Munið þið dæmisögu Esóps um skjaldbökuna og hérann? Ævintýri sem segir frá héranum sem gortaði mikið yfir því hversu fljótur hann væri að hlaupa. Enginn í skóginum þorði að keppa við hann þar til skjaldbakan bauð sig fram.

Munið þið dæmisögu Esóps um skjaldbökuna og hérann? Ævintýri sem segir frá héranum sem gortaði mikið yfir því hversu fljótur hann væri að hlaupa. Enginn í skóginum þorði að keppa við hann þar til skjaldbakan bauð sig fram. Hérinn hló mikið og taldi sigur sinn vísan enda skjaldbakan þekkt að því að fara hægt yfir. Á leiðinni var hérinn svo fullur sjálfstrausts að hann mat það svo að það gæti ekki sakað að staldra örlítið við undir tré en ekki vildi betur til en svo að hann steinsofnaði í kæruleysi sínu. Skjaldbakan hélt sínum hraða og nálgaðist markið jafnt og þétt. Hún gekk hljóðlaust framhjá steinsofandi héranum og náði loks yfir markalínuna við mikinn fögnuð allra dýranna í skóginum. Hún sigraði hérann í kapphlaupinu.

Það eru einungis 7 dagar liðnir frá því ljóst var að forseti Íslands ætlar ekki að sækjast eftir endurkjöri en nú þegar er búið að nefna fjölda nafna sem hugsanlega kandídata í þetta eftirsótta embætti. Á samfélagsmiðlunum er vinsælt að setja fram óskalista yfir þá kosti sem nýr forseti þarf að búa yfir. Það gæti reynst erfitt að finna þá alla í einni og sömu manneskjunni; ópólitískur frekar en pólitískur, talar tungum, forseti allra landsmanna en ekki bara sumra, sameiningartákn, menningarlega þenkjandi, náttúruunnandi, vel lesinn, langskólagenginn, alþýðlegur og svo framvegis. Listinn er langur og bætist stöðugt á hann. Sumir óska þess jafnvel að forsetaembættið verði lagt niður því það sé prjál og til óþurftar en þeim verður ekki að ósk sinni í bráð því við munum kjósa nýjan forseta í sumar.

Á þeim tímamótum sem áramótin eru glymja spádómarnir sem segja okkur hvernig nýja árið verður og hvaða merkisviðburðum við megum búast við. Til gamans ætla ég að setjast í spámannssætið og spá því að kapphlaupið sem nú er hafið í átt að Bessastöðum verði fjölmennt og að sá sem nær í mark verði skjaldbakan sem fer rólega yfir án þess að hreykja sér stöðugt frekar en hérinn sem fer mikinn og hefur hátt. Þeir verði sjálfsagt margir sjálfumglöðu hérarnir sem vilja sigra en ég vil frekar fá hógværa skjaldböku en héra á Bessastaði. Hún er á mínum óskalista.

Það er reyndar áhyggjuefni að sá sem hreppir hnossið og kemst í stól forsetans á Bessastöðum þarf ekki svo mikinn fjölda atkvæða því sá sigrar sem fær flest atkvæðin en þarf ekki meirihluta. Ef atkvæðin dreifast á marga gæti svo farið að 10-15% atkvæða dygðu.

Gleymum ekki að það er enginn sigurvegari fyrr en leikurinn hefur verið flautaður af í júní næstkomandi þegar atkvæðin verða talin. Þangað til eru sex mánuðir sem eru langur tími í kosningaslag og einhverjir frambjóðendur munu þreytast á leiðinni og við verðum örugglega þreytt á einhverjum þeirra. Það er vandasamt að halda athygli heillar þjóðar í svo langan tíma. Skjaldbakan sem ekki hefur enn gefið sig fram en stefnir á Bessastaði gæti kannski náð í mark? margret@mbl.is

Margrét Kr. Sigurðardóttir