Nýir kjarasamningar til þriggja ára gefa færi á að auka hagsæld í landinu

Kjarasamningurinn sem forustumenn Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands gengu frá í fyrradag heyrir til tíðinda. Samningurinn nær til 80 þúsund félagsmanna ASÍ. Hann snýst ekki bara um launahækkanir, heldur einnig hærri lífeyrisgreiðslur. Samningurinn gildir út árið 2018 og er þar með tryggt að friður verði á almennum vinnumarkaði næstu þrjú árin.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, sagði í frétt í Morgunblaðinu í gær að samningnum fylgdu launahækkanir langt umfram það svigrúm, sem fyrirtækin hefðu, og kvaðst óttast aukna verðbólgu. Til mótvægis kemur að ríkisstjórnin hefur lofað að tryggingagjald verði lækkað á samningstímanum. Það mun draga úr launakostnaði fyrirtækja.

Forusta SA hlýtur hins vegar að hafa metið það svo að launahækkanirnar væru þess virði vegna þess hvað samið væri til langs tíma. Það er rétt mat.

Nokkur hætta var fólgin í samningunum, sem gerðir voru í fyrra. Þeir hafa þó ekki leitt til þess að verðbólga hafi farið úr böndum. Ástæðan er hins vegar ekki sú að hrakspár um hættu á verðbólgu hafi verið úr lausu lofti gripnar. Hættan var raunveruleg og er það enn. Aðstæður hafa hins vegar skipað því svo að launahækkanir síðasta árs hafa skilað sér í veskið hjá launafólki og vonandi munu hækkanirnar, sem hið nýja samkomulag felur í sér gera það einnig. Ástæðan er hins vegar ekki stjórnkænska og framsýni, heldur lukka. Þróun efnahagsmála í heiminum og lækkun á ýmsum nauðsynjum, sérstaklega olíu, hefur vegið upp á móti þensluáhrifum samninganna. Hjöðnun í útlöndum slær á þensluna heima fyrir. Fyrir vikið er verðbólga með minnsta móti, en það er ekki gefið að alltaf verði slíkar kjöraðstæður.

Það er ánægjulegt að ríkisstjórnin ætlar nú að lækka tryggingagjaldið. Gjaldið var á sínum tíma hækkað vegna aukins atvinnuleysis í kjölfar þess að bankarnir hrundu. Nú er allt önnur staða á vinnumarkaði og atvinnuleysi hverfandi. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í Morgunblaðinu í gær að lækkunin hefði verið rædd óformlega við forustu SA og næstu skref í þeim efnum yrðu kynnt áður en langt um liði.

Verkföll eru slæm og oft dugir að þau blasi við til að efnahagslífið hiksti. Það sást best í fyrravor þegar var sem horfur á verkföllum dræpu allt í dróma.

Ný vinnubrögð búa að baki hinu nýja samkomulagi. Forsendur eru annars vegar bókun samningsaðila um lífeyrisréttindi frá því í maí 2011 og hins vegar svokallað SALEK-samkomulag frá því í október í fyrra. Skammstöfunin SALEK stendur fyrir samstarf um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga. Öll stærstu heildarsamtökin á vinnumarkaði auk ríkisins og sveitarfélaganna eiga aðild að SALEK-hópnum, sem var fyrst kallaður saman árið 2013.

Ætlunin með þessu samstarfi var að koma í veg fyrir höfrungahlaup launahækkana yfir allan vinnumarkaðinn og koma honum út úr vítahring þar sem reglulega er þrýst á um miklar launahækkanir, sem leiða til verðbólgu, sem jafnharðan étur þær upp.

Fyrirmyndin er hið norræna vinnumarkaðslíkan þar sem forsendur á vinnumarkaði eru metnar út frá stöðu efnahagsmála og launahækkanir byggjast á hversu mikið fyrirtæki geti borið án þess að missa flug á grundvelli, sem aðilar beggja vegna borðs bera traust til.

Rætt var um að hin nýja leið yrði prófuð til reynslu í sex til tíu ár. Gerð yrði áætlun með tilteknum skuldbindingum og tilraunatíminn notaður til að feta sig áfram í nýju umhverfi. Það verður forvitnilegt að sjá hvert framhaldið verður og gangi þetta upp boðar það stakkaskipti í vinnumarkaðsmálum.