Kjartan Örn Kjartansson
Kjartan Örn Kjartansson
Eftir Kjartan Örn Kjartansson: "Á forsetinn aðallega að tala um bókmenntir, sitja veislur með fyrirfólki og veifa til mannfjöldans eða á hann að vera leiðtogi sem fólk teystir?"

Nú er ljóst að það verða forsetakosningar í sumar. Ýmsir hafa verið orðaðir við framboð og sýnist sitt hverjum. Sitjandi forseti, herra Ólafur Ragnar Grímsson, hefur breytt embættinu og aukið mjög vægi þess, sem hefur skipt sköpum í stjórnmálum landsins og hann hefur einnig, öðruvísi og meira en fyrirrennarar hans, verið mjög ötull talsmaður landsins og hagsmuna þess á alþjóðavettvangi og er orðinn heimskunnur. Það þarf væna skó til þess að fylla í sporin hans.

Pólitískt embætti

Það er sem sumir líti svo á að forsetaframbjóðendur eigi að vera einhvers konar ekkert, hvítt blað, sem lítið hefur verið ritað á eða sem aldrei hafa komið neitt við sögu eða reynt á í hlutverkum sem skipta einhverju máli fyrir þjóðina. Að forsetinn eigi aðallega að tala um bókmenntir, að sitja veislur og taka í höndina á fyrirfólki og veifa svo til mannfjöldans. Það er eins og þetta fólk gleymi því, þrátt fyrir að Ólafur Ragnar Grímsson hafi svo rækilega minnt á það, að forsetinn er æðsti leiðtogi jafnt sem embættismaður þjóðarinnar, sem hefur stóru og mjög alvarlegu hlutverki að gegna.

Verður að vera reynslubolti og kunnáttumaður

Það er því ekki nóg að vera kvenmaður og kommi, eins og einhver sagði að væri aðalmálið þessa dagana. Forsetaframbjóðandinn þarf að kunna skil á stjórnarskránni, stjórnskipan landsins og stjórnmálum og hafa góða almenna kunnáttu á sem flestum sviðum. Þá þurfa kjósendur að fá að vita um almennt hugarfar hans sem og viðhorf til stóru málanna eins og t.d. sjálfstæðis þjóðarinnar, hagstjórnar og þjóðkirkjunnar svo að menn vakni ekki upp við vondan draum ef þeir hafa í blindni kosið yfir sig vangetu eða eitthvað verra undir fagurgala.

Maðurinn er fundinn

Ég játa að ég hef ekki spurt hann og ég veit ekki hvað hann í hæversku sinni mun segja, en maðurinn sem ég hef í huga er einn vinsælasti prestur landsins og ég mun sakna hans úr því starfi ef hann fer fram og nær kjöri. Hann heitir Hjálmar Jónsson og er dómkirkjuprestur. Sr. Hjálmar er einstakur á svo margan fallegan hátt. Hann er vel að sér og er kunnugur stjórnmálum, hafandi setið á Alþingi, skynsamur, grandvar, heiðarlegur, vel máli farinn, skáld og húmoristi, viðkunnanlegur í fasi og drenglyndur. Hann er í stuttu máli afar vandaður og góður maður sem mun væntanlega ekki láta sitt eftir liggja og mundi rækja og rækta embættið af kostgæfni og vera þjóðinni til hins mesta sóma. Og sjálfum sér eins og alltaf.

Ég hvet sr. Hjálmar að fara fram og allt íhugult og vel meinandi fólk til þess að hvetja hann til þess og styðja. Þá mun vel fara.

Höfundur er fv. forstjóri.

Höf.: Kjartan Örn Kjartansson