Parið á Patró Áróra og Henrik.
Parið á Patró Áróra og Henrik.
Henrik Danielsen, stórmeistari í skák, er fimmtugur í dag. Hann er frá eyjunni Falster sem er fyrir sunnan Sjáland í Danmörku, en gerðist íslenskur ríkisborgari árið 2005. Henrik varð Íslandsmeistari árið 2009 og hefur margoft teflt fyrir Íslands hönd.

Henrik Danielsen, stórmeistari í skák, er fimmtugur í dag. Hann er frá eyjunni Falster sem er fyrir sunnan Sjáland í Danmörku, en gerðist íslenskur ríkisborgari árið 2005. Henrik varð Íslandsmeistari árið 2009 og hefur margoft teflt fyrir Íslands hönd.

Henrik hefur lengi búið á Patreksfirði. „Ég elska náttúruna og finnst gott að búa á friðsælum stað. Ég veit að mörgum finnst sérstakt að ég eigi heima hér og einangrandi en þetta er lítið mál þegar maður er með tölvu. Ég hef búið í Kaupmannahöfn og fleiri borgum og er búinn að fá nóg af því. Sem skákmaður ferðast ég líka oft og kemst því í stórborgarlífið alltaf öðru hverju, svo ég er ekki að missa af neinu.“

Næsta mót framundan hjá Henrik er Opna Reykjavíkurskákmótið og svo fékk hann boð um að keppa í Danmörku á Copenhagen Chess Challenge. Hann stefnir einnig á að keppa á heimsmeistaramóti 50 ára og eldri.

Henrik er trúlofaður Áróru Hrönn Skúladóttur, grunnskólakennara á Patreksfirði. „Sonur hennar, Hilmir Freyr Heimisson, 14 ára, er mjög efnilegur skákmaður. Svo á ég dóttur sem heitir Pernille og er nemi í sjúkraþjálfun í Óðinsvéum.“

Henrik hefur skrifað margt um skák og einnig gefið út myndbönd. „Ég er að klára mína aðra bók um Polar Bear System sem er byrjanakerfi sem ég hef verið að þróa og er orðið vinsælt, sérstaklega í Bandaríkjunum. Bókin er rafræn og verður fáanleg á Amazon og á Forward Chess og kostnaðurinn er því ekki mikill fyrir kaupendur. Hægt er að fylgjast með á www.polarbearsystem.com. Svo kenni ég skák hér í hverri viku og á næstunni er skákkeppni milli nemenda í Tálknafjarðarskóla og Patreksskóla í tengslum við íslenska skákdaginn sem er haldinn 26. janúar ár hvert til heiðurs Friðriki Ólafssyni. Fyrir utan skákina fylgist ég mikið með fréttum, ástandinu í Mið-Austurlöndum og reyni að kafa dýpra á netinu en það sem við fáum í hefðbundnum fjölmiðlum. Ég er mikill náttúruunnandi eins og áður sagði og vann t.d. sem leiðsögumaður þegar ég bjó í Danmörku.

Í tilefni afmælisins ætlum við að elda okkur góðan mat og fá okkur dýrindis vín. Vinir mínir, fjölskylda, dóttir og hinir fóstursynir mínir verða ekki hjá okkur en ég verð í sambandi við þau á Skype.“