— AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar of miklir peningar eltist við of fáar vörur leitar verðið upp á við. Eignaflokkar sem vaxa hægt, eins og listaverk, eru því sérstaklega viðkvæmir fyrir sveiflum.

Þegar of miklir peningar eltist við of fáar vörur leitar verðið upp á við. Eignaflokkar sem vaxa hægt, eins og listaverk, eru því sérstaklega viðkvæmir fyrir sveiflum.

Það kemur því ekki á óvart að eftir að vextir lækkuðu í kjölfar fjármálahrunsins hafa listaverk skilað sérlega góðri ávöxtun. Knight Frank-vísitala lúxusfjárfestinga þrefaldaðist á einum áratug fram til septemberloka, en hún mælir verðþróun eigna allt frá frímerkjum til eðalvína. Listaverk hækkuðu um 239%.

Eftir því sem verðið hefur hækkað hefur uppboðsmarkaðurinn með listaverk stækkað, úr 3 milljörðum dala árið 2009 upp í meira en 16 milljarða í árslok 2014, samkvæmt nýlegri skýrslu frá Citi-bankanum.

Þróunin skrifast þó ekki öll á ódýrt fjármagn, því fjársterkir kínverskir kaupendur hafa verið áberandi á listamarkaðinum rétt eins og annars staðar. Í nóvember greiddi kínverski kaupsýslumaðurinn Liu Yiqian meira en 170 milljónir dala, næsthæsta verð sem nokkurn tíma hefur verið greitt fyrir mun á uppboði, til að eignast málverk eftir Modigliani. Frá árinu 2000 hefur virði listaverka sem seld eru á uppboðum í Kína vaxið frá því að vera minna en 1% af uppboðsmarkaðinum á heimsvísu, upp í að vera meira en fjórðungur. Nú kunna áhrifin frá Kína að vera að ganga til baka. Söluandvirði á uppboðum Sotheby‘s á nútímalist, og sambærilegum uppboðum hjá Christie‘s, dróst saman á síðasta ári borið saman við árið þar á undan.

En eftir því sem áhuginn breiðist út er ósennilegt að það muni hægja lengi á uppsveiflunni á listaverkamarkaði. Í hópi 200 helstu listaverkasafnara heims árið 2013 var fólk af 29 þjóðernum, en þjóðernin voru bara 17 árið 1990. Könnun sem Knight Frank gerði leiddi það í ljós, að nærri tveir af hverjum þremur fjármálaráðgjöfum segja að auðugustu viðskiptavinir þeirra séu farnir að sýna listaverkum meiri áhuga. Það gæti verið von á enn meiri peningum í eltingaleikinn.