Guðrún María Bjarnadóttir fæddist á Þingeyri 31. desember 1934. Hún andaðist á Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 29. desember 2015.

Foreldar Guðrúnar voru Vigdís Lydía Sigurgeirsdóttir húsmóðir, f. 3.12. 1896, d. 11.10. 1975, og Bjarni Matthías Sigurðsson, tré- og járnsmiður, f. 29.11. 1894, týndist á Snæfellsnesi 25.8. 1974.

Systkini Guðrúnar: 1) Hrefna Sigríður, f. 21.10. 1924, d. 16.2. 1989, seinni maki Hrefnu var Ólafur G. Kristjánsson, f. 27.7. 1927, d. 1993. 2) Gunnar, f. 28.9. 1928, d. 19.6. 1970, kvæntur Herdísi Guðrúnu Ólafsdóttur, f. 2.7.1926, d. 21.7. 2011. 3) Sigurgeir, f. 17.2. 1931, maki Sigurdís Egilsdóttir, f. 25.10. 1931.

Guðrún giftist 12.11. 1955 Herði Guðmundssyni vélfræðingi, f. 9.11. 1932. Þau eignuðust þrjú börn:

1) Vigdís, jarðefnafræðingur, f. 6.7. 1955, giftist Birni A. Harðarsyni, f. 21.1.1954, þau skildu. Seinni maki Vigdísar er Gestur Gíslason jarðefnafræðingur, f. 26.4. 1946. Dætur Vigdísar eru a) Elísabet Guðrún, f. 2.12.1983, í sambúð með Bjarna Jónssyni rafmagnsverkfræðingi, f. 1984, og þeirra drengur er Björn Elí, f. 18.2. 2014. b) Sigrún Emma, f. 28.8. 1985. c) Steinunn, f. 10.3. 1991, í sambúð með Vilhjálmi Th. Hönnusyni, f. 1990.

2) Helga, endurskoðandi, f. 10.10. 1959, eiginmaður hennar er Lárus Þór Svanlaugsson viðskiptafræðingur, f. 5.10. 1957. Börn þeirra eru: a) Haukur, f. 1.7. 1987, í sambúð með Katrínu Elfu Arnardóttur, f. 1991, b) Hörður Þór, f. 16.3. 1989, og c) Linda, f. 12.7. 1996.

3) Guðmundur Bjarni, framkvæmdastjóri, f. 7.7. 1965. Eiginkona hans er Rut Hreinsdóttur viðskiptafræðingur, f. 8.5. 1967. Þeirra dætur eru Guðrún María, f. 9.4. 1994, og Eydís Freyja, f. 6.4. 1996.

Guðrún ólst upp á Þingeyri til átta ára aldurs er hún flutti til Ólafsvíkur með foreldrum sínum. Þar bjó hún til 13 ára aldurs er hún fór til Reykjavíkur til náms í Kvennaskólanum. Guðrún vann m.a. hjá Heildverslun Ásgeirs Sigurðssonar og á Brákaborg er hún og Hörður fluttu til Ólafasvíkur árið 1965. Þau hjónin tóku ásamt systkinum Guðrúnar við rekstri vélsmiðjunnar Sindra hf. í Ólafsvík. Guðrún og Hörður fluttu 1972 til Reykjavíkur. Guðrún hóf þá störf hjá Menntamálaráðuneytinu og vann þar um stuttan tíma þar til hún færði sig yfir til Ingólfsapóteks sem bókari. Síðar hóf Guðrún störf hjá Vélabókhaldi Jóns Snæbjörnssonar en lauk starfsferli sínum sem aðalbókari hjá B.M. Vallá.

Guðrún var í kirkjukór Ólafsvíkur, í kvenfélagi Ólafsvíkur og formaður þess um tíma. Hún spilaði bridge og spilaði blak með heldri hjónum um tíma.

Guðrún var greind með Alzheimer-sjúkdóminn 2006 og bjó í Skógarbæ frá ársbyrjun 2010.

Útför Guðrúnar Maríu fer fram í Grafarvogskirkju í dag, 7. janúar 2016, og hefst athöfnin klukkan 11.

Nú hefur uppáhaldsmamma mín kvatt þennan heim eftir erfiða baráttu við Alzheimer-sjúkdóminn.

Hún er nú komin á vit ævintýranna og hefur fengið svör við öllum þeim stóru spurningum sem hún fékk ekki svar við í lifanda lífi, eins og hvar faðir hennar er niðurkominn.

Mamma mín var góður leiðtogi og leiðbeinandi og hafði gríðarlegan metnað fyrir því að börn hennar gengju menntaveginn og öðluðust sjálfstætt líf. Þessi eilífðar elja skilaði sér í því að ég og uppáhaldseiginkonan mín lukum námi.

Mamma var vinamörg og kærleiksrík og alltaf mikið líf og fjör í kringum hana. Hún ól mig upp af mikilli ástríðu og hvern einasta morgun sem ég fór á fætur var hún tilbúin með heitt kakó fyrir mig og Kela kisu.

Hún var langt á undan sinni samtíð hvað varðar kvenréttindi og var hún þeirrar skoðunar að allir Íslendingar þyrftu að eiga sjálfstætt líf og þak yfir höfuðið. Þau styrktu okkur systkinin með kaup á fyrstu eign okkar og lögðu grunninn að fjárhagslegu sjálfstæði barna sinna.

Hún var mikill vinur og var verndari æskufélaga minna sem kallast UD eða uppáhaldsdrengirnir enda vorum við allir hennar uppáhaldsdrengir. Uppátæki okkar drengjanna voru mörg skrautleg og verða ekki tíunduð hér en alltaf kom hún okkur til bjargar.

Við áttum margar yndislegar stundir í gegnum þetta stutta ferðalag sem lífið er, spiluðum mikið bridge með pabba og mömmu, áttum margar góðar stundir saman í Danmörku meðan við vorum búsett þar.

Þú varst gjafmild með eindæmum og lýsandi fyrir það var þegar þið buðuð okkur systkinum, mökum og barnabörnum í ferð til Kanaríeyja um áramótin 2004-05 þar sem tilefnið var 70 ára afmælið þitt.

Nú kveður þú þennan heim og mátt vera stolt af lífshlaupi þínu hér á jörðu.

Ég kveð þig með þessu erindi sem þú fórst svo oft með þrátt fyrir veikindi þín en höfundur þess er pabbi þinn, Bjarni Matthías Sigurðsson:

Svona fer það allt og eitt,

án þess nokkurn vari.

Lífið er svona lögum beitt,

líkt og týra á skari.

Guðmundur Bjarni

Harðarson.

Það er afar erfitt að horfa eftir sínum nánasta smám saman hverfa af völdum Alzheimer-sjúkdómsins. Samskiptin færðust úr því að mamma mín elskuleg gat spurst fyrir um okkur börnin, barnabörnin og nánustu vini yfir í að geta eingöngu hlustað og reynt að meðtaka það sem sagt var.

Undir það síðasta var það þó söngur sem sameinaði okkur því þar þurfti hún ekki að raða orðunum saman sjálf. Lögin kunni hún og undir þau tók hún veikri röddu.

En kímnigáfan var alltaf til staðar. Hún sagði bæði í gríni og alvöru að hún væri bæði búin að ræða við Hann þarna uppi og þarna niðri um að taka við sér en þeir hlustuðu ekki á sig. Einnig sagði hún ávallt er hún stóð upp við illan leik þar sem hún studdi sig við göngugrindina; „stóð ég léttilega á fætur“ og brosti. Við systkinin töluðum stundum um það hvað við vorum þó heppin með það hvernig sjúkdómurinn lagðist á mömmu en hún hélt alla tíð sínum persónuleika, sem einkenndist af jákvæðni, gleði og réttsýni. Hún þekkti okkar alla tíð, fyrir það vorum við þakklát.

Á þeim tíma sem mamma dvaldi á hjúkrunarheimili gladdist hún þegar við heimsóttum hana. Hún benti okkur jafnan á að við þyrftum ekki að koma svona oft eða stoppa svona lengi. Og nú væri kominn tími til að drífa okkur heim því við ættum fjölskyldu sem við þyrftum að hugsa um. Hvað er hægt annað en að dáðst að svona viðhorfi? Allt var gert til að okkur liði sem best þegar við fórum frá henni.

Mamma var mikil kjarnakona. Hún vann ávallt úti. Lengst af vann hún sem bókari eða aðalbókari. Á þeirri vegferð kynnist hún mörgu góðu samferðafólki sem hélt sambandi við hana alla tíð. Þar á meðal var hún Dröfn okkar sem við nefndum ávallt hálfsystur okkar, en þær voru mjög nánar.

Fjölskylda mömmu var og er mikið söngfólk og meðan við bjuggum í Ólafsvík söng hún í kirkjukór Ólafsvíkur eins og öll systkini hennar. Mamma spilaði á gítar og var mikið sungið á heimilinu. Dró mamma oftar en ekki fram gítarinn við ýmis tækifæri. Mér er það minnisstætt sem einn af vinum mínum sagði eftir að hafa verið með þeim hjónum, óvænt, í veislu á Spáni fyrir mörgum árum er hann sagði að fjörið hefði ekki byrjað fyrr en mamma tók fram gítarinn. „Þá hófst fjörið, hún er ótrúleg,“ sagði hann.

Það kom ekki á óvart þegar mamma var formaður kvenfélagsins í Ólafsvík að hún stóð meðal annars fyrir því að sett var á laggirnar barnaheimili sem gerði ungum konum auðveldara að komast út á vinnumarkaðinn. Hún vildi að konur hefðu val.

Mamma var há og glæsileg kona, gædd miklum mannkostum. Líkamleg heilsa hennar var ekki góð. Hún var mjög ung þegar hún fann fyrst fyrir slitgigt sem orsakaði það að hún fór í nokkrar mjaðmaaðgerðir auk hnéaðgerðar. Aldrei nokkurn tímann heyrðum við hana kvarta. Nei, það þurfti ekki að hlaupa niður eða upp stigann fyrir hana – hún hafði gott að því að hreyfa sig að eigin sögn!

Það er svo margt sem ég á mömmu að þakka. Hún var stoð mín og stytta. Hún var einstök á allan hátt. Ég elskaði hana af öllu hjarta og sakna hennar sárt.

Helga Harðardóttir.

Frá er fallin ein stórbrotnasta kona sem ég hef kynnst og ég var svo lánsöm að eiga sem tengdamóður. Það er svo ótalmargt sem bar á okkar daga frá því ég kynntist þér fyrst, þá aðeins 18 ára gömul. Mér er sú stund alltaf sérstaklega minnisstæð þegar ég stóð í anddyrinu á heimili þínu í Staðarbakkanum og þorði varla að koma inn enda feimin að eðlisfari, en þitt hlýja viðmót og útbreiddur faðmur fylltu mig kjarki til þess að stíga inn og eiga við þig skemmtilegt samtal. Í framhaldinu urðu samverustundirnar fleiri og fleiri og á tímabili bjó ég nánast hjá ykkur í Staðarbakkanum. Þú kenndir mér svo margt sem ég hef búið að alla tíð síðan, allt frá því að kenna mér til almennra húsverka og til kvenréttindamála, þar sem þér var svo hugleikið að konur ættu standa jafnfætis karlmönnum og fá sama rétt óháð kyni. Þú varst svo langt á undan þinni samtíð í kvenréttindabaráttunni enda með eindæmum dugleg og klár kona.

Á þeim 30 árum sem við áttum saman urðum við miklar vinkonur og áttum reglulega trúnaðarspjall saman en það var alltaf svo gott að leita til þín. Ég naut mikils stuðnings frá þér en þú hvattir mig ekki síður en uppáhaldssoninn Guðmund Bjarna í að mennta mig og er ég þér ævilangt þakklát fyrir það.

Við áttum það sameiginlegt að finnast gaman að spila og fljótlega eftir að ég kom í fjölskylduna var mér kennt að spila bridge. Reyndum við alltaf að finna tíma til þess að spila nokkrar „rúbertur“, hvort heldur sem það var í sumarfríum um helgar eða eftir matinn í miðri viku, en þetta voru svo skemmtilegar samverustundir sem við áttum saman. Ég sakna ennþá þessara gæðastunda sem við áttum saman.

Ég er stolt af því að eiga dóttur sem ber nafn þitt, Guðrún María, en hún var skírð við hátíðlega athöfn á Þingvöllum 17. júní árið 1994 þar sem voru samankomnir allir helstu þjóðhöfðingjar frá Norðurlöndunum og víðar, að fagna 50 ára lýðveldisafmæli Íslands. Þú gerðir þessa athöfn svo sérstaka en þú vissir ekki að þú værir að fá nöfnu fyrr en nokkrum mínútum áður en athöfnin átti sér stað í Almannagjá á Þingvöllum. Þú hafðir þá þegar fengið leyfi til þess að gróðursetja tré í vinaskógi Vigdísar í tilefni skírnarinnar á Þingvöllum. Það er minnisvarði sem við munum eiga um aldur og ævi um þig enda ekki á allra færi að fá þessu framgengt.

Ég ætla að láta lokaorðin mín til þín vera úr smiðju Bubba Morthens „fallega þú í hjarta mér“, en þú varst falleg að innan sem utan og með hjarta úr gulli.

Þín tengdadóttir

Rut.

Elsku amma okkar.

Nú ert þú farin frá okkur og erum við þakklátar fyrir það að þú sért loks komin á betri stað því þú hefur alltaf átt það besta skilið. Við minnumst þín á Staðarbakka 10 í rósóttri skyrtu, saumandi eða prjónandi með Villa Vill á fóninum og ávallt svo glöð að sjá okkur. Við hlökkuðum alltaf til að koma til ykkar afa þar sem okkur leið svo ótrúlega vel hjá ykkur. Á Staðarbakkanum vorum við alltaf umkringdar hlýju, kærleik og gleði.

Það var alltaf hægt að stóla á að kræsingar og sælgæti væru á boðstólum þegar við vorum í návist þinni. Þú varst til dæmis svo hugulsöm að gera alltaf tvöfaldan skammt af kremi þegar þú bakaðir svo að við gætum sleikt skálina að vild, þó að það hafi reyndar stundum þýtt að við hefðum ekki mikið pláss fyrir kökuna sjálfa.

Það var mikið stuð að fá að gista hjá ykkur afa á yngri árum og minnumst við systur sérstaklega þess hversu notaleg kvöldin voru. Eftir að hafa horft á skemmtilega teiknimynd með nammi við hönd last þú ætíð fyrir okkur áhugaverða bók. Kvöldið endaði svo á því að þú klóraðir okkur á bakinu, söngst „Erla góða Erla“ og fórst loks með bænirnar fyrir okkur. Það var varla hægt að óska sér betri endis á deginum.

Okkur langar að verða eins og þú; góð, full af kærleik, hlýleg, þolinmóð og alltaf til staðar. Þú varst hin fullkomna amma.

Hvíldu í friði elsku amma,

Þínar,

Elísabet, Sigrún

og Steinunn.

Elsku amma okkar. Mikið ósköp leið okkur alltaf vel á Staðarbakkanum í hlýjunni hjá þér og afa. Þið gáfuð okkur svo mikið og voruð alltaf tilbúin að hjálpa okkur. Þú rifjaðir oft upp skemmtisögur af okkur systkinunum sem enn gleðja okkur. Haukur mun standa við loforð sitt og vera manna fyrstur á staðinn ef bein finnast á Snæfellsnesinu eins og þú baðst hann um. Núna ertu komin á betri stað og við vonum innilega að þú sért búin að hitta pabba þinn sem við töluðum svo oft um.

Meðfylgjandi eru tvö erindi úr fallegu ljóði sem heitir Fallega Lóan mín.

Svo fallegur engill nú bæst hefur við

herskara drottins við himnanna hlið.

Með brosið sitt blíða af bjartsýni full

blikandi ljósberi, fegursta gull.

Ég reyni að gleðjast því laus ertu við

sjúkdómsins böl, hefur fundið þinn frið.

Með kertinu þínu sem kveikt hefi á

ég bið þess að sálarró munir þú fá.

(Bergljót Hreinsdóttir)

Elskum þig amma okkar.

Haukur, Hörður Þór

og Linda.