Ragnheiður Elín Árnadóttir
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur sent þingflokkum stjórnarflokkanna lagafrumvarp um heimagistingu á vegum einkaaðila, sem á að hennar sögn að einfalda útleigu og eftirlit með henni til þess að stemma stigu við svartri atvinnustarfsemi.

„Við ætlum með þessu frumvarpi að einfalda það fyrirkomulag sem hefur verið á heimagistingu einkaaðila, ekki lögaðila. Í frumvarpinu er kveðið á um það að fólki sé heimilt að leigja út heimili sitt og eina eign að auki, í ákveðið langan tíma. Ekki þarf rekstrarleyfi, heldur er eignin skráð og henni er fengið númer. Einungis þarf að uppfylla allar kröfur um brunatryggingar,“ sagði Ragnheiður Elín í samtali við Morgunblaðið í gær.

Sterkari stjórntæki

Hún nefnir sem dæmi að þeir sem vilja leigja út heimili sín á AirBnB setji þá einungis númerið á eigninni inn á vefinn. Það einfaldi allt eftirlit með svartri atvinnustarfsemi, því þeir sem auglýsi, án þess að hafa skráð númer eignarinnar, séu þá augljóslega að reyna að fara framhjá eftirliti og komast hjá því að telja fram tekjur.

„Þannig munu yfirvöld og eftirlitsaðilar hafa mun sterkari stjórntæki í höndum til þess að fylgjast með þessum hluta leigumarkaðarins og fylgja því eftir að ekki sé um undanskot að ræða.

Nálgunin hjá okkur með þessu frumvarpi er að skýra og einfalda regluverkið til þess að auka gagnsæi og upplýsingagjöf. Með þessu teljum við að við séum að beina fólki inn á réttar brautir áður en við förum að grípa til meira íþyngjandi aðgerða,“ sagði Ragnheiður Elín.