Sigríður S. Egilsdóttir fæddist í Reykjavík 15. október 1927. Hún lést á lungnadeild Landspítalans 24. desember 2015.

Foreldrar hennar voru Ragnheiður Rannveig Stefanía Stefánsdóttir, fædd í Varmadal á Rangárvöllum 11. febrúar 1897, látin 6. júlí 1949, og Egill Ólafsson, fæddur í Innri-Njarðvík 19. mars 1891, látinn 26. janúar 1976.

Sigríður ólst upp í foreldrahúsum við Laugaveg ásamt bræðrum sínum, Guðmundi og Ólafi. Einnig ólust upp með þeim systkinum Valgerður og Sigurður Ragnar. Ólafur og Valgerður eru látin.

Sigríður byrjaði sem ung stúlka að bera út blöð í Reykjavík og vann einnig við hin ýmsu afgreiðslustörf þar til hún fór um tvítugt á húsmæðraskóla til Sorö í Danmörku. Þegar skólagöngunni lauk kom Sigríður aftur til Íslands til að hugsa um heimilið og móður sína sem lést skömmu síðar.

Hinn 15. október 1955 giftist Sigríður Þórólfi V. Ólafssyni, f. 6.4. 1925, d. 23.3. 2015. Foreldrar hans voru Magdalena M. Benediktsdóttir, f. 13.5. 1891, d. 7.6. 1930, og Ólafur G. Einarsson, f. 1.9. 1887, d. 16.6. 1974. Stjúpmóðir Þórólfs var Guðrún Halldórsdóttir, f. 14.7. 1908, d. 29.4. 1993. Börn Sigríðar og Þórólfs eru Ólafur Gunnar, Ragnheiður Rannveig Stefanía og Margrét Auður. Sigurður Ragnar ólst upp með börnum þeirra. Fyrir átti Þórólfur soninn Davíð.

Sigríður og Þórólfur bjuggu allan sinn búskap í Reykjavík, þar af lengst á Laugarnesvegi, í Ljósheimum og bjuggu þau sín síðustu ár á Lindargötu. Sigríður vann hin ýmsu verkakvennastörf í Reykjavík samhliða húsmóðurstörfum.

Útför Sigríðar fer fram frá Áskirkju í dag, 7. janúar 2016, og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku mamma mín, það var erfitt að horfa á eftir þér kveðja þennan heim, en huggunin er að eftir standa minningar um yndislega mömmu, sterka og stórbrotna konu sem lifir ávallt með okkur áfram. En nú eruð þið pabbi sameinuð á ný og þið haldið áfram að fylgja okkur eins og þið gerðuð ávallt.

Elska þig, mamma mín.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Þín

Margrét.

Ég er einn af þeim sem eiga sér ekki margar minningar úr bernsku. Einhvern veginn hefur tíminn unnið á þeim flestum. En af þeim fáu sem ég hef tengjast margar henni „ömmu í Ljós“ eins og við systkinin kölluðum hana ávallt vegna þess að í okkar bernsku bjuggu þau afi, ásamt Ragnheiði, Óla og Möggu í Ljósheimum. Og jafnvel þó að hún væri löngu flutt úr Ljósheimum þá héldum við okkur við nafnið. Kannski var það einmitt svolítið viðeigandi að kenna hana við ljós. Þannig eru þær minningar sem ég á um hana eins og hún sjálf, bjartar, skýrar og koma manni til að brosa. Hnyttin tilsvörin sem mörg hver eru nánast orðin orðatiltæki innan fjölskyldunnar. Einlægur áhugi á mönnum og málefnum. Botnlaus hafsjór af fróðleik um fólk, staði og atburði sem hefði getað fyllt margar bækur sem einhver hefði átt að skrifa. Aldrei kom maður að tómum kofunum í samtölum við ömmu og alltaf var hún með allt á hreinu um fólkið sitt og málefni líðandi stundar. Hún var stór sál. Sál sem á einhvern hátt var aðeins stærri en gengur og gerist og öðlast þannig ákveðinn sess í hugum samferðafólks síns.

Elsku amma, þú gekkst langan veg og snertir svo marga á leiðinni. Og þó að vegurinn sé á enda þá er minningin skýr og heldur áfram að lýsa leið og ylja okkur hinum sem eftir erum.

Sigurður Ólafur Sigurðsson.

Elsku amma Sigga. Nú hefur þú kvatt okkur í hinsta sinn. Það eru ótal minningar sem koma upp í hugann þessa síðustu daga. Æskuminningarnar úr Ljósheimunum eru sterkar og margar. Kleinubakstur, ótal stundir við eldhúsborðið og svo auðvitað kvöldkaffið. Ég hef ennþá þann ósið í dag að fá mér kvöldkaffi og mér þykir bara smá vænt um það. Á síðari árum áttir þú það til að benda mér á það kurteislega, eða svo gott sem, að ég væri nú búinn að bæta aðeins á mig. Mér þótti bara vænt um það líka því ég man hvað þú hugsaðir vel um mig og sást til þess að ég færi nú vel nærður að sofa.

Þú og afi Goddi kennduð mér margt og hafið alltaf leikið stórt hlutverk í mínu lífi. Þegar ég dvaldist erlendis við nám fékk ég reglulega sendingar frá ykkur sem var eins og lífsbjörg í þeim róðri. Það ríkti ávallt mikil tilhlökkun og spenna hjá strákunum sem bjuggu með mér þegar pakki barst frá ykkur. Í pökkunum voru dagblöð, bakkelsi, íslenskt nammi og fleira, og manni fannst um stund að maður væri staddur heima á Íslandi sem var svo sannarlega kærkomið.

Það verður erfitt að venjast því að hafa þig ekki lengur hérna hjá okkur en ég trúi því að þú sért núna á betri stað með afa Godda þér við hlið. Ég mun sakna þín og halda fast í minningarnar sem þú gafst mér. Ég veit að þú munt vaka yfir okkur eins og þú hefur alltaf gert.

Stefán Örn Arnarson.

Elsku amma Sigga.

Núna er komið að kveðjustund okkar í bili. Ég finn fyrir miklum söknuði að kveðja þig. Við vorum miklar vinkonur og gátum eytt löngum stundum að tala um ættfræði.

Margar minningar koma yfir mig þegar ég hugsa til þín. Ein minning sem er mér mjög kær er bíltúrarnir okkar.

Reykjavík var okkar leiksvið. Amma Sigga fór í hlutverk sögumannsins og ég í hlutverk áhorfandans. Þar næst var haldið á vit ævintýranna. Þar sem Reykjavík nútímans fékk birtingarmynd fortíðar. Þar voru ættingjar og hús fortíðar tíðar persónur.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson frá Presthólum)

Hvíldu í friði, elsku amma mín, þegar minn tími kemur tekur þú á móti mér og við höldum á vit ævintýranna.

Þín nafna,

Sigríður Stefanía.

Elsku amma Nenni, nú kveð ég þig í hinsta sinn. Mér þykir mjög erfitt að átta mig á því að þú sért farin því þú varst alltaf til staðar, hvort sem það var fyrir mig eða okkur öll. Þú varst alltaf aðeins eitt símtal í burtu, það var alltaf hægt að koma og tala við þig um hvað sem er. Ég gleymi aldrei orðunum sem þú sagðir við mig einu sinni þegar ég sat einn daginn hjá ykkur afa: „Ég held ég fari aldrei héðan. Það þarf einhver að fylgjast með þessu liði.“

Ég áttaði mig strax á því að þetta væri algjör sannleikur því þú fylgdist alltaf með og hafðir okkur alltaf efst í huga. Þú verður ávallt með mér hvert sem ég fer. Þú og afi eruð fallegustu manneskjur sem ég hef átt kost á að þekkja og ég kveð ykkur með miklum söknuði en veit að þið eruð loksins sameinuð í eilífðinni. Í lífsins ókomnu tíð mun ég varðveita minningarnar sem ég á um ykkur og munu þær gleðja mig og styrkja.

Ég elska þig, amma mín, ég bið að heilsa honum afa.

Þórólfur Ólafsson.

Í dag kveðjum við Siggu ömmu eða ömmu í Ljós, eins og við systkinin kölluðum hana. Hún lést á aðfangadag og fékk því að eyða jólunum með afa. Amma var engri lík, hún vissi allt og þekkti alla. Maður kom aldrei að tómum kofunum hjá ömmu, hún þekkti forfeður okkar betur en allir aðrir og hún hafði alltaf frá mörgu skemmtilegu að segja.

Það var alltaf gott að koma til ömmu og Godda afa sem nú hafa sameinast á ný eftir aðeins níu mánaða aðskilnað en hann lést fyrr á árinu. Það var oft mikið spjallað á Lindargötunni þar sem þau bjuggu síðustu árin en áður bjuggu þau í Ljósheimum og á Laugarnesvegi.

Amma hugsaði svo vel um alla og spurði alltaf frétta af afkomendum sínum og hún fylgdist vel með því hvað aðrir voru að gera. Þegar maður kynntist nýju fólki gat maður alltaf leitað til ömmu til að fá nánari upplýsingar um forfeður þeirra og iðulega vissi hún meira um ættir fólks en það sjálft. Amma þekkti nefnilega alla í bænum eða vissi allavega hverra manna þeir væru.

Hún sagði oft sögur af því þegar hún var lítil og hvernig lífið var á þeim tíma sem hún var að alast upp sem ung stúlka í Reykjavík þar sem fólk lifði ekki við allsnægtir nútímans. Það var oft erfitt líf hjá þeirri kynslóð sem núna er smám saman að yfirgefa þetta jarðlíf.

Og nú eru amma og Goddi afi bæði farin og minningarnar einar eftir. Þeirra verður sárt saknað. Guð geymi þau.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Eygló Ragnheiður

Sigurðardóttir.

Mig langar til að minnast elsku ömmu minnar í örfáum orðum. Amma yfirgaf þennan heim nóttina fyrir aðfangadag til að halda jólin með Godda afa sem lést fyrir aðeins níu mánuðum. Við systkinin kölluðum hana alltaf ömmu í Ljós því hún bjó lengst af í Ljósheimunum með afa Godda. Amma í Ljós var einstaklega hjartahlý og góð kona. Hún var mjög sterkur karakter, sérlega skemmtileg og bjó yfir miklum frásagnarhæfileika.

Amma var líka ljósið í lífi okkar allt frá því ég man eftir mér. Hún var alltaf til staðar þegar á þurfti að halda. Hún passaði mig þegar ég var lítil meðan mamma og pabbi voru að vinna, þá bjuggu amma og afi Goddi í Laugarnesinu. Þá kallaði amma mín mig oft Guggamamma. Þetta nafn loddi við mig fram á fullorðinsár og mér þótti mjög vænt um það og amma sagði oft söguna af afa Agli og mér, þegar ég var að reyna að biðja um köku og sagði alltaf þegar ég kom „köku amma“ og að það hafi verið svo gaman að gefa mér að borða því ég elskaði mat og sérstaklega kökur.

Ég á líka margar góðar minningar úr Ljósheimunum frá unglingsárunum þegar við Magga frænka vorum með táningaveikina. Ég var kannski ekki alltaf sú vinsælasta hjá ömmu þá, þegar ég var að draga Möggu frænku með mér á Hallærisplanið og kenna henni að reykja. En amma fyrirgaf mér þetta nú allt saman með tímanum enda einstaklega góðhjörtuð kona og vildi öllum vel, sérstaklega fólkinu sínu. Ég man svo vel eftir því frá þessum tíma hvað við Magga höfðum gaman af því að ég kallaði ömmu ömmu og hún mömmu, þar sem Magga var skólaárinu yngri en ég fannst vinum okkar þetta frekar skrítið en okkur fannst þetta bara mjög fyndið og höfðum gaman af.

Amma var ofsalega trygglynd og fylgdist vel með fólkinu sínu.

Eftir að ég fluttist með fjölskylduna mína til Danmerkur var það fastur liður að fara til ömmu og Godda í hverri Íslandsferð. Ég veit að ömmu þótti mjög vænt um það og krökkunum fannst alltaf svo gaman að fara til ömmu og Godda afa því þau voru svo fyndin, sögðu þau. Þau voru bæði mjög orðheppin og göntuðust góðlátlega hvort við annað eins og þeim einum var lagið. Amma rakti garnirnar úr krökkunum eins og hún gerði líka við mig þegar ég var krakki, hún vildi vita hvað þau voru að læra og allt um þeirra hagi í Danmörku. Þannig var amma, hún vildi vita allt um sitt fólk og hvernig við höfðum það.

Þegar ég flutti fyrst til Danmerkur fyrir rúmum 18 árum, hvíslaði amma að mér þegar ég kvaddi hana: „Þóra mín, ég ætla bara að biðja þig um að lofa mér því að ef ég hrekk upp af á meðan þú ert úti að þá ferð þú ekki að eyða peningum í að koma hingað til að fylgja mér til grafar.“ Ég hló bara að henni og lofaði engu. Nú er ég komin til að fylgja ömmu síðustu sporin og ég held hún fyrirgefi mér það alveg.

Hvíl þú í friði, elsku amma mín.

Þóra Sigríður S.

Blomsterberg.

Um 11 ára sat ég í eldhúsinu hjá ömmu og hvíldi mig eftir eina danssyrpuna okkar, hún átti sennilega ekki að dansa með sitt veika hné en það hefði seint stoppað hana. Við spjölluðum saman og talið barst að dauðanum. Þá segir amma: „Þórhildur ég vil engar helv... pönnukökusögur þegar þú ferð að skrifa um mig.“ Já, hún amma mín kunni að orða hlutina og fór sjaldan fínt í þá. Jæja, amma mín, nú er tíminn kominn og skal ég reyna að forðast eins og heitan eldinn að minnast einu orði á pönnukökur. Ég held þó að áhyggjur af hefðbundnum minningargreinum hafi verið óþarfar því skrif um slíka konu geta aldrei orðið hefðbundin. Ég vona að ég geti tileinkað mér einhverja af hennar kostum því hjartalagið var einstakt, engin manneskja er jafn orðheppin, fyndin og skemmtileg. Annan eins friðarsinna er erfitt að finna, reynt var að hafa alla góða og koma vel fram, aðgát skal höfð í nærveru sálar en þó er í góðu lagi að grínast og gera þá helst einna mest grín að sjálfri sér.

En þó ekki megi minnast á pönnukökur þá má kannski minnast á hvað ég var heppin að fá að hafa ömmu svona lengi, að lenda hjá ömmu sem nennti að tala við mig, spila, dansa, kenna mér, sýna mér, ferðast með mér, flakka og vera með mér. Hugurinn reikar og erfitt er að koma einhverju á blað, því minningarnar eru of margar til að telja upp og allar eru góðar svo erfitt er að gera upp á milli. Stundirnar okkar í Ljósheimunum eru ómetanlegar og þakklætið fyrir þær mikið. Þar hafði mikið að segja hjartahlýja amma og húmorinn sem laðaði alla til sín enda var sjaldan autt sæti í eldhúsinu. Í minningunni var alltaf fullt hús, amma í kápunni því „hér bíða allir eftir mat og ég hef engan tíma til að fara úr“. Við hefðum getað beðið en minningin um ömmu að elda í kápunni er skemmtileg. Þó nóg væri að gera hjá ömmu munaði hana ekki um að fá sér göngutúr niður í Glæsibæ til að kíkja á fólkið, setjast með mér og spila, lesa margar bækur fyrir háttinn og baka smákökur fyrir alla. Baksturinn var oft skrautlegur og eitt sinn þegar við systkinin vorum að ganga frá henni með rifrildi sagðist hún henda deiginu út um gluggann ef við hættum ekki.

Það þarf vart að taka fram að systkinin breyttust samstundis í engla rétt áður en allir sprungu úr hlátri yfir því að amma hefði ætlað að henda deiginu út um gluggann.

Þegar ég hélt í höndina á ömmu er hún kvaddi þennan heim rifjaðist upp það sem hún sagði þegar hún kvaddi afa svo fallega fyrir stuttu „margs er að minnast og margt er að þakka fyrir“. Þetta er sannarlega viðeigandi í dag, minningarnar eru margar og fallegar og ég þakka fyrir hverja einustu. Það hafa án efa verið fagnaðarfundir þegar Sigga E. hitti aftur alla þá sem hún var farin að sakna og eitt er ég viss um, þá hefur verið „bingó og ball attaní“.

Góða ferð, fagra sál. Þú varst ekki mikið fyrir lofræður svo ég stoppa hér og segi eins og þú sagðir oft þegar þér fannst nóg komið, sagan er búin! Okkar saga verður ekki lengri að sinni en ég veit að þú bíður mín þegar þar að kemur.

Þín

Þórhildur Ýr.

Þegar helgi jólanna var fagnað kvaddi kær systir mín eftir erfið veikindi.

Það var margt sem tengdi okkur systkinin sterkum tryggðaböndum á langri lífsleið okkar. Við áttum sama afmælisdag, aðeins eitt ár skildi fæðingardaga okkar að. Við áttum sameiginleg áhugamál í lestri góðra bóka, ættfræði og sögu ættingja okkar sem hafa safnast til feðra sinna en lítið var vitað um.

Sigga systir var einstaklega minnug á liðna atburði og áttum við góðar stundir síðustu árin þar sem við rifjuðum upp sagnir og atburði langt aftur í ættir. Sigga var viljug og áhugasöm að liðsinna mér þegar ég leitaði til hennar með aðstoð er varðaði móður- og föðurætt okkar sem nú hefur skilað sér í bækur sem vonandi lifa, afkomendum okkar til fróðleiks og ánægju.

Uppvaxtarárin mótuðu okkur systkinin og við lærðum, ásamt eldri bróður okkar, Ólafi, að meta mikilvægi þess að fara vel með. Umfram allt að meta og sýna náungakærleik til okkar minnsta bróður. Á heimili okkar voru verkin látin tala. Á árunum fyrir seinni heimsstyrjöldina stóð heimili foreldra okkar við Laugaveginn. Á þessum tíma var Reykjavík að breytast úr bæ í borg, malbik ekki komið svo austarlega í bæinn og bílaumferð lítil. Við krakkarnir gátum því lagt Laugaveginn undir fótboltavöll og kýlubolta. Hópurinn var þéttur, ef þrengdi að hjá fjölskyldum sem við höfðum samneyti við. Ósjaldan lagði móðir okkar lið til að tryggja að börnin fengju a.m.k. nóg að borða.

Sigga systir lærði snemma til húsverka og matseldar, þó ung væri.

Mamma var henni góð fyrirmynd sem fór vel með því oft kreppti að á þessum árum þegar viðvarandi atvinnuleysi var til staðar um árabil á Íslandi. Þá voru sjófuglarnir sem faðir okkar skaut oft eina lífsbjörgin þegar þrengdi að með mat. Nokkuð var um að launamenn sameinuðust um bátskænu og reru út á sund til að ná sér í fisk til matar. Nokkrir nágranna okkar voru aðfluttir bændur og sjómenn eins og faðir okkar. Bændur komu sér upp skúrum þar sem þeir gátu haft nokkrar kindur, hesta og jafnvel kýr ef stærð skúranna leyfði. Þetta tímabil sögunnar muna nú fáir í dag.

Foreldrar okkar systkinanna söfnuðu ekki í hlöður fremur en fuglar himinsins eins og sagt er í „Stóru bókinni“. En víst er að þau skildu eftir sig gildi til okkar systkina sem hvorki mölur né ryð fær grandað. Gildi góðleikans, náungakærleikans sem er fólginn í því að rétta sínum minnsta bróður hjálparhönd, er sú innræting sem móðir okkar kenndi okkur og Sigga systir mín tileinkaði sér í ríkum mæli allt sitt líf.

Sigga systir giftist Þórólfi Ólafssyni ung að árum og saman áttu þau Ólaf, Ragnheiði og Margréti, allt mannkostafólk. Þá var Sigurður R. Blomsterberg, kjörsonur foreldra okkar, mikið á heimili þeirra og hefur reynst fjölskyldunni vel. Sigga systir var stolt af afkomendum sínum og deildi gleði með börnum og barnabörnum sem veittu henni lífsfyllingu. Við hjónin og börn okkar þökkum áratuga kynni og sendum börnum og allri fjölskyldunni hlýjar samúðarkveðjur. Megi minning Siggu lifa um ókomna tíð.

Hervör og

Guðmundur K. Egilsson.

Elsku föðursystir mín kvaddi á aðfangadegi jóla, eða eins og Blær bróðursonur minn sagði þá mér til hughreystingar: „Hún valdi sér fallegan dag til að kveðja.“

Ég man hvað var gaman þegar Sigga hringdi á kvöldin og spurði um mitt fólk og sagði mér frá sínu fólki. Hún vildi fylgjast vel með.

Samtöl byrjuðu venjulega: „Hvernig hafið þið það þarna í rotað og rænt (les Rvík 101)?“ Svo komu ógleymanlegar setningar eins og: „Jæja góða mín, var gaman hjá ykkur? Það hefur aldeilis verið fjör í kringum fóninn!“ Eða þá: „Fóruð þið eitthvað á eftir – ja, ég ætla nú bara ekkert að segja, bara bingó og ball'attaní“ var eitt af hennar uppáhalds, og mitt líka.

Áhugamál systkinanna, pabba og Siggu, var fólk, skipti þá engu hvort það var ungt eða gamalt. Og þeirra viðkvæði var, ef þeir sem í kring voru gátu ekki svarað eða fyllt í eyður eins og hverra manna eða hvaðan einhver væri: „Þið vitið aldrei neitt enda spyrjið þið aldrei neinn að neinu!“

Í mörg ár kom ég með smá jólaglaðning til Godda og Siggu. Þau tóku vel á móti mér og mínum.

Þetta árið heimsótti ég þig á spítalann og jólaglaðningurinn var notalegt spjall og koss á ennið þitt. Þú leist vel út og horfðir út í tómið um stund. Hvað ertu að hugsa Sigga mín? „Bara eitthvað fallegt og gott.“

Staður Siggu frænku í hjarta mínu er stór, þar er mikill kærleikur og alltaf fullur hlýju.

Þú hafðir svo margt að gefa sem alltaf skiptir máli í lífinu; manngæsku.

Að leiðarlokum hafðu þökk fyrir samfylgdina.

Hvíl í friði kæra frænka.

Elsku Siggi Raggi, Óli, Ragnheiður, Magga og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur.

Ragnheiður Ólafsdóttir.

Í öllum fjölskyldum ætti að vera frænka eins og Sigga systir hans pabba, umfaðmandi, hlý og einstök mannkostakona sem átti engan sinn líka.

Ég kallaði hana ýmist Siggu frænku eða Siggu systur, eins og þeir bræður, Óli og faðir okkar Guðmundur, gerðu. Sigga var sameiningartákn fjölskyldunnar, órjúfanlegur hluti af tilverunni þegar við sem tilheyrðum yngri kynslóð fjölskyldunnar vorum að alast upp.

Við Ragnheiður, dóttir hennar, vorum jafnöldrur og miklar vinkonur á uppvaxtarárunum. Ósjaldan lá leið mín í helgarheimsóknir með strætó á Laugarnesveginn til Siggu frænku, Godda og fjölskyldunnar sem tóku mér opnum örmum. Þegar strætó nálgaðist var það nánast eins og óskráð regla að líta í gluggana á efstu hæðinni í húsinu til að sjá þær mæðgur horfa út. Stundum var Ragnheiður úti í garði með Möggu, sem var langyngst, yndi allra, með ljósar Shirley Temple-krullur.

Það var mikill gestagangur á Laugarnesveginum og margir sem leituðu til Siggu eftir ráðleggingum og til að spjalla. Ætíð fóru gestirnir ríkari að vísdómi og skemmtilegheitum eftir miklar trakteringar og kruðirí.

Ég var mikill bókaormur og fór reglulega á bókasöfn og fornbókasölur með föður mínum að skipta bókum. Það kom fyrir að pabbi fann áhugaverða bók um gamla tíma eða ævisögur sem hann sendi mig með til Siggu því hún hefði örugglega gaman af að kíkja á bækurnar. Þar lá þeirra sameiginlegi áhugi og þau systkin gátu svo rætt í óratíma í síma, að mati okkar barnanna, um dáið fólk, híbýli og gamla tíma. Sigga sýndi mínum bókalestri líka óspart áhuga og innti oft eftir því hvaða bækur ég væri að lesa og kannaðist yfirleitt við höfunda bókanna og efni þeirra.

Sigga sótti ung nám í Húsmæðraskóla í Danmörku. Það var skemmtilegt þegar hún notaði dönsk orð og orðatiltæki við eldamennskuna og átti jafnvel til að taka lagið þegar vel lá á henni með alls kyns „tungubrjótum“.

Sigga hafði einstakt lag á að vera sálusorgari annarra og veita ráð sem bestu sálfræðingar í dag myndu vafalítið vera stoltir af. Mig grunaði stundum að þetta væri ekki síst vegna þess að hún hafði sjálf þurft að leysa úr eigin málum sem ollu hugarangri en hún bar þær byrðar í hljóði og aldrei var á henni að sjá að aðstæður eða veikindi væru henni ofraun.

„Sigga systir“, kær frænka mín, fylgdist vel með sínu fólki, heima og erlendis. Hún er líklega eina frænkan ásamt Óla bróður pabba sem sætti lagi að sækja okkur Árna heim á öllum okkar búsetustöðum. Við jarðarför Godda fyrir nokkrum mánuðum lá henni mikið á hjarta. Hún sagði orðrétt eins og henni einni var lagið með áherslum sem sögðu allt sem ekki er unnt að færa í orð: „Bryndís mín, veistu – ég vil þú vitir að ég fylgist alltaf með þér, elskan mín. Ég er stolt af þér og veit að þú hefur snert marga og hjálpað mörgum í þínu starfi. Það er mikil gæfa og ekki öllum gefið.“

Ég kveð frænku mína með virðingu og þökk. Hún snerti marga á sinni lífsleið. Ég er sannfærð um að hún fylgist áfram með öllu sínu fólki. Megi falleg minning elskulegrar frænku minnar lifa um ókomna tíð.

Bryndís Guðmundsdóttir.