[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
K ristín Guðmundsdóttir tekur út leikbann þegar Valur tekur á móti Fram í Olís-deild kvenna í Valshöllinni í kvöld, í fyrsta leik ársins í Olís-deild kvenna í handknattleik.

K ristín Guðmundsdóttir tekur út leikbann þegar Valur tekur á móti Fram í Olís-deild kvenna í Valshöllinni í kvöld, í fyrsta leik ársins í Olís-deild kvenna í handknattleik. Kristín var útilokuð í viðureign Vals og ÍBV í undanúrslitum deildabikarkeppninnar á milli jóla og nýárs og sýpur seyðið af því annað kvöld. Aganefnd HSÍ úrskurðaði Kristínu í eins leiks bann á fundi sínum á dögunum. Kristin hefur verið einn allra besti leikmaður Vals á keppnistímabilinu, reyndar eins og á síðustu leiktíð einnig. Hún er markahæsti leikmaður Valsliðsins með 86 mörk í 12 leikjum.

Liverpool gekk í gær frá kaupum á Marko Grujic , 19 ára miðjumanni, frá serbneska knattspyrnuliðinu Rauðu stjörnunni frá Belgrad. Liverpool greiðir um 5 milljónir punda fyrir leikmanninn, sem mun leika áfram sem lánsmaður með Rauðu stjörnunni til vorsins.

Siðanefnd FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins, framlengdi í gær bann á framkvæmdastjóra sambandsins, Jeróme Valcke , við afskiptum af knattspyrnu um 45 daga, eða til 20. febrúar. Rannsóknarteymi siðanefndarinnar mælti í fyrradag með því að Valcke yrði úrskurðaður í níu ára bann frá knattspyrnu vegna meintrar spillingar og óskaði eftir því að þágildandi bann hans í 90 daga, sem rann út í fyrradag, yrði framlengt.

E mil Hallfreðsson og félagar hans í Hellas Verona eru enn án sigurs eftir 18 leiki í ítölsku A-deildinni. Liðið tapaði í gær fyrir Juventus eins og vænta mátti en 3:0 urðu lokatölurnar þar sem Paulo Dybala, Leonardo Bonucci og Simone Zaza skoruðu mörk ítölsku meistaranna en þetta var áttundi sigur þeirra í röð. Emil var skipt útaf á 82. mínútu en hann nældi sér í gult spjald í leiknum og var það hans sjöunda á tímabilinu. Hellas Verona er í botnsætinu með aðeins 8 stig en liðið hefur tapað 10 leikjum og gert 8 jafntefli.

Roger Lemerre sem gerði Frakka að Evrópumeisturum í knattspyrnu árið 2000 var í gær ráðinn þjálfari franska C-deildarliðsins Sedan, sem hann spilaði með á árum áður. Lemerre, sem er 74 ára gamall, var rekinn úr starfi landsliðsþjálfara árið 2002 eftir dapurt gengi Frakka á heimsmeistaramótinu. Hann var síðast þjálfari liðs Etoile í Túnis en hætti þar árið 2014.