Tímamót Aron Pálmarsson lék sinn 100. landsleik á gamla heimavelli í Kaplakrika. Leikurinn var honum vart minnistæður fyrir annað.
Tímamót Aron Pálmarsson lék sinn 100. landsleik á gamla heimavelli í Kaplakrika. Leikurinn var honum vart minnistæður fyrir annað. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Kaplakrika Ívar Benediktsson iben@mbl.

Í Kaplakrika

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Fjögurra marka tap fyrir Portúgal, 32:28, og mjög slakur leikur hlýtur að vekja leikmenn íslenska landsliðsins í handknattleik karla nú þegar átta dagar eru þangað til flautað verður til leiks á Evrópumeistaramótinu í Póllandi. Leikmenn liðsins hafa nú rúma viku til þess að reka af sér slyðruorðið og standa undir þeim væntingum sem þeir sjálfir og þjálfarinn hafa til hópsins þegar á hólminn verður komið.

Flest brást sem brugðist gat í leiknum í gær gegn frískum Portúgölum. Sannarlega eru Portúgalar ekki neinir byrjendur en það er óviðunandi að stilla upp sterkasta liði sem völ er á og tapa á sannfærandi hátt með fjögurra marka mun rúmri viku áður en farið er á stórmót, mót sem Portúgalar geta aðeins leyft sér að dreyma um að taka þátt í einhvern tímann með tíð og tíma.

Fyrri hálfleikur var alls ekki eins og best verður á kosið. Varnarleikurinn var slakur. Engu máli virtist skipta þótt skipt væri um leikmenn, allstaðar voru göt og skyttur portúgalska liðsins áttu greiða leið með skot sín að markinu þar sem Björgvin Páll Gústavsson stóð bjargarlítill í markinu. Björgvin varði sex skot á fyrstu sex sjö til sjö mínútum leiksins og eitt skot eftir það fram að hálfleik. Talanda og færslur vantaði í vörninni og ljóst að Bjarki Már Gunnarsson er langt frá að vera í leikæfingu. En til þess eru leikir eins og þessir, að reyna að koma mönnum í stand eða vonast til þess. Tandri Már Konráðsson lék einnig með Vigni Svavarssyni í hjarta varnarinnar en náði litlu betri árangri í samvinnunni en Bjarki Már.

Sóknarleikurinn hafði sínar góðu og slæmu hliðar. Vel gekk að leika menn í færi en því miður þá fóru allmörg opin færi forgörðum og sömu sögu má segja um sendingar á línumenn eða aðra sem voru í köflum en efniviðurinn var fyrir hendi.

Eins marks forysta í hálfleik var nokkuð frá þeim möguleikum sem voru fyrir hendi, 17:16.

Varnarleikurinn gekk strax betur í síðari hálfleik. Vignir og Tandri Már náðu betur saman og báru hitann og þungann í miðri vörninni. Betur tókst að loka fyrir portúgölsku skytturnar sem léku ekki eins lausum hala og í fyrri hálfleik. Samhliða þessu varði Björgvin Páll enda varnarleikurinn þéttari. Þá voru bakverðirnir ákveðnari en í fyrri hálfleik.

Hinsvegar var það sóknarleikurinn sem bilaði lengi vel í síðari hálfleik. Skot voru mörg slök og lítt ígrunduð, auk þess sem opin góð færi fóru forgörðum eins og í fyrri hálfleik. Portúgalar náðu tveggja marka forskoti, 26:24, þegar tæpar tíu mínútur voru eftir og fjögurra marka forskoti þegar átta mínútur voru til leiksloka. Sóknarleikurinn var í molum, nokkuð sem ekki hefur verið aðalhausverkur íslenska landsliðsins á þessum tíma árs.

Í örvæntingarfullum tilraunum til þess að jafna leikinn á síðustu 10 mínútunum þá hrundi varnarleikurinn einnig svo úr varð algjörlega stjórnlaus leikur af hálfu íslenska landsliðsins. Forskot portúgalska liðsins tókst íslenska liðinu aldrei að brúa og glaðbeittir Portúgalar yfirgáfu Kaplakrika. Íslensku leikmennirnir voru skiljanlega vonsviknir eins og áhorfendur. Leikur íslenska landsliðsins gaf ekki ástæðu til bjartsýni. Slen var yfir alltof mörgum leikmönnum og hlutirnir oft unnir á hálfum hraða. Kannski eru menn að spara sig fyrir átökin í Póllandi. Slíkt er ekki vænlegt til árangurs.

Þó mega menn ekki fara á taugum þótt illa hafi gengið í gær. Í undanfara margra síðustu stórmóta hefur á ýmsu gengið hjá íslenska landsliðinu. Kapallinn hefur ekki alltaf gengið upp fyrr en á hólminn er komið.

Af þeim átján leikmönnum sem voru á leikskýrslu hjá íslenska liðinu í gær í Kaplakrika komu Rúnar Kárason, Aron Rafn Eðvarðsson, Guðmundur Hólmar Helgason, Kári Kristján Kristjánsson og Stefán Rafn Sigurmannsson ekkert við sögu og aðrir eins og Ólafur Andrés Guðmundsson fengu lítið hlutverk.

Greinilegur vandi er í varnarleiknum þar sem Bjarki Már virðist ekki vera við góða heilsu né í leikæfingu enda ekki leikið handknattleik í margar vikur. Tandri Már og Vignir voru í aðalhlutverki í vörninni og svo virðist sem það verði þeirra helstu hlutverk á EM í Póllandi.

Ísland – Portúgal 28:32

Kaplakriki, vináttulandsleikur karla, miðvikudag 6. janúar 2015.

Gangur leiksins : 3:2, 5:4, 8:6, 11:10, 13:12, 17:16 , 18:20, 21:21, 23:23, 24:25, 27:29, 28:32 .

Mörk Íslands: Guðjón Valur Sigurðsson 7/4, Aron Pálmarsson 6, Ásgeir Örn Hallgrímsson 4, Vignir Svavarsson 4, Alexander Petersson 2, Róbert Gunnarsson 2, Arnór Atlason 1, Arnór Þór Gunnarsson 1, Tandri Már Konráðsson 1.

Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 16.

Utan vallar: 4 mínútur

Mörk Portúgals: Fabio Antunes 6, Gilberto Duarte 6, Claudio Pedroso 5, Antonio Areia 4/2, Pedro Portela 3, Tiago Rocha 2, José Costa 2, Fabio Magalhaes 2, Tiago Pereira 1, Pedro Solha 1.

Varin skot: Alfredo Quintana 18/1.

Utan vallar: 10 mínútur

Dómarar: Per Olesen og Claus Gramm Pedersen.

Áhorfendur : 2.000.