Eyjólfur Davíðsson, Sléttuvegi 23, Reykjavík, fæddist í Flatey á Breiðafirði 28. október 1924. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Skjóli 29. desember 2015.

Foreldrar Eyjólfs voru hjónin Davíð Kristján Einarsson, verslunarmaður í Flatey á Breiðafirði, verslunarstjóri og síðar kaupmaður í Ólafsvík, f. 19. desember 1882 á Geirseyri við Patreksfjörð, d. í Borgarnesi 22. apríl 1970, og Sigríður Eyjólfsdóttir frá Sviðnum á Breiðafirði, f. 23. júní 1886, d. 27. ágúst 1943 í Ólafsvík. Systkini Eyjólfs eru: 1) Friðbjörg, gift Karli Hjálmarssyni, bæði látin. 2) Kristín, gift Guðmundi Ólafssyni, bæði látin. 3) Guðrún, gift Héðni Jónssyni, bæði látin. 4) Sverrir, giftur Hildi Valdimarsdóttur, bæði látin.

Eyjólfur giftist 10. mars 1951 Bertu Guðrúnu Engilbertsdóttur, húsmóður og skrifstofustjóra í Reykjavík, f. 25. apríl 1926 í Vestmannaeyjum. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Skjóli 23. desember 2013. Foreldrar Bertu voru hjónin Engilbert Gíslason málarameistari, fæddur á Tanganum í Vestmannaeyjum 12. október 1877, d. 7. desember 1971, og Guðrún Sigurðardóttir húsmóðir, fædd á Borg á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu 18. ágúst 1886, d. 7. maí 1965. Engilbert og Guðrún eignuðust sjö börn, þrír elstu synir þeirra létust í bernsku. Berta var yngst systkinanna.

Börn Eyjólfs og Bertu eru:

1) Héðinn, f. 10. júlí 1951, kona hans er Guðrún H. Fjalldal, f. 16. desember 1952. Börn þeirra eru:

a) Sigríður Dóra, f. 1982, maður hennar er Jón Auðunn Sigurbergsson, f. 1979. Börn þeirra eru: Sigurberg og Guðrún.

b) Eyjólfur, f. 1985.

2) Guðrún Sigríður, f. 3. júlí 1954, maður hennar er Snjólfur Ólafsson, f. 20. apríl 1954. Börn þeirra eru:

a) Eyjólfur Örn, f. 1975, kona hans er Elma Rún Friðriksdóttir, f. 1975. Börn þeirra: Skjöldur Orri, Guðrún Sigríður og Egill Árni.

b) Helga Guðrún, f. 1980, maður hennar er Bjarni Lúðvíksson, f. 1978. Börn þeirra eru Þórey og Snjólfur.

3) Sigríður, f. 24. ágúst 1955, maður hennar er Ólafur Ó. Guðmundsson, f. 23. apríl 1959. Börn þeirra:

a) Guðmundur Dagur, f. 1988, í sambúð með Guðrúnu Emilsdóttur.

b) Unnar Óli, f. 1989, í sambúð með Ernu Dögg Hjaltadóttur.

c) Berta Guðrún, f. 1991.

Þegar Eyjólfur var á öðru ári flutti fjölskylda hans frá Flatey til Ólafsvíkur og sleit hann barnsskónum þar. Hann var tvo vetur í Héraðsskólanum í Reykholti. Síðar fór hann í Iðnskólann í Reykjavík og lærði klæðskeraiðn hjá G. Bjarnason og Fjeldsted. Starfaði hann við iðn sína til 1964, lengst af hjá Klæðaverslun Andrésar Andréssonar. Árin 1964-1972 vann Eyjólfur hjá Olíufélaginu Skeljungi. Hann var fulltrúi hjá Skipaútgerð ríkisins frá 1972 og starfaði þar uns hann fór á eftirlaun um sjötugt.

Útför Eyjólfs fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 7. janúar 2016, klukkan 15.

Í dag kveðjum við pabba. Nákvæmlega tveimur árum eftir að við kvöddum mömmu á sama stað, en þau höfðu verið gift í tæp 63 ár. Pabbi saknaði mömmu sárt þessi tvö ár enda voru þau ávallt sem eitt, einstaklega samrýmd og samtaka.

Þau nutu þess að ferðast, fara í leikhús, tónleika, í Laugardalslaugina þar sem þau áttu sína pottavini og að vera saman svona yfirleitt.

Síðastliðið ár fór heilsu pabba að hraka. Hann hætti að keyra bíl og fyrir vikið var erfiðara fyrir hann að sækja laugarnar sem og að fara til messu í Dómkirkjunni á sunnudögum, eitthvað sem var hluti af lífi hans, svo ekki sé talað um hafnarrúntinn. Hafnarrúnturinn var nauðsynlegur hluti lífsins til að fara yfir stöðu skipaflotans í Reykjavíkurhöfn. Pabbi hafði mjög sterk tengsl við hafið og var það mikilvægur hluti í lífi hans.

Hann var félagslyndur og fór til skamms tíma daglega akandi í hádegismat á Dalbrautina en síðasta ár í Selið á Sléttuveginum, enda í göngufæri. Hann var frímúrari og gaf starfið með bræðrunum honum mikið.

Hann var ótrúlega minnugur á fólk, atburði og dagsetningar svo engu skeikaði þó svo að til umræðu væru atburðir sem áttu sér stað fyrir hátt í 90 árum! Og ættfræði var hans stærsta áhugamál og ástríða og var hann því sjaldnast í vandræðum með að segja deili á mönnum.

Mestu ánægjustundirnar síðustu árin voru stundirnar með börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum en þau voru afar hænd að honum enda hann bæði hrifinn og stoltur af hópnum. Og svo fórum við systkinin með hann hafnarrúntinn oft og iðulega sl. mánuði.

Á síðustu mánuðum skynjuðum við sterkt að pabbi væri tilbúinn að fara. Hann fór yfir farinn veg, vildi vera viss um að afkomendurnir væru á góðum stað í tilverunni og kvaddi sáttur við Guð og menn eftir langt og gjöfult líf.

Að lokinni sjúkrahúsdvöl í nóvember dvaldi pabbi á Vífilsstöðum þar til honum bauðst að búa á Skjóli þar sem hann tók þátt í jólamessu annan í jólum. Dvölin á Skjóli varð aðeins ein vika og lokaði hann þar augunum í hinsta sinn þann 29. desember. Kunnum við starfsfólki Vífilsstaða og Skjóls bestu þakkir fyrir góða umönnun.

Héðinn, Guðrún og

Sigríður Eyjólfsbörn.

Það var komið að leiðarlokum hjá Eyjólfi tengdaföður mínum til þrjátíu ára á 24. afmælisdegi Bertu, yngsta barnabarns hans og silfurbrúðkaupsdegi okkar Siggu. Endalokin komu ekki á óvart þótt allt fram á 91. aldursárið hafi hann reynt að forðast kyrrstöðu og borið sig vel þrátt fyrir vaxandi krankleika. Hann skilur við sáttur eftir að hafa átt gott líf eins og hann orðaði það æðrulaus í banalegunni.

„Fyrst af öllu kemur sjálfstæðið,“ sagði Bjartur í Sumarhúsum, „maður fer á mis við lífið þangað til maður er orðinn sjálfstæður.“ Þessi orð lýsa líka Eyjólfi sem ungur fór að heiman og missti móður sína, Sigríði Eyjólfsdóttur, eftir erfið veikindi 18 ára gamall. Hann þurfti að spjara sig, brjótast til mennta og sjá fyrir sér, reiða sig fyrst og fremst á sjálfan sig þótt velgjörðarmanna eins og Sigurjóns á Álafossi nyti líka við.

Kristín móðuramma Eyjólfs, systir Jóns Sveinssonar, Nonna, sem örlögin sendu út í heim 12 ára gamlan, segir í bréfi til föður Eyjólfs árið 1943, skömmu eftir lát dóttur sinnar og móður hans, að „Eyjólfur er viss að klára sig vel“ eins og kom síðan á daginn.

Að vera öðrum óháður, standa teinréttur og kvarta helst ekki varð hluti af lyndiseinkunn Eyjólfs. Sjálfstæðið gilti í lífinu og pólitíkinni og ungur batt hann trúss sitt við flokkinn sem þannig kennir sig og hvarflaði aldrei að honum að söðla um.

Það var svo vel við hæfi að síðasta leiksýning sem Eyjólfur sótti var einmitt Sjálfstætt fólk þar sem við sátum á fremsta bekk og sjálfur Bjartur settist á skör sviðsins og bauð honum í nefið og Eyjólfur tókst allur á loft. Þar mættust skáldsagnapersónan og einstaklingur sem lifað hefur þann veruleika á eigin skinni sem sagan á rætur sínar í.

Það var oft gaman að ræða við Eyjólf um hans helstu hugðarefni svo sem ættfræði og ýmsan fróðleik sem hann gat miðlað af frá langri ævi og óskeikult minni hans geymdi fram á hinstu stund. Skemmtilegar tilvitnanir og heilu kvæðabálkarnir gátu runnið fyrirhafnarlaust upp úr honum ef þannig lá á honum. Þessara stunda verður nú saknað.

Ólafur Ó. Guðmundsson.

Það er skrítin tilfinning að afi Eyjólfur sé allur. Frá því að ég man eftir mér hefur hann verið mikilvægur hluti fjölskyldunnar og margoft reynst mér haukur í horni.

Eitt fyrsta minningarbrot mitt um afa er frá því að ég var um fjögurra ára gamall. Ósjaldan bauð afi mér í bíltúr þar sem helstu kennileiti borgarinnar voru barin augum og ég spurður spjörunum úr. Tilgangur þessara ferða var að upplýsa og búa mig undir það að verða að manni. Í augum afa var ekki hægt að draga úr mikilvægi menntunar og var það honum hjartans mál að afkomendurnir gengju menntaveginn. Í einni af þessum bílferðum var ég orðinn svolítið þreyttur á að svara sömu spurningunum og oft áður, s.s. eins og „Hver gerði Andlit sólar?“ og svaraði mjög ákveðinn: „Afi, þú manst aldrei neitt.“

Þegar ég var sjö ára gamall var ég spurður hvort ég hefði áhuga á að læra á fiðlu. Þannig var mál með vexti að afi var ákaflega mikill sinfóníuaðdáandi og átti sér draum um að einhver afkomenda sinna myndi hljóta frægð og frama sem fiðlusnillingur.

Afi bauðst því til að kosta hljóðfæranám ef fiðla yrði fyrir valinu. Næstu 12 árin æfði ég hin ýmsu tónlistarform, en smám saman var ljóst að sinfóníusætið yrði aldrei annað en fjarlægur draumur.

Áætlun afa brást samt ekki með öllu, því með þessu uppátæki sínu var fræi sáð sem átti eftir að gefa ríkulegan ávöxt. Þessi reynsla opnaði augu mín fyrir tónlistinni og mótaði mig þannig að í dag legg ég mikla áherslu á tónlistarlegt uppeldi hjá börnum mínum. Þetta er því einhver stærsta gjöfin sem afi gaf mér.

Tæplega tvítugur kynntist ég konu minni og að því kom að við ákváðum að trúlofa okkur. Ég gerði mér fljótlega ferð á Rauðalækinn til að segja afa og ömmu tíðindin og samglöddust þau mér mjög. Nokkrum dögum síðar vorum við afi úti að keyra og var hann óvenju hljóður, svolítið eins og eitthvað mikið lægi honum á hjarta.

Að lokum tók hann til máls og spurði mig hvort einhver alvara væri með þessari trúlofun. Ég var ekki lengi að játa að svo væri og sagðist afi þá ekki geta orða bundist því honum fyndist ég fullungur og að eitt væri að eiga vinkonu en annað að trúlofast og klykkti út með að segja, að þegar hann var á mínum aldri hefði hann átt vinkonu í hverri sveit.

Á árum áður þegar barnabarnabörn voru ekki komin til sögunnar voru systurnar, mamma og Sigga, saman á gamlárskvöld og einnig afi og amma. Í einu slíku boði var matseðillinn ekki af verri endanum og var boðið upp á sniglamauksfyllta sveppahatta. Þar sem afi var síður en svo þekktur fyrir að vera með exótískan matarsmekk var tekin sú ákvörðun að segja honum ekkert frá því hvað væri í forrétt. Ég gat ekki staðist þá freistingu að stríða honum aðeins og spurði hvernig honum fyndust sniglarnir. Með smjörtauminn lekandi niður munnvikin svaraði hann fljótur að bragði: „Sniglar? Ég borða ekki snigla.“

Fleiri skemmtilegar sögur rifjast upp við þessi skrif en þær verða að bíða betri tíma. Eftir lifir minning um góðan, skemmtilegan og traustan mann sem mun ylja mér um hjartarætur um ókomin ár.

Eyjólfur Örn Snjólfsson.

Elsku afi Dúddi, sagan segir að mamma og Gunna frænka hafi látið okkur systkinin kalla þig Dúdda, bara til þess að stríða þér. Fram að því hafðir þú alltaf verið kallaður afi Eyjólfur af barnabörnunum. En nú yrðir þú framvegis kallaður afi Dúddi.

Og mikið þótti mér vænt um afa Dúdda. Sérstaklega í seinni tíð þegar ég lærði að meta þig betur. Þú gast nefnilega verið svolítið skoðanafastur og ferkantaður. Þrátt fyrir að vera mjög félagslyndur varstu kannski ekki mjög mjúkur. Ég man enn hvernig þú heilsaðir okkur systkinunum með léttu klappi á vangann þegar við vorum yngri á meðan amma faðmaði okkur innilega að sér. En gamli maðurinn mýktist með aldrinum. Vangaklappið vék fyrir kossi á kinn.

Ég veit þér þótti vænt um þegar við krakkarnir smelltum einum á þig til baka þótt þú værir kannski ekki að láta mikið uppi um það.

Sumir myndu segja að þú hafir verið svolítið þver en mér, sem barnabarni þínu, fannst þú fyrst og fremst skemmtilegur og gat leyft mér að hlæja að gamaldags viðhorfi þínu og íhaldssemi. Enda tók ég því með þeim fyrirvara að þú værir ávöxtur uppeldis á tímum sem eiga lítið skylt við tímann sem við lifum á í dag. Þú varst „sjálfgerður“ (e. self-made) maður og réttilega stoltur af því.

Ófáar voru sögurnar sem þú sagðir okkur af þínum yngri árum. Þú fluttir ungur úr sveitinni á mölina og þurftir að sjá fyrir þér sjálfur. Á daginn var unnið hörðum höndum og á kvöldin var farið á ball á Borginni en ekki hvað?

Að hlusta á þessar sögur var stundum eins og að horfa á bíómynd. Hvílíkt líf sem þú lifðir og hvað þá allt fólkið sem varð á vegi þínum.

Ég minnist sérstaklega Bjössa bomm enda var hann í uppáhaldi fjölskyldunnar. Það leið varla það matarboð í Furugerðinu að við systkinin plötuðum þig ekki til að segja sögur af honum. Ekki það að þessi Bjössi hafi verið merkilegur maður heldur var svo gaman að hlusta á þig segja frá. Svo hlóstu innilegum hlátri og við hin tókum undir.

Elsku afi, það er frá svo ótal mörgu að segja að ég veit ekki hvar ég ætti að byrja. Orðin sem ég skrifa geta því ekki komið því til skila hvað mér þótti vænt um þig og hvað ég leit mikið upp til þín.

Gullkornin voru óteljandi og minningarnar fleiri. En ég á myndina sem ég tók af okkur í sumar og mér þykir svo ótrúlega vænt um hana. Hún er nóg fyrir mig. Ég hlakka til að segja börnunum mínum, ef einhver verða, frá afa Dúdda af því að hann var í sérflokki. Þannig er það bara.

Ég elska þig og sakna þín en minning þín lifir. Þín

Berta.