Aðsókn á fyrstu dögum útsölunnar í Kringlunni hefur verið mikil.
Aðsókn á fyrstu dögum útsölunnar í Kringlunni hefur verið mikil. — Morgunblaðið/Eggert
Margrét Kr. Sigurðardóttir margret@mbl.is Aðsókn í Kringluna jókst um 5,6% í desember miðað við sama tímabil í fyrra og hófust útsölurnar á öðrum degi nýs árs með krafti.

Flestar smásöluverslanir hófu útsölur strax á öðrum degi nýs árs. Þar á meðal voru verslanir Kringlunnar, sem hlaupa á nokkrum tugum. Í samtali við framkvæmdastjóra Kringlunnar, Sigurjón Örn Þórsson, kemur fram að aðsókn á fyrsta degi útsölu hafi verið meiri en á sama tíma í fyrra. „Útsölurnar fara af stað með fullum krafti. Fyrsti dagur útsölunnar var í ár á laugardegi og við höfðum opið til klukkan níu um kvöldið. Við höfum haft það sem reglu síðustu þrjú til fjögur ár að hafa opið lengur á fyrsta degi útsölunnar til að dreifa álaginu í húsinu yfir lengri tíma. Það hefur reynst vel.“

Hann segir að ekki beri á öðru en fólk haldi áfram að kaupa þrátt fyrir mikla jólasölu. „Mér heyrist almenn ánægja vera hjá kaupmönnum með hvernig útsalan fer af stað.“

5,6% aukning í desember

Sigurjón Örn segir 5,6% aðsóknaraukningu hafa orðið í desember miðað við sama mánuð á árinu 2014.„Desember virðist hafa verið mjög ásættanlegur fyrir flesta kaupmenn. Við fórum hægt og sígandi ofan í lægðina eins og landinn en mér sýnist við vera komin fram úr því. Við erum þegar komin fram úr aðsókninni í desember 2009. Mér sýnist að öll teikn líti frekar vel út.“

Útsalan stendur fram yfir næstu mánaðamót og segir hann að hefðbundnir markaðsdagar þar sem verslanirnar færa sig fram á gang hefjist fimmtudaginn 28. janúar og þeim ljúki þriðjudaginn 2. febrúar.

„Ef svo heldur fram sem horfir höldum við áfram aukinni aðsókn,“ segir Sigurjón Örn að lokum.