Stefán Jón Sigurðsson fæddist að Litla-Hvammi í Mýrdal 16. júní 1927. Hann andaðist 5. janúar 2016.

Stefán var sonur hjónanna Sigurðar Bjarna Gunnarssonar, f. 10.6. 1896, d. 6.11. 1973, og Ástríðar Stefánsdóttur, f. 14.10. 1903, d. 30.3. 1989. Systkini Stefáns eru Gunnar, f. 1924, d. 1992, Helga, f. 1926, og Sigþór, fæddur 1928. Stefán var ókvæntur og barnlaus.

Útför Stefáns fer fram frá Skeiðflatarkirkju í dag, 23. janúar 2016, og hefst athöfnin klukkan 14.

Þegar ég leystur verð þrautunum frá,

þegar ég sólfagra landinu á

lifi og verð mínum lausnara hjá

það verður dásamleg dýrð handa mér.

(Þýð. Lárus Halldórsson)

Einhverra hluta vegna kom þessi texti til hugar þegar hringt var að morgni dags og tilkynnt um andlát Stebba frænda.

Löngu stríði veikinda og heilsuleysis var lokið. Byrði sem hann bar af eftirtektarverðu æðruleysi og jafnaðargeði alla tíð.

Til að byrja með vorum við nálægt hvort öðru, verandi á sama hlaðinu í okkar uppvexti, hann var reyndar um árabil „af bæ“ eins og sagt var, m.a. í vegavinnu hjá Brandi móðurbróður sínum.

Lengst af ævi sinni var hann þó heima í Litla-Hvammi og stundaði bústörfin eins og hann hafði heilsu til þar til hann gerðist vistmaður á Hjallatúni, þar sem hann dvaldi rúma tvo síðustu áratugi ævinnar.

Stebbi hafði með eindæmum gott minni, var afar bókhneigður og var sílesandi. Víst er að hann hafi fengið meira út úr þeirri iðju en margur, þar sem hann virtist muna allt sem hann las og reyndar var nánast sama hvaða viðburðir komu til tals, hann skyldi í flestum tilfellum muna nákvæmar dagsetningar og jafnvel hvernig viðraði þann daginn.

Stebbi átti alla tíð frekar erfitt með að tjá sig, sem var hin mesta synd. Hann hafði nefnilega meira fram að færa en alltaf komst til skila; var mikill húmoristi og sá gjarnan spaugilegar hliðar á samferðamönnum og sveitungum og hafði gaman af.

Það var þó eitt sem einkenndi persónuleika hans; jafnaðargeð og létt lund. Þegar við krakkarnir vorum að alast upp var nú ekki alltaf farið eftir þeim reglum sem settar höfðu verið. Nokkrum sinnum greip Stebbi okkur glóðvolg þegar við vorum að brasa við eitthvað sem gat skaðað okkur, en þá hrópaði hann upp: „Stendur ekki til, stendur ekki til“. Þetta voru einu skiptin sem við sáum hann skipta skapi í yfir fimmtíu ár.

Hann átti ekki í sínum orðaforða neikvæðari orð til að kasta á nokkurn mann.

Við systkinin vorum eins og tvíburar, eyddum öllum dögum saman, og því var það mikið reiðarslag þegar Guðmundur hóf sína skólagöngu og eftir sat litla systirin því hún kunni ekki að lesa.

Alls staðar var sama svarið, „það kemur að þér“, nema hjá Stebba. Eftir að hafa hlustað lengi vel á suð og fortölur féllst hann á að kenna stúlkunni lestur,en bara þrjá stafi á dag, og tók jafnframt fram að heiti þeirra yrði einungis sagt einu sinni.

Það kom fljótt í ljós að hann meinti það sem hann sagði og stóð við orð sín. Því var eins gott að taka hlutina alvarlega ef kennsla átti ekki að falla niður.

Þrír stafir og svo var nemandinn rekin út að leika, þvílíkur harðstjóri. Það hafði átt að læra að lesa á núll einni, en honum varð ekki haggað. Þessu námi var haldið leyndu fyrir öðrum þar til að einn daginn mætir stúlkan til foreldra sinna og er þá orðin fluglæs öllum að óvörum. Kennsluhæfileikar Stebba fóru ekki á milli mála því hún gat meira að segja lesið á hvolfi.

Við erum ríkari að hafa haft þig með í lífshlaupinu okkar og minnumst þín með vinsemd og virðingu, kæri frændi.

Hvíl í friði.

Guðmundur Sigþórsson,

Ástríður Sigþórsdóttir.

Stebbi frændi, eða Stefán Jón Sigurðsson eins og hann hét fullu nafni, hefur nú kvatt þennan heim. Mig langar að minnast hans með örfáum orðum.

Við Stebbi vorum systrabörn og bæði alin upp hjá móðurforeldrum okkar, Steinunni Helgu Árnadóttur og Stefáni Hannessyni í Litla-Hvammi. Þegar ég flutti að Litla-Hvammi tveggja ára gömul var Stebbi orðinn fullorðinn maður og ég man því aðeins eftir honum sem slíkum. Það fór aldrei mikið fyrir þessum frænda mínum. Hann var bara einn af okkur á heimilinu, vann sín störf og lét sjaldan í ljós hvers hann óskaði eða hvað hann vildi. Hann átti oft við vanheilsu að stríða en mér vitanlega kvartaði hann ekki og þrátt fyrir veikindin skilaði hann drjúgu ævistarfi til heimilisins.

Stebbi var flinkur teiknari og ég man eftir honum töfra fram fallegar blýantsteikningar á sínum yngri árum. Ég minnti hann á þetta eitt sinn og hvatti hann til þess að byrja aftur að teikna, en hann vildi þá sem minnst gera úr þessum hæfileikum sínum og ekkert um þá tala.

Það kom ekki á óvart, svo lítillátur sem hann var. En áhugamálið sem entist Stebba alla ævina var lestur góðra bóka og þar var þjóðlegur fróðleikur ofarlega á blaði.

Því miður kom sjúkdómurinn sem Stebbi glímdi við síðustu árin í veg fyrir að hann gæti lesið. Segulbandstækið hans kom þá í góðar þarfir og í stað þess að lesa hlustaði hann nú. Og hann mundi allt. Allt sem hann las, heyrði og lifði, og var þess virði að muna, mundi hann og á meðan hann gat tjáð sig með orðum var oft gaman og fróðlegt að spjalla við hann. Ég bið honum Guðs blessunar.

Jóna Sigríður Jónsdóttir.

Frændi minn og vinur, Stefán Jón Sigurðsson frá Litla-Hvammi, er fallinn frá. Allt til æviloka hélt hann andlegu atgervi sínu þótt líkaminn hafi gefið sig og haldið honum að síðustu föngnum.

Við Stebbi, eins og hann var jafnan kallaður, erum systrabörn, fædd og uppalin í Mýrdalnum en kynntumst þó ekki fyrir alvöru fyrr en seint á ævinni.

Á yngri árum sinnti Stebbi öllum helstu sveitastörfum á heimaslóðum sínum. Hann var hljóðlátur einfari og fáskiptinn og gerði engar kröfur fyrir sjálfan sig. Hann var alla tíð afar fróðleiksfús og mikill lestrarhestur einkum á margvíslegan þjóðlegan fróðleik.

Hjá Stebba fór saman greind, þekkingarleit og óbrigðult minni. Ef Stebbi væri ungur maður í dag legði hann líkast til stund á nám í þjóðháttafræði eða sagnfræði. Bóklestur var því mikilvægur þáttur í lífi Stebba.

Þar átti hann líka sína innri tilveru sem hefur án efa verið honum dýrmætari fyrir þá sök að félagslega stóð hann höllum fæti.

Á árum áður fórum við Stebbi stundum í stuttar bílferðir um Mýrdalinn.

Ég sé hann fyrir mér uppi á Dyrhólaey taka upp kíkinn, horfa út í fjarskann og segja mér nöfnin á hálsum og heiðum sem fyrir augu bar enda mun betur að sér en ég um alla staðhætti.

Þegar heilsunni hrakaði og Stebbi var hættur að treysta sér í bílferðir ferðuðumst við saman í hugarheimum.

Þá sátum við í næði á herberginu hans í Hjallatúni, ósnortin af tíma og rúmi og sóttum í minningasjóðinn frá Litla-Hvammi og Hvammbóli.

Í sameiningu kölluðum við fram löngu liðin atvik og minningar af fólki og atburðum. Vegna aldursmunar hafði Stebbi áratuga forskot á mig og sagði mér því stundum frá atvikum innan fjölskyldu okkar sem voru mér áður ókunn og þá var nú hátíð í bæ.

Síðustu árin voru Stebba oft erfið vegna vaxandi heilsubrests.

Hann hefur því án efa orðið hvíldinni feginn. Ég kveð Stebba frænda minn með söknuði og þakklæti og votta hans nánustu samúð mína.

Steinunn Helga.