Öfugmæli eru vinsæl hjá borginni – svart verður hvítt og hvítt svart

Öfugmæli virðast í uppáhaldi á upplýsingavef Reykjavíkurborgar þessi misserin. „Meiri þjónusta, lægri gjöld fyrir sorphirðu,“ segir í fyrirsögn fréttar, sem birtist í fyrradag á vefnum. Þar er síðan sagt frá breytingum á sorphirðu hjá borginni.

Þar kemur fram að lækka eigi gjaldið fyrir að vera með gráa tunnu, sem er ætluð fyrir blandaðan úrgang. Það er reyndar rétt, en um leið verður byrjað að tæma gráu tunnurnar á 14 daga fresti í stað tíu áður og eru ekki nema nokkur ár síðan tunnurnar voru tæmdar vikulega. Kjartani Magnússyni, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, reiknast til í viðtali við Morgunblaðið í fyrradag að þetta þýði skerðingu á þjónustu um 29%. Hver losun muni því kosta neytendur 817 krónur í stað 592 áður. Hefði gjaldið kannski átt að lækka um meira en 1,4%?

Á fréttavef borgarinnar er ekkert fjallað um ákvörðun um að hækka gjaldið fyrir að losa bláar tunnur, sem ætlaðar eru undir pappír, í 8.500 krónur úr 6.700 krónum. Þetta er 27% hækkun. Um leið verða bláu tunnurnar losaðar sjaldnar en áður. Þetta hljómar eins og minni þjónusta og hærra gjald, hvað sem fyrirsögninni á vef Reykjavíkurborgar líður.

Það er kyndugt að borgin skuli hafa ákveðið að láta ákvörðun um að tæma ruslið á 14 daga fresti í stað tíu daga áður koma til framkvæmda um þessi áramót. Undanfarnar tvær vikur hafa virkir dagar aðeins verið sex. Svigrúm til sorphirðu hefur því verið minna en ella á þeim tíma árs, sem búast má við að meira hlaðist upp af sorpi en endranær. Nær hefði verið að bíða fram að næstu mánaðamótum til að forðast glundroða. Þessi vinnubrögð minna á breytinguna á ferðaþjónustu fatlaðra á sama tíma fyrir ári, afleiðingarnar sem betur fer ekki jafn geigvænlegar, en skammsýnin kunnugleg.