Guðjón Reynisson fæddist 21. nóvember 1927. Hann lést 26. desember 2015.

Útför hans var gerð 6. janúar 2016.

Elsku afi.

Þá er þínu lífi lokið og á þeim tímamótum í mínu lífi þegar þú ert ekki lengur hjá okkur og ég hugsa til þín finn ég mest fyrir þakklæti. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið allar þær stundir með þér sem við höfum átt saman þó að auðvitað hefðu þær alltaf getað verið fleiri.

Fyrstu minningarnar mínar um þig eru í Fagrabænum og þá hugsa ég um þig í stólnum þínum að kenna okkur krökkunum partítrix í alls konar útfærslum og ég man eftir því að hafa í alvörunni haldið að þú gætir tekið af þér puttann og trúði því líka að nöglin væri svona bogin eftir allt of mikið nefbor. Líka man ég svo vel eftir hvað mér fannst pípulyktin góð og pípurnar flottar sem þú varst með inni á skrifstofunni þinni og sé þig þar fyrir mér með axlaböndin og pípuna að reikna fram og til baka á stórglæsilega ritvél með grænum og hvítröndóttum blöðum. Mér fannst þú sko vera aðalmaðurinn í Iðnaðarbankanum og man eftir að hafa verið mjög stolt af Iðnaðarbankaauglýsingu þar sem það var verið að auglýsa bankann hans afa míns.

Það var bara alltaf svo gott að koma til ykkar ömmu og þið tókuð alltaf svo vel á móti okkur þegar við komum úr sveitinni. Ég man eftir einu skipti þar sem við komum óvænt til Reykjavíkur og þú hentist um bæinn þveran og endilangan til að redda skinku í örbylgjusamlokurnar fyrir okkur systur því samlokur með skinku og osti og plastfilma yfir var það besta sem við fengum á þeim tíma. Eins þegar við Einar fluttum til Reykjavíkur þá varst þú alltaf boðinn og búinn að koma niður í bæ að sækja okkur í matarboð hjá ykkur.

Það var líka alveg frábært að fá ykkur ömmu í heimsókn til okkar út til Köben og bara alltaf svo gott að vera í kringum ykkur.

Við höfum líka verið svo heppin eftir að við fluttum til Íslands aftur að fá að vera svona nálægt ykkur og svo ómetanlegt fyrir stelpurnar okkar Einars að hafa fengið að kynnast þér og ömmu enn betur.

Litlu Ástu Marín finnst voða skrítið að afi sé ekki lengur í Fróðenginu og að geta núna ekki vinkað afa sínum þegar við keyrum framhjá, og hún vorkennir líka ömmu sinni mikið að eiga engan afa lengur, en þá er hún að meina þig.

Elsku afi, takk fyrir allar samverustundirnar um ævina, mér finnst ég vera rík að hafa átt þig fyrir afa og langafa fyrir stelpurnar mínar.

Hinsta kveðja. Þín

Helena.

Elsku afi minn kvaddi okkur annan í jólum síðastliðinn. Hans verður sárt saknað og þegar ég hugsa til hans kemur fyrst upp í hugann skemmtilegur, fyndinn, skipulagður og snyrtilegur afi. Hann var alltaf til í að spila við okkur og sýna okkur galdra þegar við heimsóttum ömmu og afa í Fagrabæinn. Alltaf spennandi og skemmtilegt að koma til þeirra og alltaf jafn merkilegt að sjá bílskúrinn hans afa sem var snyrtilegasti bílskúr sem ég hef á ævinni séð. Afi kallaði mig oft Binnu og þykir mér mjög vænt um það gælunafn því hann er sá eini sem hefur kallað mig það. Takk fyrir að vera góður afi. Kveðja, þín

Brynja Vattar.

Það er erfitt og svo óraunverulegt að setjast niður og skrifa minningargrein um þig, elsku afi minn.

Allar mínar æskuminningar tengjast ykkur ömmu og hef ég verið að fletta í gegnum þessar dýrmætu minningar síðustu daga. Ég var svo heppin að fá að vera heimalningur hjá ykkur ömmu í Fagrabænum og þið þreyttust seint á að leyfa mér að þvælast í kringum ykkur.

Mér fannst þú svo merkilegur, kunnir endalaust af vísum, áttir alltaf til nýjar sögur handa mér og þú varst eini maðurinn sem ég þekkti sem hafði borað svo mikið í nefið að nöglin þín varð snúin. Ég var örugglega komin yfir tvítugt þegar ég fékk að heyra réttu söguna varðandi þessa snúnu nögl, ég man hana nú ekki í dag en það er sjálfsagt af því að hin sagan er svo miklu skemmtilegri. Ég gæfi mikið fyrir að fá að taka einu sinni enn í höndina þína og virða snúnu nöglina fyrir mér.

Elsku afi, ég veit að þér líður betur núna og ert laus við verki og grimman sjúkdóm. Það veitir mér hlýju að hugsa til þess að það hefur verið vel tekið á móti þér „hinumegin“.

Ekki hafa áhyggjur af ömmu, við munum hugsa vel um hana og ég mun halda áfram að spila við hana, afi minn, jafnvel þótt ég tapi alltaf.

Núna ertu einn af englunum í lífi mínu og betri engil er ekki hægt að hugsa sér. Ég elska þig afi minn.

Þín

Erna Dís.