Laufey Rún Ketilsdóttir laufey@mbl.is Heilsumiðstöðin/Sinnum, sem rekur Sjúkrahótelið í Ármúla, hefur sagt upp samningi sínum við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) um gistingu og hótelþjónustu.

Laufey Rún Ketilsdóttir

laufey@mbl.is

Heilsumiðstöðin/Sinnum, sem rekur Sjúkrahótelið í Ármúla, hefur sagt upp samningi sínum við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) um gistingu og hótelþjónustu. Uppsagnafresturinn er þrír mánuðir og því verður dyrum hótelsins lokað 1. maí.

Í uppsagnarbréfi sem Heilsumiðstöðin sendi Steingrími Ara Arasyni, forstjóra Sjúkratrygginga Íslands, í gær kemur fram að það hryggi forsvarsmenn að starfsemin hafi orðið að bitbeini á milli opinberra aðila.

Ekki í þágu sjúklinganna

Vonast sé til að SÍ og Landspítalinn í samvinnu við velferðarráðuneyti finni lausnir til lengri tíma sem skapi sátt og gagnist sem best þeim mikla fjölda einstaklinga sem á þessari þjónustu þurfa að halda.

„Maður er auðvitað sleginn yfir þessu og sannarlega er þetta ekki niðurstaða sem er í þágu sjúklinganna eða sjúkratryggðra en um leið kemur þetta ekki á óvart miðað við það sem á undan er gengið,“ segir Steingrímur Ari um uppsögn samningsins en hann sé ríkinu afar hagstæður. „Ef tryggja á sambærilega þjónustu í ljósi þeirrar stöðu sem nú er uppi þá verður það væntanlega ekki gert nema með hækkun fjárveitingar,“ segir hann.

Skiptar skoðanir eru á eðli og hlutverki Sjúkrahótelsins sem nú starfar eftir samningi við SÍ en þar er starfsemin skilgreind. Kveður samningurinn á um hótelgistingu og fullt fæði fyrir einstaklinga sem færir eru um athafnir daglegs lífs.

Landspítalinn, sem ber ábyrgð á rekstri hjúkrunarþjónustu á Sjúkrahótelinu samkvæmt samningi við SÍ, gerir hins vegar aðrar kröfur. Hann vill að þar geti gist einstaklingar sem þurfi langtum meiri þjónustu en gert er ráð fyrir að veitt sé á Sjúkrahótelinu.

„Mér þótti það ómaklegt“

„Samkvæmt samningi á ekki að vísa einstaklingum á hótelið nema þeir séu færir um athafnir daglegs lífs en það er eitt af því sem komið hefur upp vegna erfiðleika í rekstri spítalans. Sjúklingar hafa verið sendir á hótelið sem ekki hafa átt þangað erindi og ekki eru færir um athafnir daglegs lífs,“ segir Steingrímur Ari jafnframt.

Stjórnendur Landspítalans hafa ítrekað komið fram í fjölmiðlum og gagnrýnt Sjúkrahótelið fyrir að veita ekki þá þjónustu sem spítalinn hefur væntingar um. „En er í raun allt annað en okkur hefur verið ætlað að sinna samkvæmt samningum,“ segir í uppsagnarbréfinu.

Steingrímur Ari segir að ekki hafi farið á milli mála að ágreiningur um útfærsluna á þjónustunni bitnaði á rekstraraðila hótelsins. „Mér þótti það ómaklegt.“

Stefnumörkun ríkisins óbreytt

„Það eru okkur mikil vonbrigði að ekki hafi tekist að finna betri samstarfsflöt með Landspítalanum, sem er sú stofnun sem einna mikilvægast er að við stígum í takti við,“ segir í uppsagnabréfinu en meiðandi yfirlýsingar spítalans í fjölmiðlum um öryggi og aðbúnað gesta hafa ítrekað komið forsvarsmönnum Heilsumiðstöðvarinnar í opna skjöldu. „Óhjákvæmilega grafa þær undan þeirri þjónustu sem Sjúkrahótelinu er ætlað að veita.“

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði málið koma á óvart. „Þetta er eitthvað sem ráðuneytið þarf að fara yfir með Landspítalanum og Sjúkratryggingum Íslands.“ Stefnumörkun ríkisstjórnarinnar sé sú að sjúklingum sé tryggður aðgangur að þjónustu sem þessari og það hafi ekki breyst.

Ekki náðist í forsvarsmenn Landspítalans við vinnslu fréttarinnar.