Þórólfur Guðnason
Þórólfur Guðnason
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir svínaflensuna vera orðna fastan lið á flensudagatalinu. Frá því hún kom upp árið 2009 hafi hún komið upp árlega og svo verði einnig í ár.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir svínaflensuna vera orðna fastan lið á flensudagatalinu. Frá því hún kom upp árið 2009 hafi hún komið upp árlega og svo verði einnig í ár.

Fyrr í vikunni var staðfest að fjórir hefðu veikst af svínaflensu í Álasundi í Noregi og liggja þeir nú í einangrun á sjúkrahúsinu í bænum. Í frétt norska ríkissjónvarpsins, NRK, kom fram að grunur léki á að tveir hefðu veikst til viðbótar.

Svínaflensan, A(H1N1), skaut upp kollinum fyrri hluta ársins 2009. Hún breiddist hratt út meðal fólks, um fjórum sinnum hraðar en aðrar veirusýkingar, og var henni m.a. líkt við spænsku veikina. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO óttaðist að hún yrði að heimsfaraldri og á annað hundrað þúsund Íslendingar létu bólusetja sig gegn flensunni. Sumarið 2009 var hún komin á það stig að kallast faraldur, að sögn Haraldar Briem, þáverandi sóttvarnalæknis.

„Þessi tegund inflúensu fékk nafnið svínaflensa árið 2009, þegar hún var nýr stofn af inflúensuveirunni. Þegar nýr heimsfaraldur af inflúensu kemur upp heldur sá stofn áfram sem árleg inflúensa, með örlitlum breytingum í hvert skipti,“ segir Þórólfur. Hann segir rangnefni að tala sérstaklega um svínainflúensu, sú skilgreining sé nú lítið notuð í heilbrigðiskerfinu. Nær væri að tala einfaldlega um inflúensu, því svínaflensan sé núna hin árlega inflúensa.

Inflúensan fer hægt af stað

Inflúensan fer hægt af stað í ár og það sem af er ári hefur verið lítið um klínískar inflúensugreiningar.

Það sem af er ári hefur einn verið lagður inn á Landspítalann vegna inflúensu og átta einstaklingar hafa greinst með inflúensu, þar af sjö með A(H1N1) og einn með inflúensu af B-stofni.

Þá hafa níu greinst með RSV-vírusinn og fjórir með hMPV sem er skammstöfun fyrir Human metapneumoveiru. Bæði RSV og hMPV geta valdið alvarlegum öndunarfæraeinkennum samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Embættis landlæknis.