David Cameron forsætisráðherra Bretlands, Mariano Rajoy forsætisráðherra Spánar, Angela Merkel kanslari Þýskalands, Donald Tusk forseti leiðtogaráðs ESB og Boyko Borisov forsætisráðherra Búlgaríu á leiðtogafundi.
David Cameron forsætisráðherra Bretlands, Mariano Rajoy forsætisráðherra Spánar, Angela Merkel kanslari Þýskalands, Donald Tusk forseti leiðtogaráðs ESB og Boyko Borisov forsætisráðherra Búlgaríu á leiðtogafundi. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Wolfgang Münchau Sameiginlegur innri markaður þarf ekki sameiginlegan gjaldmiðil en sameiginlegur gjaldmiðll krefst hins vegar samruna umfram innri markað. Því ættu lönd ESB að nýta þá bresti sem nú eru komnir í samstarfið til þess að endurskilgreina það, að mati greinarhöfundar.

Núna þegar við göngum inn í seinni helming annars áratugar þessarar aldar má sjá að ESB er farið að gliðna í sundur eftir þremur markalínum. Sú fyrsta skilur velmegandi norðrið frá skuldsettu suðrinu. Önnur aðskilur evrópu-tortrygginn jaðarinn frá evrópu-sinnuðu miðjunni. Sú þriðja greinir á milli frjálslyndu ríkjanna í vestri annars vegar, og hins vegar landanna í austrinu þar sem ber æ meira á alræðistilburðum. Sundrung og klofningur blasir við.

Erfitt er að gera nákvæmar spár fyrir árið 2016. Það eru margir augljósir áhættuþættir sem þegar liggja fyrir. Í Bretlandi verður haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildina að ESB. Flóttamenn streyma jafnt og þétt inn í álfuna. Efnahagslegur óstöðugleiki fer vaxandi. Grikkland í efnahagsvanda. Hálf-gjaldþrota ítalskt bankakerfi og yfirvofandi togstreita um ríkisfjármál á milli Þýskalands og ríkjanna á jaðri ESB. Vaxandi hryðjuverkaógn íslamskra ofstækismanna. Pólitískt óvissuástand á Spáni og í Portúgal. Lausn á Úkraínudeilunni enn víðsfjarri. Útblásturshneyskli Volkswagen sem, þrátt fyrir að vera ekki lengur á allra vörum, gæti samt grafið undan einni sterkustu stoðum iðnaðar sem enn er til staðar í álfunni. Með svona mörg vandamál í gangi á sama tíma finnst mér gagnlegra að horfa á heildarmyndina, á kerfislægu hættuna sem stafar ekki af neinu einu tilteknu vandamáli heldur af því að fást þarf við svo mörg samtímis.

Misheppnaðar málamiðlanir

Um leið og við stígum eitt skref til baka þá fer að virðast eins og þessi aragrúi vandamála sé ekki hrein tilviljun. Það er óhjákvæmilegt að rekast á endanum á vegg þegar stofnað er til myntbandalags án þess að til staðar séu sameiginlegar efnahagsstofnanir, sameiginleg stefna í ríkisfjármálum og sameiginlegt lagakerfi. Á sama hátt verður það svæði þar sem fólk getur ferðast um án vegabréfa ekki til langframa, ef ekki er til staðar sameiginleg strandgæsla og landamæraeftirlit.

Mynstrið er farið að koma í ljós. Evrópusambandinu virðist ásköpuð tilhneiging til misheppnaðra málamiðlana og aðgerða til að halda friðinn. Það varð engin grundvallarbreyting á síðasta ári, nema sú að mun fleira fólki varð þessi vandi ljós.

Þegar brestir gera vart við sig, er það okkur ennþá áfall. En þeir hafa líka í för með sér ný tækifæri. Ég er á þeirri skoðun að stærstu mistökin sem ESB gæti gert nú væri að halda uppteknum hætti. Það er líklegra að stórtækar breytingar verði knúnar fram af kjósendunum sjálfum, í þjóðaratkvæðagreiðslum líkt og þeirri sem er á döfinni í Bretlandi, heldur en af stjórnmálamönnum og erindrekum. Ferlarnir innan Evrópusambandsins reyna að forða hvers kyns skyndilegu raski. Það verður ekki fyrr en að þrýstingur frá höfuðborgum sambandsríkjanna verður of mikill, að allt fer að flosna upp.

Hætt er við að þetta geti orðið til þess að hrinda af stað stjórnlausri sundrungu. En það eru þó ágætar líkur á að pólitískir leiðtogar Evrópu muni verða nægilega skynsamir til að fara uppbyggilegu leiðina. Atkvæðagreiðsla í Bretlandi um að segja skilið við ESB gæti, þegar til lengri tíma er litið, orðið kveikjan að víðtækari umbreytingum innan ESB, þar sem annars vegar verður til innri hópur landa sem vilja stefna að auknum samruna, og hins vegar ytri hópur landa þar sem Bretland og fleiri myndu una sér vel.

Brestirnir skapa tækifæri

Ef brestir koma í evrusvæðið sem ég vænti þess enn að muni gerast á einhverjum tímapunkti, fælust líka í því tækifæri til víðtækari endurskipulagningar. Þegar við lítum á evruna sem fastgengiskerfi með sameiginlegan gjaldmiðil, frekar en óbreytanlegt myntsamstarf, þá er eins og allt fái á sig skýrari mynd.

Slíkt kerfi myndi aðeins ganga hjá litlum hópi þjóða með meira eða minna samleitin hagkerfi. Austurríki og Þýskaland hafa viðhaldið nokkurs konar fastgengisstefnu allt frá áttunda áraugnum. Af hverju gætu löndin ekki haldið því áfram í 50 ár til viðbótar? Frakkland og Þýskaland hafa í meginatriðum verið með fast skiptigengi frá því á níunda áratugnum. Af hverju ætti gengisþróun að verða með öðrum hætti þeirra á milli núna?

Rökin fyrir frekari efnahagslegum og pólitískum samruna milli Þýskalands og Frakklands eru áfram í grundvallaratriðum sterk og mun sterkari en rökin fyrir auknum pólitískum og efnahagslegum samruna innan ESB, þar sem sum löndin taka þátt í myntbandalaginu og önnur hafa engin plön uppi um slíkt.

Það voru aldrei sannfærandi röksemdir að baki málflutningnum um að sameiginlegur innri markaður kallaði á sameiginlegan gjaldmiðil. En andhverf rök eru enn góð og gild. Lönd með sameiginlega mynt krefjast mun dýpri samruna en lönd sem halda hvert í sinn gjaldmiðilinn. Ef við sættum okkur við það að ESB sé ríkjasamband þar sem margir gjaldmiðlar fái að þrífast, eins og ætti núna að blasa við, þá þurfum við að samþykkja það um leið að ESB er ekki einn markaður heldur samansafn aðskilinna markaða.

Stækkun ESB söguleg mistök

Ofan á efnahagslegu upplausnina er Evrópa að gliðna í sundur eftir pólitískum brotalínum milli austurs og vesturs. Bæði Ungverjaland og Pólland hafa kosið til valda ríkisstjórnir af hægri væng stjórnmálanna sem eru tortryggnar gagnvart evrópusamstarfi. Báðar hafa þær gengið á sjálfstæði dómstóla og frelsi fjölmiðla. Ég hef verið þeirrar skoðunar um alllangt skeið að stækkun ESB hafi ekki verið það sögulega tækifæri sem margir héldu fram, heldur söguleg mistök. Stækkunin hefur aukið á ósættið milli landa Evrópu og gert ESB illa starfhæft.

Í mínum huga væri uppbrot og uppstokkun ESB ekki ógn sem ætti að varast, heldur tækifæri sem ætti að grípa. Ég vænti þess að árið 2016 færi okkur meiri bresti. Ég vona bara að þeim verði stýrt á skynsamlegan hátt.