Nanna Lára Ólafsdóttir fæddist 15. mars 1934. Hún lést 30. desember 2015.

Útför Nönnu Láru fór fram 9. janúar 2016.

Elsku amma mín, ég trúi því varla að þessi stund sé runnin upp, finnst svo sárt að geta ekki fengið að kveðja þig í síðasta skiptið og gefið þér koss á ennið þitt. En þar sem yngsti langömmustrákurinn þinn ætlar heldur betur að bíða með að koma í heiminn veit ég að þú fyrirgefur mér.

Ég á svo óendanlega margar ljúfar og góðar minningar úr Garðsbrúninni, af þér og afa. Það að fá að eyða miklum hluta af uppvaxtarárum mínum hjá ykkur er ómetanlegt. Þú og afi voruð svo mikill hluti af mér, þið voruð stoð mín og stytta þegar á þurfti að halda.

Knús, kossar, huggun, gleði, hlátur, hughreysting, styrkur, ást og umhyggja eru orð sem einkenndu þig, elsku amma mín, þú varst alltaf svo hjartahlý og góð.

Eftir að ég flutti norður urðum við að láta símtöl, löng símtöl, stytta okkur stundirnar og biðina þangað til við myndum hittast aftur. Þessi símtöl gátu verið á öllum tímum sólarhringsins, innihéldu sorg eða gleði, eða þá að mig langaði bara einfaldlega til að segja þér hvað mér þótti vænt um þig og saknaði þín mikið. Þú hafðir alltaf tíma fyrir litlu“ stelpuna þína, sama þótt hún hringdi í þig um hánótt og vekti þig.

Árið sem ég komst að því að alzheimersjúkdómurinn væri að hreiðra um sig í kroppnum þínum tók mjög á mig, þú talaðir nefnilega um það þegar ég var yngri að þetta væri sjúkdómur sem þú óskaðir svo heitt að þú myndir aldrei fá, þú fannst svo til með fólkinu sem þurfti að berjast við hann. Mér finnst svo ósanngjarnt að það sé ekki hægt að virða svona ósk!

Það að fylgjast með þér veikjast og missa minnið hægt og rólega var mjög erfitt. Ég reyndi að vera duglegri að hringja í þig og spjalla um allt á milli himins og jarðar, en svo varð það alltaf erfiðara og erfiðara. Eftir að þú fórst inn á hjúkrunarheimilið hættu símtölin okkar alveg, nema í örfá skipti. Þá fengum við að sjá hvor aðra í gegnum internetið, sem gladdi litla hjartað mitt mjög. Það sem gleður mig líka mjög mikið er að þú fékkst að hitta langömmustrákinn þinn, hann Bjartmar Darra, nokkrum sinnum. Það sem þú varst skotin í honum, það bræddi mig alveg. Þú gast varla slitið af honum augun og vildir alltaf fá að kúldrast í honum, þér fannst hann svo sætur. En þó svo að þú hafir verið hætt að þekkja mig, amma mín, og þekktir hvorki Villa né Bjartmar Darra skiptu þessar stundir sem við áttum saman mig miklu máli. Ég og strákarnir mínir fengum að eyða jólunum og áramótunum 2014 með þér og fjölskyldunni okkar heima á Hornafirði og það er tími sem ég er óendanlega þakklát fyrir.

Elsku gullið mitt, ég gæti skrifað heila bók um allar yndislegu stundirnar sem við áttum saman en ætli ég verði ekki að láta þetta duga í bili.

Í lokin langar mig að biðja þig um að smella kossi og knúsi á hann afa þar sem þú ert nú komin í fangið hans.

Sofðu rótt engillinn minn, ég elska þig.

Saknaðarkveðja,

Nanna Þórey og fjölskylda.