Nýburi Fæðingum hefur fækkað á Landspítalanum frá árinu 2009.
Nýburi Fæðingum hefur fækkað á Landspítalanum frá árinu 2009. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is Færri börn fæddust á landinu á síðasta ári en árin á undan, samkvæmt lauslegri samantekt blaðsins. Tekið skal fram að heimafæðingar eru ekki tilgreindar. Á árinu 2015 fæddust 3.105 börn á Landspítalanum, 1.

Baksvið

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

Færri börn fæddust á landinu á síðasta ári en árin á undan, samkvæmt lauslegri samantekt blaðsins. Tekið skal fram að heimafæðingar eru ekki tilgreindar.

Á árinu 2015 fæddust 3.105 börn á Landspítalanum, 1.596 drengir og 1.509 stúlkur, í 3.036 fæðingum en 70% allra fæðinga eru á Landspítalanum. Fæðingarnar árið 2015 eru aðeins færri en árið áður en þá voru þær 3.133 talsins. Fæðingum hefur fækkað með hverju ári frá árinu 2009 en það ár var metfjöldi fæðinga, í kringum 3.500. Börn í þeim árgangi hófu skólagöngu síðasta haust og er stundum vísað til þess að þau hafi komið undir í hruninu árið 2008.

Fjöldi fæðinga í mánuði sveiflast eftir árum. Oftast eru margar fæðingar á sumarmánuðunum en heldur rólegra er á fæðingardeildinni í nóvember og fram í janúar. Á síðasta ári fæddust flest börnin í september á Landspítalanum, alls voru fæðingarnar 296.

Ekki færri fæðingar á Akureyri síðan 1987

„Þetta eru mjög fáar fæðingar og þær hafa ekki verið svona fáar síðan árið 1987. Við þurfum greinilega að fara í átak og fá fólk á Norðurlandi til að fjölga sér ef Norðlendingar ætla að halda áfram að viðhalda mannkyninu,“ segir Ingibjörg Jónsdóttir, yfirljósmóður á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Árið 2015 fæddist 381 barn á Sjúkrahúsinu á Akureyri í 377 fæðingum en tvíburafæðingar voru fjórar. Stúlkurnar voru 194 og drengir 187. Meðalfjöldi fæðinga á Akureyri hefur undanfarið verið í kringum 430 á ári.

Tíðni keisaraskurða var 12%, það telst mjög lágt að sögn Ingibjargar. Hún bendir á að líklega megi rekja lágt hlutfall keisaraskurða til þess að fleiri konur voru fjölbyrjur á síðasta ári. Keisaraskurðir eru algengari meðal kvenna sem ganga með fyrsta barn.

Ingibjörg segir að ekki sé hægt að rekja færri fæðingar á Akureyri til þess að fleiri konur á svæðinu hafi átt börnin annars staðar. Á hverju ári þarf sama hlutfall kvenna að sækja fæðingarþjónustu á höfuðborgarsvæðinu af ýmsum ástæðum, að sögn Ingibjargar.

Ekki er búið að greina fæðingargögnin eftir búsetu foreldra og barna, líkt og alltaf er gert. „Okkar tilfinning er þó sú að Skagfirðingar hafi staðið sig mjög vel í barneignum árið 2015,“ segir Ingibjörg.

Aðeins færri á Selfossi

Á Selfossi fæddust færri börn árið 2015 en árið 2014, sem var metár. Á nýliðnu ári voru 65 fæðingar og börnin 65 talsins, 32 drengir og 33 stúlkur. „Það er óvenju lítið af sunnlenskum konum í janúar. Það hafa fáar ætlað að slást um nýársbarnið en þetta eru eðlilegar sveiflur,“ segir Sigrún Kristjánsdóttir, ljósmóðir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, spurð út í skráðar fæðingar á þessu ári.

„Þetta var gott meðalár og aðeins fleiri fæðingar en árið áður,“ segir Oddný Gísladóttir, ljósmóðir á Fjórðungssjúkrahúsi Austurlands í Neskaupstað. Þar fæddust 85 börn, 50 strákar og 35 stúlkur. Fyrsta barn ársins í Neskaupstað kom í heiminn 5. janúar. Það var stúlkubarn, sem faðirinn fékk í afmælisgjöf.

Á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fæddust 82 börn árið 2015 en árið 2014 voru þau 103 talsins.

Eðlilegar sveiflur

„Þetta eru eflaust eðlilegar sveiflur. Það hefur ekkert breyst í starfseminni eða þjónustunni sem gæti mögulega skýrt færri fæðingar. Í rauninni veit maður ósköp lítið af hverju fæðingunum hefur fækkað frá árinu 2009,“ segir Anna Sigríður Vernharðsdóttir, yfirljósmóðir á Landspítalanum.

Ekki lítur úr fyrir að barnasprenging verði á árinu sem er nýgengið í garð ef litið er á fyrstu þrjá mánuði ársins. Skráðar fæðingar á Landspítalanum í þeim mánuðum eru svipað margar og hafa verið síðustu ár. Enn er þó of snemmt að fullyrða um slíkt enda er fyrsti mánuður ársins rétt nýhafinn.