Á gangi í vetrarsólinni Margir ungir karlar sem farið hafa út af sporinu fá fjárhagsaðstoð í Reykjavík.
Á gangi í vetrarsólinni Margir ungir karlar sem farið hafa út af sporinu fá fjárhagsaðstoð í Reykjavík. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Vísbendingar eru um að hátt hlutfall atvinnulausra einstaklinga sem farið hafa í viðtöl hjá sálfræðingum Reykjavíkurborgar hafi glímt við geðræn vandamál og eigi að baki ofneyslu áfengis og vímuefna.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Vísbendingar eru um að hátt hlutfall atvinnulausra einstaklinga sem farið hafa í viðtöl hjá sálfræðingum Reykjavíkurborgar hafi glímt við geðræn vandamál og eigi að baki ofneyslu áfengis og vímuefna.

Um er að ræða einstaklinga sem hafa fengið vottorð frá lækni um óvinnufærni og eiga því rétt á fjárhagsaðstoð hjá borginni.

Árið 2014 fengu 1.144 óvinnufærir einstaklingar/sjúklingar fjárhagsaðstoð í borginni, eða 61% fleiri en árið 2009.

Eins og Morgunblaðið hefur sagt frá voru þrír sálfræðingar ráðnir til starfa á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar í apríl 2014 til að vinna sérstaklega með hópi óvinnufærra. Á næstu 18 mánuðum, eða fram til loka október 2015, voru alls 485 einstaklingar bókaðir í viðtöl hjá þessum sálfræðingum.

Anna Njálsdóttir sálfræðingur er einn þessara sálfræðinga, en hver þeirra sinnir tveimur þjónustumiðstöðvum í borginni í fullu starfi.

Hún segir tölur liggja fyrir um 376 einstaklinga sem mættu í viðtal á fjórum þjónustumiðstöðvum í Laugardal og Háaleiti, Grafarvogi og Kjalarnesi, Miðborg og Vesturbæ og Miðborg og Hlíðum.

Af þessum 376 áttu um 75% við geðræn einkenni að stríða, heldur fleiri karlar en konur. Um 39% áttu við fíknivanda að stríða. Þar af voru um sjö af hverjum 10 karlar, alls um 100 karlar. Þá áttu um 159 einstaklingar, karlar og konur, bæði við neyslu- og geðrænan vanda að stríða.

Berjast við að vera edrú

„Þessi hópur er mjög misjafn og hann er líka misjafn eftir borgarhlutum. Margir eru að berjast við að vera edrú, en eiga erfitt með það vegna þess að staða þeirra er orðin svo slæm. Hafa oft byrjað neyslu mjög snemma vegna vanlíðunar í skóla. Þá fer fólki að líða illa og á erfitt með að halda sér frá sinni fíkn og er komið á þann stað að vera komið á framfærslu borgarinnar. Það styrkir ekki sjálfsmatið hjá fólki. Það er nánast samdóma álit okkar að þetta sé ekki gott fyrir sjálfsmat skjólstæðinga okkar. Fólk einangrar sig. Það vill síður fara á mannamót, eða vera innan um fólk, jafnvel ættingja sína. Því það eru allir að spyrja fólkið, eins og aðra atvinnuleitendur, hvað það sé að gera og hvort það ætli ekki að finna sér vinnu. Fólkið segir við sig sjálft: „Ég get ekki neitt. Ég er bara á fjárhagsaðstoð, eða á atvinnuleysisbótum.“ Það er ekki gott. Ef fólk veit ekki hvert það á að fara eða hvernig það á að komast út úr vandanum upplifir það mikið bjargarleysi. Þarna vantar sálfræðiaðstoð á heilsugæsluna. Þunglyndi, kvíði og félagsfælni er fylgifiskur atvinnuleysis hjá allflestum sem koma til okkar.“

Hún segir sjálfsmynd margra ungra karla því laskaða. Af þeim 485 einstaklingum sem hafi verið bókaðir í viðtöl hafi 226 hætt á fjárhagsaðstoð.

Sækja í kannabisreykingar

Anna segir kannabisneyslu áberandi hjá ungum körlum. „Þeir eru mikið í kannabis, segjast hafa ekkert annað að gera. Þeir vilja í allflestum tilfellum hætta að reykja kannabis, en gera það ekki vegna þess að þeir hafa ekkert annað fyrir stafni. Því miður.“

Hún segir afskipti af þessum hópi bera árangur. Margir hafi komið sér af stað og í vinnu. Hún segir erfiðustu tilvikin þau þegar fólk með geðraskanir er líka í neyslu. Þá geti jafnvel liðið langur tími áður en árangur næst. „Við eigum erfitt með að koma fólki í viðeigandi aðstoð og endurhæfingu. Ef meðferðaraðilar vita að fólk er í neyslu vilja þeir ekki fólkið. Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða er með mest af þessum körlum sem eru í virkri neyslu. Því miður eru engin úrræði fyrir þá.“