Áfengisfrumvarpið svokallaða er enn og aftur í umræðunni.

Áfengisfrumvarpið svokallaða er enn og aftur í umræðunni. Nýjustu innleggin komu frá Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, ritara Sjálfstæðisflokksins, sem sagði í viðtali á FM957 að um væri að ræða svo sjálfsagða „framför“ að málið ætti ekki einu sinni að vera til umræðu í þinginu, og Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, sem hafði það eftir ónefndum þingmanni Sjálfstæðisflokksins að frumvarpið væri hugarfóstur Haga, ekki Vilhjálms Árnasonar.

Það má segja margt um bæði innlegg. Umræðurnar í Brennslu-þætti FM957 voru með ólíkindum, þar sem þáttastjórnendur og ritari Sjálfstæðisflokksins hentu gaman að afturhaldssömum „kommum“ og ritarinn ákvað fyrirfram að allir þeir sem greiddu atkvæði á móti frumvarpinu væru „enn í Ríkisútvarpinu og svarthvíta sjónvarpinu“, hvað svo sem það nú þýðir. Og þegar mbl.is spurði fyrrnefndan Vilhjálm um mögulega skaðsemi áfengissölu í matvöruverslunum í kjölfar ummæla Kára svaraði frumvarpshöfundurinn m.a.: „Fara alkóhólistar ekki í IKEA með konunni um jólin eða þangað þar sem auglýstur er jólabjór á öllum borðum?“

Þessi viðbrögð þingmannsins eru dæmigerð fyrir málatilbúnað þeirra sem hafa barist hvað harðast fyrir því að geta keypt sér hvítvín og bjór í næstu matvöruverslun. Þeim finnst málið svo sjálfsagt, eins og kom bersýnilega í ljós í spjallinu á FM957, að annað skiptir ekki máli.

Staðreynd málsins er hins vegar sú að það er fátt sem mælir með því að ráðist verði í breytingar á núverandi fyrirkomulagi. Í fyrsta lagi er eftirspurnin eftir breytingum takmörkuð. „Áfengið í verslanir“ var ekki kosningamál og kannanir benda raunar til þess að meirihluti þjóðarinnar sé málinu mótfallinn. Í greinargerð með frumvarpinu var að finna eintómar getgátur um áhrif breytinganna en engin haldbær rök eða vísanir í rannsóknir. Umsagnir um málið skiptust í tvennt; fagnaðaróm verslunarinnar og viðvörunarbjöllur aðila í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Þeir fyrrnefndu vísa til þess að ríkið eigi ekki að standa í verslunarrekstri, eins og það sé óumdeildur sannleikur, en þeir síðarnefndu til rannsókna sem hafa m.a. sýnt að verðlagning hefur meiri áhrif á áfengisneyslu en forvarnir.

Hvað svo sem segja má um málið sem slíkt hljótum við að gera meiri kröfur um málsmeðferðina. Það verður að skipta máli að aðilar í heilbrigðis- og velferðarþjónustu vara við þeim breytingum sem lagðar eru til. Til hvers er annars verið að kalla eftir umsögnum? Á að afgreiða þá sem afturhaldsseggi; rannsóknirnar sem áróður gegn frjálslyndi? Það er í raun dálítið óhugnanlegt að fylgjast með því hvernig unga fólkið í framvarðarsveit Sjálfstæðisflokksins virðist vilja afgreiða málið; með því að „hætta þessu helvítis málþófi“ eins og ritarinn orðaði það, og láta það „fljúga í gegn“. Engin umræða, klappað og klárt. holmfridur@mbl.is

Hólmfríður Gísladóttir

Höf.: Hólmfríður Gísladóttir