Neyðarfundur Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, var einn þeirra sem sátu neyðarfund öryggisráðsins eftir að fréttist af öflugri sprengingu í Norður-Kóreu. Segir hann atvikið valda sér miklum áhyggjum.
Neyðarfundur Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, var einn þeirra sem sátu neyðarfund öryggisráðsins eftir að fréttist af öflugri sprengingu í Norður-Kóreu. Segir hann atvikið valda sér miklum áhyggjum. — AFP
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Ráðamenn í Norður-Kóreu greindu í gærmorgun frá því að þeir hefðu á tilraunasvæði sínu sprengt vetnissprengju með góðum árangri og hafði þá skömmu áður mælst jarðskjálfti þar við upp á 5,1 stig.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Ráðamenn í Norður-Kóreu greindu í gærmorgun frá því að þeir hefðu á tilraunasvæði sínu sprengt vetnissprengju með góðum árangri og hafði þá skömmu áður mælst jarðskjálfti þar við upp á 5,1 stig. Vegna þessa var boðað til neyðarfundar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þar sem hertar refsiaðgerðir gegn landinu voru meðal annars ræddar.

Fjölmörg ríki víðsvegar um heim hafa fordæmt athæfi Norður-Kóreu. Þannig segja nágrannar þeirra sunnan við landamærin tilraunir Norður-Kóreu vera „alvarlega ögrun“. Þar í landi var einnig boðað til neyðarfundar eftir sprenginguna.

Ógnar mjög alþjóðaöryggi

„Þessar tilraunir eru ekki einungis alvarleg ögrun í garð þjóðaröryggis okkar heldur ógna þær einnig framtíð okkar [...] og ógna mjög friði og öryggi innan alþjóðakerfisins,“ hefur fréttaveita AFP eftir Park Geun-Hye, forseta Suður-Kóreu. Kölluðu ráðamenn þar í landi í gær mjög eftir harðari refsiaðgerðum gegn nágrönnum þeirra í norðri.

Forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe, var ómyrkur í máli er hann ræddi við fréttamenn í gær.

„Sú kjarnorkutilraun sem framkvæmd var af Norður-Kóreu er alvarleg ógn við öryggi okkar ríkis og munum við alls ekki þola slíkt,“ sagði hann og hélt áfram: „Þetta brýtur með augljósum hætti sáttmála öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og er mikil áskorun við áætlanir alþjóðakerfisins um fækkun kjarnavopna.“

Svívirðilegt brot Norður-Kóreu

Stjórnvöld í Moskvu taka einnig í svipaðan streng. „Ef tilraunin fæst staðfest væri um nýtt skref að ræða af hálfu Pyongyang á vegferð þeirra í þróun kjarnavopna, sem er svívirðilegt brot á alþjóðalögum og sáttmálum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna,“ segir í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Rússlands.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), hvatti í gær ráðamenn í Pyongyang til þess að láta þegar af kjarnorkuvopnaáætlunum sínum.

„Kjarnorkuvopnaprófanir Norður-Kóreu grafa undan öryggi á svæðinu og öryggi innan alþjóðakerfisins og eru brot á sáttmálum öryggisráðsins,“ er haft eftir Stoltenberg í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í gær. Bætti hann við að ráðamenn Norður-Kóreu ættu að falla frá áætlunum sínum um þróun kjarnavopna og skotflauga sem borið geta kjarnaodda og taka þess í stað þátt í viðræðum er snúa að fækkun kjarnavopna í heiminum.

Vetnissprengja eða ekki?

Þá hafa einnig ríkisstjórnir Frakklands, Bretlands og Kína, sem er einn helsti bandamaður Norður-Kóreu, fordæmt tilraunirnar auk þess sem Evrópusambandið hvetur Norður-Kóreumenn til að „láta af þessari ólögmætu og hættulegu hegðun“.

Kjarnorkuvopnasérfræðingar lýstu strax í gær yfir efasemdum sínum og segja sprenginguna að líkindum ekki komna til vegna vetnissprengju. Segja þeir hins vegar, að sögn AFP , mun líklegra að um sé að ræða kraftminni sprengju, þ.e. hefðbundna kjarnorkusprengju.

Komast sérfræðingarnir meðal annars að þessari niðurstöðu eftir að hafa rýnt í jarðskjálftamæla, en styrkur skjálftans, sem mældist við Punggye-ri kjarnorkutilraunasvæðið í Norður-Kóreu, styður að þeirra sögn ekki fullyrðingar stjórnvalda í Pyongyang.