Skattar Það voru fjölmargir sem hlýddu á erindin á skattadegi Félags löggiltra endurskoðenda sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík í gær.
Skattar Það voru fjölmargir sem hlýddu á erindin á skattadegi Félags löggiltra endurskoðenda sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík í gær. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er ekki hægt að mismuna hluthöfum og borga til eigenda arð í tilteknum hluthafaflokki út á eitthvað sem er í grunninn vinnuframlag.

„Það er ekki hægt að mismuna hluthöfum og borga til eigenda arð í tilteknum hluthafaflokki út á eitthvað sem er í grunninn vinnuframlag. Þetta er niðurstaðan í nýlegu bindandi áliti ríkisskattstjóra,“ segir Friðgeir Sigurðsson, forstjóri PwC, en hann hélt erindi á skattadegi Félags löggiltra endurskoðenda á Grand Hóteli Reykjavík í gær. Í samtali við Friðgeir kemur fram að samkvæmt niðurstöðum úrskurðaraðila, hvort sem það hafa verið dómstólar eða yfirskattanefnd, hafi verið tekin af öll tvímæli varðandi hin ýmsu form af úttektum úr félögum sem uppfylla ekki formleg skilyrði hlutafélagalaganna um hvernig hluthöfum er heimilt að taka fjármuni út úr félögum. „Allt sem á einhvern máta uppfyllir ekki stífustu formskilyrði fyrir að vera arður eða lækkun hlutafjár er í raun flokkað sem ólögmæt útlutun og skattlagt fullum fetum hjá hluthöfunum.“

Hann segir að þetta bindandi álit ríkisskattstjóra taki af öll tvímæli varðandi það álitaefni hvort félögum sé heimilt að ráðstafa tilteknum hluta af hagnaði fyrirtækisins til eigenda í ákveðnum hlutaflokki og mismuna hluthöfum þannig að þeir fái ekki jafnmikið greitt miðað við eignarhlut heldur séu aðrir þættir lagðir til grundvallar. „Þarna er um að ræða félög sérfræðinga, eins og lögmanna, endurskoðenda, verkfræðinga, og fleiri fyrirtæki þar sem hluthafar eru starfandi hjá viðkomandi fyrirtæki. Þá hafa einhver fjármálafyrirtæki líka verið að skoða álíka fyrirkomulag, jafnvel þannig að sérstakur hlutaflokkur sé fyrir einstök svið eða deildir og arður í þeim flokki ráðist af hagnaði viðkomandi sviðs eða deildar.“

Friðgeir segir að um afdráttarlausa afstöðu ríkisskattstjóra sé að ræða. „Það er litið á þetta sem eitt form til að umbuna mönnum fyrir störf fyrir félagið og þar með er það ekki tengt eignarhlutanum heldur er það fyrir vinnuframlag sem beri að skattleggja sem laun. Þetta snýst í raun um hvenær arður er arður og í þessu áliti er þessu svarað á afdráttarlausari máta en áður hefur verið gert af hálfu skattyfirvalda.“

Friðgeir segir úrskurðinn geta haft mikil áhrif á mörg sérfræðingafyrirtæki. „Menn telja sig vita að það séu mjög mörg fyrirtæki þar sem eru sérfræðingar að störfum þar sem þetta fyrirkomulag er á einhvern máta við lýði. Þar sem allir eru jafnir að einhverju marki en síðan er verið að umbuna mönnum í gegnum eignarhlut. Ég veit ekki í hve miklum mæli, en það er nokkuð um þetta. Eflaust eru nokkuð margir sem þurfa að endurskoða þá framkvæmd hjá sér í ljósi þessa bindandi álits,“ segir Friðgeir. margret@mbl.is