Reykholt á miðöldum Tilgátuteikning Godds er byggð á fornleifarannsóknum í Reykholti og myndum af norskum miðaldahúsum.
Reykholt á miðöldum Tilgátuteikning Godds er byggð á fornleifarannsóknum í Reykholti og myndum af norskum miðaldahúsum. — Teikning/Guðmundur Oddur Magnússon
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Hugmynd er uppi um að reisa eftirmynd af höfðingjasetri frá miðöldum í landi Helgafells í Mosfellsbæ, við gatnamót Vesturlandsvegar og Þingvallavegar.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Hugmynd er uppi um að reisa eftirmynd af höfðingjasetri frá miðöldum í landi Helgafells í Mosfellsbæ, við gatnamót Vesturlandsvegar og Þingvallavegar. Halldór Þorgeirsson og Úlfur Hróbjartsson hafa óskað eftir leyfi bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ til að hafa slíka starfsemi á staðnum. Bæjarráð fól bæjarstjóra að ræða málið við Halldór og Úlf.

Í erindi þeirra félaga kemur fram að ætlunin sé að reisa skála, kirkju, smiðju og ritstofu eins og þau kunna að hafa verið við upphaf ritaldar 1130. „Í húsunum verður lifandi sýning, þar sem handverksmenn sýna handverk sitt og lifandi leiðsögn leiðir fólk um svæðið. Á þennan hátt fá gestir innsýn í heim íslenskra miðalda, verklag, lifnaðarhætti og menningu.“

Ætlunin er að höfðingjasetrið verði viðkomustaður jafnt erlendra ferðamanna og Íslendinga, að sögn Halldórs. Hann segir reiknað með því að um 800.000 manns, ef ekki fleiri, fari til Þingvalla á þessu ári. Búið er að semja viðskiptaáætlun.

„Ef bærinn leyfir þetta þá er ég ekki í nokkrum vafa um að það verður auðvelt að fjármagna þetta,“ sagði Halldór. Beðið verður eftir leyfi bæjaryfirvalda áður en fleiri skref verða stigin.

Liðin eru 22 ár síðan hugmyndin skaut fyrst upp kollinum. Þá var Halldór virkur í bæjarpólitíkinni í Mosfellsbæ. Hann sagði að þá hefði verið rætt um að gera eitthvað á Mosfelli. Síðan hefðu verið gerðar miklar fornleifarannsóknir í Mosfellsdal. Þær sýna, svo ekki verður um villst, að Mosfell var stórbýli á sínum tíma. Bærinn stóð þá vestar, þar sem nú er Hrísbrú. Aðrar jarðir í dalnum voru yfirleitt útjarðir Mosfells og höfðu hver sinn tilgang í því skyni að styrkja höfðingjasetrið.

Halldór segir að byggingar á höfðingjasetrum hafi verið nokkuð stórar á miðöldum. Húsakostur í Reykholti hafi t.d. verið feiknalega stór á þessum tíma.

„Þetta er gullöld Íslendinga. Þeir eru hættir að vera landnámsmenn. Þeir sem hafa haft efni á að láta skrifa eiga stórar jarðir,“ sagði Halldór. Höfðingjasetrið verður tileinkað íslensku ritmáli.

„Við ætlum að hafa ritmálið í hávegum og reyna að draga upp eins lifandi mynd af því og hægt er. Fáir átta sig á því að við setjum hér saman skrifmál upp úr 1100. Ég held að við höfum náð ákveðnum toppi með málfræðiritgerðunum.“