Rétt rúm vika er þangað til flautað verður til leiks á Evrópumeistaramótinu í handknattleik karla sem að þessu sinni fer fram í Póllandi. Eins og oftast áður ríkir nokkur bjartsýni á gott gengi íslenska landsliðsins á mótinu.
Rétt rúm vika er þangað til flautað verður til leiks á Evrópumeistaramótinu í handknattleik karla sem að þessu sinni fer fram í Póllandi.

Eins og oftast áður ríkir nokkur bjartsýni á gott gengi íslenska landsliðsins á mótinu. Mörgum þykir margt benda til að ástæða sé til þess. Fyrir þá sem eru hjátrúarfullir er ástæða til enn meiri bjartsýni þar sem bakvörður dagsins fylgir liðinu ekki eftir að þessu sinni. Í eina skiptið sem íslenska liðið hefur unnið til verðlauna á EM, fyrir sex árum, var bakvörður dagsins ekki með í för. Annars hefur bakvörður verið á öllum mótum frá og með 2002.

Að öllu gamni slepptu þá er meira undir fyrir íslenska landsliðið á EM að þessu sinni en stundum áður. Enn eru tvö sæti í boði í forkeppni Ólympíuleikanna sem fram fara í sumar. Opinbert markmið íslenska landsliðsins er að tryggja sér annað þessara sæta svo landsliðið eygi möguleika á að taka þátt í fjórðu Ólympíuleikunum í röð.

Kálið er ekki sopið þótt í forkeppnina verði komist eins og kom fram á þessum síðum í gær. Liðin tvö sem komast í forkeppnina af EM hafna í riðli með tveimur sterkum Evrópuþjóðum auk liðs frá Asíu. Tvö lið tryggja sér farseðilinn á ÓL í Ríó.

Sú staða kom upp vorið 2008 þegar íslenska landsliðið hafnaði í forkeppnisriðli með Pólverjum, Svíum og Argentínu og komst áfram ásamt Pólverjum eftir sigur á Argentínu en síðast en ekki síst ævintýralegan sigur á Svíum þar sem markvörðurinn Hreiðar Levý Guðmundsson fór á kostum. Áður en farið verður í frekari vangaveltur þarf íslenska landsliðið að komast í forkeppnina.