Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Nú styttist óðum í að Hlemmur taki verulegum stakkaskiptum. Á vormánuðum er stefnt að því að þar verði opnaður matarmarkaður og ganga má út frá því að þau áform geti auðgað mannlífið og styrkt miðborgina á margan hátt.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Nú styttist óðum í að Hlemmur taki verulegum stakkaskiptum. Á vormánuðum er stefnt að því að þar verði opnaður matarmarkaður og ganga má út frá því að þau áform geti auðgað mannlífið og styrkt miðborgina á margan hátt. Þar verður um sannkallaða viðbót við fjölskrúðugt mannlíf að ræða, enda hefur svæðið í kringum Hlemm orðið meira spennandi á síðustu árum, bæði í kjölfar þéttari byggðar en einnig allra þeirra spennandi verslana og veitingahúsa sem sprottið hafa upp í nærumhverfinu.

Og þótt Hlemmur geti í raun kallast eina „lestarstöð“ okkar Íslendinga eru margir sem fagna fyrirhuguðum breytingum enda hefur hann lengi staðið sem táknmynd grámuskulegs ljótleika. Þegar hin flennistóru auglýsingaskilti Strætó verða tekin niður blasir við áhugaverð bygging Gunnars Hanssonar sem tekin var í notkun árið 1978. Seint mun hún teljast falleg sem slík en starfsemin sem nú er fyrirhugað að koma þar upp mun auka á fríðleika hússins svo um munar. Oft er það nefnilega með húsin eins og mannfólkið að fegurðin kemur að innan.

Það er vonandi að þeir sem nú leiða uppbygginguna á Hlemmi á nýja árinu beri gæfu til að velja vel þá rekstraraðila sem fylla munu innanrými þessa merka staðar. Þar þarf að haldast í hendur faglegur metnaður, frumleg hugsun en einnig sú viðleitni að það sem á boðstólum verður sé á færi sem flestra að geta notið. Þar vísast bæði til fjölbreytileika og verðs.