaMogginn fjallaði um hinn óbætta vaxtakostnað sem ríkið sat uppi með hinn 18. júní síðastliðinn.

Bankarnir tveir, Arion banki og Íslandsbanki, voru stofnaðir í árslok 2008 á grundvelli loforðs frá þáverandi fjármálaráðherra um eiginfjárframlag frá ríkissjóði. Í upphafi var talið að það þyrfti að nema 75 milljörðum í tilfelli Arion banka og 110 milljörðum í tilfelli Íslandsbanka. Niðurstaðan varð hins vegar sú að Arion banka voru lagðir til 70,9 milljarðar og Íslandsbanka 64,1 milljarður, í báðum tilvikum í formi skuldabréfs. Þegar leið á árið 2009 varð úr að slitabúum gömlu bankanna var veitt heimild til að taka yfir þessa fjármögnun og úr varð að sá vaxtakostnaður sem ríkissjóður hafði greitt af skuldabréfunum yrði endurgreiddur af hinum nýju eigendum. Í tilfelli Arion banka var ákveðið að gera það í formi sérstakrar arðgreiðslu út úr bankanum.

Í skýrslu sem fjármálaráðherra lagði fram á Alþingi árið 2011 kom hins vegar fram að hluti vaxtagreiðslnanna hefði ekki fengist endurgreiddur. Allt í allt reyndist vaxtakostnaður ríkissjóðs af stofnun Arion banka vera 10.672 milljónir króna sem féll til frá stofndegi bankans 21. október 2008 og til 10. janúar 2010 þegar bankinn var endurfjármagnaður af Kaupþingi. Sérstaka arðgreiðslan sem átti að mæta þessum vaxtakostnaði nam hins vegar einungis 6.500 milljónum. Því virðist sem niðurstaða samninga milli ríkisins og Kaupþings hafi orðið sú að ríkissjóður bæri vaxtakostnaðinn fyrir tímabilið frá því að samningar tókust um endurfjármögnun bankans og þar til FME samþykkti að Kaupþing færi með ráðandi hlut í bankanum í gegnum félag sitt, Kaupskil.