Hagfræðingar Landsbankans segja óvissu um hlutverk Íbúðalánasjóðs.
Hagfræðingar Landsbankans segja óvissu um hlutverk Íbúðalánasjóðs. — Morgunblaðið/Ómar
Íbúðalánasjóður hefur verið skattgreiðendum dýr og ef ekkert verði að gert varðandi sjóðinn munu framlög til hans halda áfram að aukast um árabil, segir í nýrri Hagsjá Landsbankans.

Íbúðalánasjóður hefur verið skattgreiðendum dýr og ef ekkert verði að gert varðandi sjóðinn munu framlög til hans halda áfram að aukast um árabil, segir í nýrri Hagsjá Landsbankans. Í fjárlögum ársins 2016 er gert ráð fyrir 1,3 milljarða króna framlagi til sjóðsins.

Bankinn segir að staða Íbúðalánasjóðs hafi lengi verið veik, reksturinn sé alls ekki viðunandi og ljóst sé að viðskiptalíkan sjóðsins eigi undir högg að sækja í núverandi umhverfi. Vaxtamunur sjóðsins er 0,28 prósentustig sem hefur ekki dugað til þess að mæta virðisrýrnun útlána á síðustu árum.

Landsbankinn minnir jafnframt á að verkefnisstjórn um framtíð húsnæðiskerfisins hafi lagt til í maí 2014 að þáverandi lánasafn Íbúðalánasjóðs yrði látið renna út og að lántakendur sjóðsins fengju annað hvort þjónustu hjá húsnæðisfélagi í eigu ríkissjóðs eða hjá öðrum aðila í kjölfar útboðs á umsýslu lánanna. Síðan tillögurnar hafi komið fram hafi óvissa ríkt um framtíðarhlutverk sjóðsins og þar með rekstrarhæfi hans. Greint er frá því að frá árinu 2012 hafa hreinar vaxtatekjur ekki dugað fyrir rekstrargjöldum sjóðsins og hafi hagnaður sem varð 2014 komið til vegna samkomulags um uppgjör á kröfum við föllnu bankana. Tekjufærslur vegna þessa hafi numið tæplega 5,1 milljarði króna fyrir árið 2014. Jafnframt kemur fram að í frumvarpi til laga um almennar íbúðir sem lagt var fram í vetur séu Íbúðalánasjóði falin margvísleg verkefni en frumvarp ríkisstjórnarinnar um framtíð hans og verkefni láti á sér standa.