Svavar Gísli Stefánsson fæddist 20. apríl 1944. Hann lést 17. desember 2015.

Foreldrar hans voru Stefán Sigurdórsson og Þórunn Halldóra Gísladóttir.

Eftirlifandi kona hans er Dagrún Sigurðardóttir. Saman eiga þau tvo syni: Sigurð Vilberg, í sambúð með Elínu Káradóttur, og Halldór Þór, í sambúð með Maríu Lenu Arngrímsdóttur. Þau eiga tvo syni, Ágúst Mána, sjö ára, og Rökkva Frey, fjögurra ára. Fyrir átti Svavar soninn Svavar Gísla sem búsettur er á Nýja-Sjálandi. Kona hans er Lyllian og eiga þau tvær dætur, Nycole Mæju og Kahtlyn. Hann á líka dótturina Sigrúnu Maríu og hennar barn er Sunna Líf.

Svavar starfaði lengst af hjá Símanum eða frá árinu 1969 allt til ársins 2013.

Útför hans fór fram í kyrrþey.

Hinn 17. desember lést pabbi minn eftir langa og hetjulega baráttu við krabbamein. Þessa fimmtudagsnótt kvaddi ég í síðasta sinn þann mann sem hefur haft mest áhrif á mig og mitt líf.

Pabbi var mjög yfirvegaður og rólegur maður sem lét ekki mikið fyrir sér fara en var þó alltaf til staðar þegar ég þurfti að leita til hans. Hann gerði ekki mikið af því að leggja manni lífsreglurnar en samt sem áður kenndi hann mér mikið. Hvernig pabbi hagaði sér og sínu lífi hefur mótað mig mikið og ég hef tileinkað mér margt úr hans fari, bæði meðvitað og ómeðvitað. Ég er ekki viss um að hann hafi áttað sig á því hversu mikið ég lærði af honum með því einu að fylgjast með honum.

Pabbi var mikill fjölskyldumaður. Á hverju sumri þegar við bræðurnir vorum yngri var farið í ferðalög innanlands. Ungur hafði maður farið víða um landið og þekkti það vel enda reyndu mamma og pabbi alltaf að kenna okkur bræðrunum einhver staðarheiti. Þessi sumarfrí munu lifa lengi í minningunni, allar sumarbústaðaferðirnar í Munaðarnes, veiðiferðirnar í Hlíðarvatn, ferðirnar vestur á Þingeyri og svona mætti lengi telja.

Pabbi var alltaf til í að aðstoða fjölskyldu og vini. Ekki mátti nokkur maður skipta um síma eða sjónvarpstæki án þess að pabbi væri boðinn og búinn að aðstoða við uppsetningu á tækinu. Þegar hann var yngri eyddi hann öllum sumrum í Götu við að aðstoða afa og ömmu við búskapinn. Á síðari árum voru þau mamma mjög dugleg að fara vestur á Mýrar til að aðstoða Begga og Lóu með búskapinn og önnur tilfallandi verkefni. Eins þegar við bræðurnir þurftum aðstoð þurfti ekki annað en eina símhringingu og pabbi var mættur með öll tól og tæki.

En pabbi var ekki bara mikill fjölskyldumaður, hann var einnig mikill Símamaður enda vann hann þar í rúm 40 ár. Strax sem krakki var ég farinn að mæta í vinnuna með pabba á Sölvhólsgötuna og voru það mín fyrstu kynni af Símanum. Þegar ég var 15 ára útvegaði hann mér vinnu á lager Símans og þar með var ég kominn inn í Símafjölskylduna. Í dag, tæpum 20 árum seinna, vinn ég enn hjá Símanum og dótturfélagi þess. Eftir að pabbi lauk störfum gátum við alltaf rætt vinnuna og iðulega spurði hann frétta af Símanum.

Elsku pabbi, nú ertu farinn frá okkur og við söknum þín mikið. Erfiðast þykir mér þó að vita til þess að þú fékkst ekki tækifæri til að hitta ófædda dóttur okkar Elínar, sem er væntanleg í heiminn í apríl. Ég mun segja henni sögur af þér og sjá til þess að hún fái að kynnast þér jafnvel þótt þið hafið ekki náð að hitta hvort annað. Takk fyrir allt pabbi.

Sigurður (Siggi).

Hann pabbi er dáinn eftir mikla og langa baráttu við krabbamein. Hans verður sárt saknað enda var hann mér allt, bæði stoð mín og stytta. Pabbi var með hjálpsamari mönnum sem ég hef kynnst, alltaf tilbúinn að aðstoða mann hvernig svo sem stóð á hjá honum, bara ef hann fékk símtalið þá var hann kominn af stað til að bjarga málunum. Hann reyndi eftir fremsta megni að vera ekki bara pabbi heldur vinur og hann var mér sannur vinur.

Þegar ég var lítill gutti fór ég mikið með honum í vinnuna niður á Síma og fannst það gaman. Þetta voru skemmtilegustu dagarnir í minningunni því hann passaði alltaf að maður sæti nú ekki iðjulaus og hafði alltaf eitthvert verkefni fyrir mann.

Pabbi var mikill fjölskyldumaður og var duglegur að fara með okkur í ferðalög um landið og í veiðiferðir hingað og þangað. Einnig var hann mikill sveitamaður og vegna þess fékk ég þau forréttindi að vera sjálfur mikið í sveit austur í Götu, sem var annað heimili pabba á hans uppvaxtarárum.

Unglingsárin mín voru okkur báðum erfið, samskiptin lítil og stirð enda var ég í mikilli óreglu. Það stöðvaði pabba samt ekki við að reyna og gera allt til þess að draga mann áfram í lífinu, ná fótfestu upp á nýtt og aðstoða mig við að komast út úr ruglinu. Í dag er mér það dýrmætast að hann hafi fengið að sjá mig stíga úr öskustónni og gera eitthvað við líf mitt. Það er ómetanlegt fyrir mig að hafa fengið að vera til staðar fyrir hann á þessum síðustu og erfiðu árum áður en hann dó.

Pabbi, nú getur þú hvílt í friði því baráttan er búin og þú ert kominn á betri stað. Þú þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af mér því ég er á réttri braut. Takk fyrir samleiðina, þín verður sárt saknað. Þinn sonur,

Halldór (Dóri).

Ég hitti nafna minn og blóðföður fyrst þegar ég var rétt um tvítugt. Sem barn var ég ættleiddur af yndislegu góðu fólki, sem frá þeirri stundu og enn þann dag í dag eru foreldrar mínir. Ekki var farið í neinn þykjustuleik og frá byrjun vissi ég af blóðmóður minni, þó svo samskiptin væru lítil. En hver sem ástæðan var þá hitti ég ekki Svavar, blóðföður minn, fyrr en þetta miklu seinna.

Það kom þannig til að þegar ung dóttir mín var greind með barnaflogaveiki ýttu læknar ansi hart á mig að finna út hvort þetta væri í ættinni. Fékk ég þá flugu í höfuðið að grennslast fyrir um föðurættina mína og eftir örstutta fyrirspurn var ég kominn með símann hjá Svavari.

Fyrsta símtalið gekk ótrúlega vel. Svavar sagði mér hversu mikið hann hefði alltaf viljað hitta mig, en hann hefði viljað virða það að ég ætti aðra fjölskyldu. Spurði hann að fyrra bragði hvort við gætum hist, sem ég tók fagnandi. Heimsóknin tókst vel og okkur líkaði strax vel hvorum við annan.

Frá þeim degi var ég orðinn hluti af fjölskyldunni. Dagrún tók mér eins og þriðja syninum, og Siggi og Dóri tóku mér sem bróður. Svavar-pabbi og Dagrún voru bæði mér og mínum afskaplega góð. Mér var tekið ásamt ýmsum þeim göllum sem við flestöll burðumst með í einhverjum mæli, og umburðarlyndið og jákvæðnin mikil hjá þeim öllum.

Við Dagrún töluðumst oft meira við, og gerum enn, og var ekki óalgengt að Svavar-pabbi spjallaði við mig í nokkrar mínútur þegar ég hringdi en segði svo: Já, viltu ekki heyra í Dagrúnu?“ sem var ekkert ósvipað og þegar pabbi sagði: Já, viltu ekki tala við mömmu þína?“

Mér þótti alltaf mikið til um hversu rólegur Svavar-pabbi var og hversu vel hann var liðinn. Það var afslöppun að koma til þeirra í kaffi, tala um lífið og tilveruna, og stundum hitta aðra ættingja. Það er t.d. voða gott að hafa kynnst afa mínum honum Stefáni, sem var álíka yndislegur maður og Svavar-pabbi.

Síðan ég hitti Svavar-pabba fyrst hef ég eytt meiri tíma erlendis en á Íslandi. Við vorum samt alltaf í bandi reglulega og svo er auðvitað fésbókin þess eðlis að fólk er stöðugt í sambandi að einhverju leyti. Það var yndislegt að ég náði að heimsækja Svavar-pabba í nóvember síðastliðnum með fjögurra ára dóttur minni. Við áttum gott spjall, til að mynda um það að hann mætti vel við una, að eiga þrjá syni sem allir þrír eru nú búnir að koma sér nokkuð vel fyrir í lífinu, eða því sem næst ráðsettir.

Ég mun sakna Svavars-pabba. Það var gott og gefandi að fá að vera hluti af hans lífi og fjölskyldu, og fyrir það verð ég ævinlega þakklátur. Dagrúnu, bræðrum mínum og allri fjölskyldunni votta ég mína dýpstu samúð.

Svavar Gísli Ragnarsson.

HINSTA KVEÐJA
Ég sendi þér kæra kveðju
nú komin er lífsins nótt,
þig umvefji blessun og bænir
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum
þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Kveðja
Dagrún Sigurðardóttir
og fjölskylda.