Guðrún Sveinbjörnsdóttir fæddist í Hnausum í Þingi í Sveinsstaðahreppi hinum forna (Húnavatnshreppi) í Austur-Húnavatnssýslu 5. nóvember 1917. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Hömrum í Mosfellsbæ 7. janúar 2016.

Foreldrar Guðrúnar voru Sveinbjörn Jakobsson bóndi í Hnausum, f. 20. október 1879, d. 24. október 1958, og Kristín Pálmadóttir húsfreyja í Hnausum, f. 10. apríl 1889, d. 31. mars 1985. Systkini Guðrúnar eru: Leifur, f. 1919, d. 2008, Jakob, f. 1921, d. 2002, Jórunn Sigríður (Stella), f. 1925, og Svava Sveinsína, f. 1931.

Guðrún giftist 4. september 1943 Dýrmundi Ólafssyni frá Stóru-Borg í Þverárhreppi hinum forna í Vestur-Húnavatnssýslu, f. 8. desember 1914, d. 13. september 2011. Foreldrar hans voru Ólafur Dýrmundsson, f. 24. nóvember 1889, d. 18. febrúar 1973, og Guðrún Sigurlaug Stefánsdóttir, f. 5. janúar 1887, d. 23. maí 1970. Þau bjuggu á Stóru-Borg, Sigríðarstöðum og víðar í Vestur-Húnavatnssýslu. Börn Guðrúnar og Dýrmundar eru: 1) Ólafur Rúnar, f. 1944, maki Svanfríður Sigurlaug Óskarsdóttir, f. 1944. Börn: Óskar Dýrmundur, f. 1966, Guðrún, f. 1968, Ólöf, f. 1981,Sigurrós Svava, f. 1983. Barnabörnin eru fimm. 2) Kristín Jórunn, f. 1945, maki Bjarni O.V. Þóroddsson, f. 1943. Börn: Þóroddur, f. 1970, Rúnar Dýrmundur, f. 1973, Freyr, f. 1977, Valur Oddgeir, f. 1986. Barnabörnin eru sjö. 3) Sveinbjörn Kristmundur, f. 1950, maki María Guðbrandsdóttir, f. 1951. Börn:Guðrún, f. 1971, Erla Helga, f. 1971, Svava Kristín, f. 1976, Sonja Lind, f. 1988. Barnabörnin eru þrettán. 4) Gylfi, f. 1956, maki Anna Sigríður Guðnadóttir, f. 1959. Börn: Guðni Kári, f. 1976, Ásdís Birna, f. 1993, Kristrún Halla, f. 1993, Gunnar Logi, f. 1996.

Guðrún ólst upp við sveitastörf frá unga aldri. Að loknu barnaskólanámi í Skólahúsinu á Sveinsstöðum, næsta bæ við Hnausa, naut hún leiðsagnar sr. Þorsteins B. Gíslasonar í Steinnesi við undirbúning fyrir nám í Menntaskólanum á Akureyri, þar sem hún lauk gagnfræðaprófi eftir tvo vetur vorið 1938. Vorið 1940 lauk hún prófum frá Hússtjórnardeild Kvennaskólans í Reykjavík. Áður en Guðrún giftist starfaði hún á Símstöðinni á Blönduósi frá 1938 og á Landssímanum í Reykjavík frá 1942. Þar vann hún með hléum til 1973, þegar hún vann við póstafgreiðslu hjá Pósti og síma í Reykjavík og Garðabæ, allt til 1986. Um 1960 vann hún um skeið við símavörslu á Raforkumálaskrifstofunni í Reykjavík.

Guðrún sinnti ýmsum félagsstörfum, einkum á sviðum menningar- og mannúðarmála, allt frá 1942. Sat hún í níu ár í stjórn Húnvetningafélagsins og 35 ár í byggðasafnsnefnd þess. Um árabil var hún í ritnefnd Húnvetnings og skrifaði mikið í ritið. Þá tók hún þátt í skógræktarstarfi í Þórdísarlundi í Vatnsdalshólum. Heiðursfélagi var hún í Húnvetningafélaginu frá 1983. Guðrún starfaði í Thorvaldsensfélaginu frá 1948, vann oft á Basarnum í Austurstræti og var sæmd gullmerki félagsins haustið 2000.

Hún verður jarðsungin frá Þingeyrakirkju í Þingi, Austur-Húnavatnssýslu, í dag, 23. janúar 2016, og hefst athöfnin klukkan 13.

Nær öld var liðin, tímar mikilla breytinga í þjóðlífinu, en Aralækur, Byrgishóll, Skíðastaðir og Tvífossar eru alltaf á sínum stað í Vatnsdalsfjalli, upp af Hnausatjörninni. Þangað leitaði hugur elskulegrar móður minnar æ meira eftir því sem árin liðu. Átthagarnir, sveitin fagra, áttu öruggan sess í sjóði minninganna. Mörgu gat ég deilt með mömmu vegna langdvala hjá ættingjunum í Hnausum á barns- og unglingsárum.

Að rifja upp minnisstæða atburði frá ýmsum tímum og kynni af góðu fólki, fyrr og síðar, var í senn ánægjulegt og gefandi og veitti styrk í dagsins önn. Kannski var það æskuminning um dagsferð á hestum með foreldrum mínum til að tína ber og fjallagrös í Svínadal, austan í Víðidalsfjalli, með viðkomu í Þingeyraseli, eða, rúmri hálfri öld síðar, ferð með mömmu á tíræðisaldri norður að Fossi í Vesturhópi til að sækja húsmuni og kveðja litla og hlýlega sumarhúsið.

Ætíð ræktaði móðir mín öll fjölskyldu- vina- og ættartengsl með prýði og viðhélt öðrum fremur samskiptum við ættingja í móðurætt sinni í Vesturheimi. Góð ættfræðiþekking hennar kom sér þá vel.

Móðir mín reyndist mér og fjölskyldu minni vel í alla staði og ömmu- og langömmubörnunum þótti mjög vænt um hana. Hún sýndi því áhuga sem þau voru að gera hverju sinni og sagði þeim gjarnan sögur frá æskuárunum fyrir norðan, t.d. þegar hún var send á Jarpsokka, 12 ára gömul, fram að Hvammi í Vatnsdal með skeyti frá símstöðinni í Hnausum. Líkt og faðir minn var hún afbragðs fyrirmynd; hugulsöm, hjálpsöm, reglusöm og iðin. Reyndar nutu margir góðs af umhyggju mömmu því að hún var þekkt fyrir að hlúa að fólki sem minna mátti sín í þjóðfélaginu. Sumir voru heimsóttir, aðrir komu heim og allir voru þeir aufúsugestir. Gestrisni var henni i blóð borin.

Mamma var mjög námsfús á yngri árum og hugurinn stóð þá til langskólanáms, einkum í íslensku, erlendum tungumálum og sögu, en efnin leyfðu það ekki. Mikil virðing hennar fyrir ýmiss konar námi og gildi menntunar hafði vissulega áhrif á mig allt frá barnæsku. Er ég henni ætíð þakklátur fyrir þá hvatningu og stuðning sem hún veitti mér öll skólaárin, innanlands sem utan. Það var vissulega stolt móðir sem fagnaði hverjum námsáfanga mínum og annarra afkomenda.

Minningin um móður mína verður mér ætíð kær og blessuð sé hún. Við kveðjum öll með söknuði.

Ólafur Rúnar Dýrmundsson.

Elsku mamma mín. Þá er komið að kveðjustund í hinsta sinn. Ég er svo þakklát fyrir að hafa verið hjá þér þegar þú kvaddir. Það eru algjör forréttindi að hafa verið svona lengi samferða í lífinu. Minningarnar streyma fram í hugann. Mamma mín, þú varst góð móðir og dugleg og hugsaðir vel um heimilið og börnin þín.

Mamma var lagleg kona, ungleg og ávallt snyrtileg og vel til höfð. Hún var reglusöm og trúuð kona og kenndi mér góðu gildin í lífinu.

Mamma var fædd og uppalin í fallegri sveit í stórum burstabæ. Þar var tvíbýli. Húsmóðirin á hinu búinu og Sveinbjörn afi voru frændsystkin. Á þessum tveim búum voru mörg börn og léku þau sér mikið saman. Mamma sagði mér oft hvað það hefði verið skemmtilegt að alast upp í svo stórum barnahópi. Henni þótti afar vænt um heimahagana og fjölskyldu sína og sagði mér oft sögur þaðan.

Mamma var námsfús og langaði að ganga menntaveginn. Hún náði góðu gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum á Akureyri og langaði að ljúka stúdentsprófi en foreldrar hennar gátu ekki aðstoðað hana við það.

Eftir skólagöngu fékk mamma vinnu á Blönduósi á póst- og símstöðinni þar. Hún vann þar við símavörslu í nokkur ár. Á þessum tíma voru breskir hermenn á Blönduósi. Það þurfti oft að afgreiða þá og kom það sér vel að mamma gat talað við þá ensku.

Seinna flutti hún til Reykjavíkur. Þar fékk hún strax vinnu hjá Landssímanum sem talsímakona og fannst skemmtilegt að vinna þar. Fljótlega kynntust þau pabbi. Þá var hann kominn til Reykjavíkur að norðan til að vinna fyrir sér. Hann var þá orðinn lögreglumaður. Þau byrjuðu fljótlega að búa þar.

Á sumrin fór mamma oft norður að Hnausum með okkur börnin. Pabbi kom oftast í heimsókn í sínu sumarfrí til okkar.

Eftir að ég varð 12 ára fór mamma að vinna fasta vinnu, en hafði í nokkur ár áður verið í afleysingum á sumrin. Fjölskyldan var þá nýflutt á Skeiðarvoginn í nýtt raðhús, þar sem við áttum lengst heima. Mamma og pabbi unnu bæði vaktavinnu og gátu því skipst á að vera heima.

Mamma var félagslynd kona. Hún var orðheppin og sagði skemmtilega frá. Hún starfaði í mörg ár í Húnvetningafélaginu og var þar í stjórn og nefndum. Einnig var hún í Thorvaldsensfélaginu og vann þar í búðinni af og til í mörg ár. Þar er unnið frábært starf og allt í þágu barna. Í þessum störfum naut mamma sín vel. Hún gat talað við erlendu ferðamennina sem komu í búðina.

Mamma var fróð og vel lesin. Ættfræði var eitt af hennar helstu áhugamálum. Hún hjálpaði mörgum að rekja ættir sínar. Einnig hafði hún áhuga á varðveislu gamalla muna, auk þess sem hún hafði áhuga á handavinnu, einkum krosssaumi. Hún var flink í matargerð. Oft var gestkvæmt á heimilinu, og ættingjar þeirra beggja komu og gistu hjá okkur. Mamma hafði alltaf áhuga á landafræði. Hún og pabbi fóru í nokkrar utanlandsferðir og einnig ferðuðust þau talsvert innanlands.

Elsku mamma mín. Ég vil að leiðarlokum þakka þér fyrir alla þína umhyggju við mig og fjölskyldu mína alla tíð. Ég sakna þín mikið.

Megi góður guð blessa þig og varðveita.

Þín dóttir,

Kristín Jórunn.

Er lít ég yfir liðin ár

mér ljóst í hjarta skín,

þú þerraðir, móðir, tregatár

og traust var höndin þín.

Þú gafst mér allt, sem áttir þú

af ástúð, von og trú.

Og því er nafn þitt, móðir mín,

í mínum huga nú.

Þú leiddir mig, sem lítið barn

og léttir hverja þraut.

Við blómskreytt tún og hrímhvítt hjarn

ég hjá þér ástar naut.

Nú þegar lífs þíns lokast brá

frá langri ævistund.

Er gott að hvílast Guði hjá

og ganga á Drottins fund.

(Einar Steinþórsson)

Elsku mamma, tengdamamma og amma. Það voru vissulega forréttindi að fá að eiga þig svo lengi að, liðlega 98 ár eru langt æviskeið. Minningin um þig verður okkur alltaf kær og við kveðjum þig með söknuði.

Megi góður Guð geyma þig og varðveita.

Sveinbjörn, María, Sonja Lind

og Svava Kristín.

Við andlát ástkærrar tengdamóður minnar koma mörg hjartnæm minningarbrot fram í hugann. Hún lagði mikla rækt við hlýlegt og myndarlegt heimili sitt, var höfðingi heim að sækja og einstaklega gestrisin. Hún var snillingur í matargerð og allt heimilið bar vott um mikla smekkvísi og snyrtimennsku. Tengdamamma var mjög ættfróð og spurði strax hvaðan ég kæmi. Hún nefndi oft langafa sinn, sr. Sveinbjörn Eyjólfsson, og langömmu, Guðrúnu Ólafsdóttur í Árnesi á Ströndum, sem hún hét eftir, en Guðrún var dóttir Vatnsenda-Rósu. Einnig var oft minnt á tengslin við Grundarættina.

Tengdamamma var líka frábær hannyrðakona og féll henni sjaldan verk úr hendi. Hún prjónaði ótal flíkur með fallegum mynstrum, og ýmsa muni skreytti hún með útsaum er prýða heimili afkomenda hennar. Ég kunni hins vegar hvorki að sauma út né elda mat en til að hækka í áliti hjá tengdamömmu bætti ég snarlega úr vankunnáttu minni og tókst loks með miklum erfiðismunum og þrautseigju að bródera í púða og klukkustreng. Svo keypti ég Matreiðslubók Helgu Sigurðardóttur, sem var nánast biblía allra húsmæðra hér áður fyrr og las ég þá bók spjaldanna á milli. Tengdamamma hafði örugglega ómældar áhyggjur af okkur Ólafi, fannst við of ung til að giftast, þetta væri alveg galið. Við værum bara börn, nýorðin stúdentar, og ættum ekki neitt. Ekki minnkuðu áhyggjurnar þegar fyrsta barnið fæddist og annað fljótlega í kjölfarið. Hún trúði á mátt bænarinnar og sagðist biðja fyrir okkur á hverju kvöldi. Til að bæta gráu ofan á svart fluttum við til Wales, þar sem Ólafur var við háskólanám í sex ár. Hún lét þetta þó ekki aftra sér í því að heimsækja okkur og flaug yfir hafið með Dýrmundi og gætti þess að hafa sláturkeppi, hangikjöt og harðfisk meðferðis. Hún sýndi mikla umhyggju, gat verið skemmtilega hreinskilin en alltaf þannig að því var tekið sem góðlátlegri ábendingu.

Tengdamamma var góðum gáfum gædd, bjó yfir margvíslegum fróðleik um liðna tíð í íslensku þjóðlífi og átti stóran þátt í að byggja upp Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum í Hrútafirði. Hún var óstöðvandi við að safna gömlum munum á safnið og fara með norður. Einnig skrifaði hún fjölda greina í ritið Húnvetning og tók virkan þátt í félagsstarfi Húnvetningafélagsins og var heiðursfélagi þess. Þá var hún virkur félagi í Thorvaldsensfélaginu og var sæmd gullmerki þess.

Síðustu árin hvarf tengdamamma mikið aftur í tímann og dvaldi þá hugur hennar í Hnausum í Þingi. Norður vildi hún komast sem allra fyrst. Þrátt fyrir vaxandi minnisglöp mundi hún enn nöfnin á öllum fjöllum, bæjum, ám og vötnum í Þingi og Vatnsdal. Hún lýsti því hvernig hún vakti yfir túninu á vornóttum með vinkonu sinni. Ég sé hana fyrir mér, gullfallega, tígulega stúlku með sítt glóbjart hárið fallega fléttað. Hún situr á litlum hól við Hnausatjörn, horfir á Jörundarfellið á Vatnsdalsfjalli, með nestisboxið sitt fullt af bakkelsi sem mamma hennar hefur bakað. Hún er dálítið alvörugefin en glöð í bragði og með vökul og greindarleg augu. Nú er hún komin heim.

Svanfríður S. Óskarsdóttir.

Ég kynntist henni Guðrúnu, Nunnu tengdamóður minni, fyrst þegar við Kristín konan mín fórum að draga okkur saman. Ég var þá í námi í Reykjavík, á öðru ári í Tækniskólanum. Við Kristín bjuggum svo í þrjú ár í kjallaranum hjá þeim tengdaforeldrum mínum í Skeiðarvogi 81 í góðu yfirlæti.

Nunna tók mér strax vel. Það var alltaf gaman að koma til hennar og þiggja veitingar og spjalla um sameiginleg áhugamál. Eftir að við fluttum upp á Akranes gistum við alltaf hjá þeim þegar við komum í bæinn og þurftum að gista. Ævinlega var vel tekið á móti okkur.

Tengdamóður minni þótti afar vænt um sveitina sína og hugur hennar var oft fyrir norðan, þar sem hún ólst upp í Hnausum. Hún var vel greind og fróð um marga hluti. Hún lærði meðal annars góða undirstöðu í ensku í Menntaskólanum á Akureyri, sem nýttist henni vel þegar hún fór að vinna við símann, fyrst á Blönduósi, en á þessum tíma þurfti meðal annars að afgreiða breska hermenn með símtöl sem þar voru. Þá voru fáir sem töluðu ensku í dreifbýlinu.

Guðrún hafði sérstakan áhuga á ættfræði og átti gott með að rekja tengsl manna langt aftur í ættir. Hún átti margar ættfræðibækur og hjálpaði mörgum að rekja sínar ættir. Hún var lengi í byggðasafnsnefnd Húnvetningafélagsins og tók þátt í að safna munum fyrir Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna.

Þau Dýrmundur eignuðust lítinn sumarbústað í nágrenni við Vesturhóp í V-Húnavatnssýslu. Þar voru þau oftast í sumarfríum seinni árin. Þar voru frekar frumstæðar aðstæður en alltaf var gott að heimsækja þau þangað. Við hliðina á bústaðnum rann lækur sem þurfti að fara yfir og var hann ákveðinn farartálmi. Yfir hann var byggð brú, sem þurfti að taka upp á haustin, annars flaut hún upp þegar flóð kom í lækinn (sem breyttist stundum í vatnsmikla á). Ég hafði gaman af að glíma við brúna með Dýrmundi. Einnig hjálpaði ég þeim að hressa upp á bústaðinn, sem í upphafi var dálítill vinnuskúr, byggður af vanefnum, en leit þokkalega út fyrir rest, með dálítilli grasflöt í kring.

Ég þakka þér, Guðrún, innilega fyrir allar góðar minningar og skemmtilegar samverustundir sem við höfum átt saman í gegnum tíðina. Ég kveð þig með söknuði og óska þér góðrar ferðar í Sumarlandið.

Þinn tengdasonur,

Bjarni Oddgeir

Vestmann Þóroddsson.

Guðrún tengdamóðir mín, sem fæddist í torfbæ árið 1917, upplifði ótrúlegar breytingar á íslensku samfélagi. Hún var bráðger sem barn, fróðleiksfús og gekk vel að læra. Hún lauk barnaskólaprófi frá skólanum í sveitinni en þráði að læra meira. Í þann tíð þótti ekki sjálfsagt líkt og nú til dags að stúlkur sæktu langskólanám og þurfti hún að leggja þó nokkuð á sig til að draumurinn gæti ræst. Hún vann á búi foreldra sinna, sótti launahækkun til föður síns, með þeim rökum að hennar vinna væri jafn verðmæt og aðkeyptu vinnumannanna. Hún lagði fyrir og sparaði svo að draumurinn mætti verða að veruleika. Til Akureyrar komst hún í menntaskólann og stundaði þar nám í tvö ár, sem lauk með gagnfræðaprófi þess tíma. Þá var formlegu námi Guðrúnar lokið því sjóðurinn var búinn og engan fjárstuðning að hafa til frekara náms. En Guðrún nýtti þessa undirstöðu vel í lífi og starfi.

Meðal annars má geta þess að hún reið um Vatnsdalinn sem túlkur fyrir breska ferðamenn og starfaði lengi sem talsímakona þar sem kunnátta í erlendum málum kom sér vel. Guðrún vissi að aukin menntun og fróðleiksleit opnaði huga fólks og jók tækifærin og hvatti afkomendur sína alla tíð til dáða í námi.

Þá ferðaðist hún þó nokkuð erlendis þegar tækifæri gáfust seinna á lífsleiðinni og bjó að þeirri reynslu.

Þó að tengdamóðir mín hafi aldrei kallað sig kvenréttindakonu í mín eyru, hvað þá femínista, var hún jafnréttissinni í hjarta sínu og lifði lífinu þannig. Ég held að henni hafi bara þótt jafnrétti svo sjálfsagt að það þyrfti ekki að ræða það sérstaklega. Hún giftist einstökum öðlingi, Dýrmundi Ólafssyni, og samhent ráku þau heimili og ólu önn fyrir sínum börnum. Jafnræði var með þeim hjónum, Guðrún vann alla tíð utan heimilis og sinntu þau heimilishaldi til jafns hvort við annað, sem var nokkuð sérstakt fyrir fólk fætt á öðrum áratug síðustu aldar.

Tengdaforeldrar mínir voru samhentir um að hlúa að öllu sínu fólki og var greiðvikni þeirra, elskusemi og gestrisni við brugðið. Börnunum mínum fjórum reyndust þau einstaklega góð og blíð og eiga þau ekkert nema fallegar minningar um ömmu og afa. Mér reyndist Guðrún alla tíð vel, hún fylgdist vel með því sem ég tók mér fyrir hendur og studdi með ráðum og dáð.

Guðrún bjó öll sín fullorðinsár í höfuðborginni og hún naut og nýtti sér þau tækifæri sem höfuðborgin bauð. En sveitin var aldrei tekin úr henni né Dýrmundi og ræktuðu þau alla tíð vel tengslin við vina- og frændgarð á æskuslóðum beggja. Síðasta ferðin norður verður að Þingeyrum þar sem hún verður jarðsett við hlið eiginmannsins, þaðan sem sér heim að æskustöðvum þeirra beggja, Hnausum og Stóruborg.

Elskuleg tengdamóðir mín lifði löngu og góðu lífi og var á nítugasta og níunda aldursári þegar hún kvaddi. Síðustu árin sótti Elli kerling hart að henni og eflaust hefur hún orðið hvíldinni fegin. Guðrún var viss um að þegar þessari jarðvist lyki myndi hún hitta fyrir ástvini sem á undan eru gengnir. Vonandi hafa orðið þeir fagnaðarfundir. Ég kveð Guðrúnu tengdamóður mína með virðingu og þökk.

Anna Sigríður Guðnadóttir.

Þegar við hugsum um ömmu Guðrúnu, eða „ömmu í Reykjavík“ eins og við kölluðum hana oft, kemur fljótt upp í hugann dæmigerð heimsókn til hennar og afa á okkar yngri árum. Þegar við heilsuðum ömmu tók hún höndina okkar að sér, bretti upp ermina löturhægt, beit laust í framhandlegginn á okkur og hló. Ekki vitum við hvers vegna hún lét svona en hugsanlega hefur þetta verið hennar leið til að sýna hve henni þótti vænt um okkur þó að okkur litlu saklausu drengjunum hafi ekkert litist á blikuna. Eftir að amma og afi höfðu boðið okkur inn fyrir var okkur bent á að kíkja undir rúmið í dótakassann sem kallaðist „púltið“ á milli þess sem afi gaukaði að okkur ópal, þá helst bláum.

Amma Guðrún var ekki þessi dæmigerða amma. Hún var með skemmtilegan húmor, en var einnig mjög hreinskilin og fannst ekkert að því að segja sína skoðun umbúðalaust ef henni fannst eitthvað undarlegt í fari manns. Henni þótti mjög vænt um barnabörnin sín og yngstu fjölskyldumeðlimina kallaði hún „blómin sín“.

Amma og afi komu stundum í heimsókn upp á Skaga, en þau töluðu oft um að þar liði þeim vel, þó að stundum hafi brimið á Langasandinum haldið fyrir ömmu vöku. Þegar þau óku svo af stað úr hlaðinu heim á leið klikkaði vörumerki ömmu á þeim tíma aldrei, vinkið aftur á bak.

Þegar við urðum eldri og komum í heimsókn til Reykjavíkur hellti hún upp á sterkt kaffi, bauð upp á bakkelsi ásamt heimabökuðu heilhveitibrauði og fræddi okkur um ættir okkar. Amma var nefnilega mjög fróðleiksfús og vel að sér í ættfræði. Segja má að hún hafi verið boðberi menntunar, og væri örugglega í doktorsnámi í dag hefði hún verið af annarri kynslóð, en til að sýna stuðning sinn við menntun barnabarnanna sá hún um að borga stúdentshúfurnar fyrir þau öll.

Á síðari árum kom vel fram hve ömmu var annt um heimahagana og spurði hún oft „hefurðu komið á Hnausa, keyrt um Vatnsdalinn og séð Vatnsdalshólana?“. Við svöruðum játandi og í kjölfarið fylgdi iðulega saga frá gömlu tímunum þegar amma var ung og tímarnir aðrir.

Með ástarkveðju og þakklæti,

Þóroddur, Rúnar Dýrmundur, Freyr, Valur Oddgeir og fjölskyldur.

Í dag kveðjum við elsku ömmu okkar og margs er minnast, því að heimsókn til ömmu og afa fól ætíð í sér loforð um ljúfar stundir. Amma sagði okkur oft sögur frá æskuárunum og hún og afi kenndu okkur heilmargt um gamla siði og venjur, hjá þeim lærðum við m.a. að kemba og spinna ull á snældu. Í svefnherberginu þeirra var lítil baðstofa undir súð þar sem ýmsa gamla muni var að finna og bárum við systur óttablandna virðingu fyrir þeim en höfðum samt gaman af. Næturgagnið sem geymt var undir rúmi litum við þó hornauga, en þegar við gistum í Skeiðarvogi átti amma það til að benda okkur á koppinn góða þegar klósettráp okkar systra hélt fyrir henni vöku.

Hjá ömmu og afa lærðum við líka að borða og meta þjóðlegan mat og vorum við sérstaklega gráðugar í slátur, velling, flatbrauð sem þau steiktu sjálf á hellu, heimagerða kæfu, randalínur, afakleinur, lummur, parta og ömmubrauð. Við fengum líka stundum að smakka eitt og annað sem súrsað hafði verið ofan í tunnur í kjallaranum og supum gjarnan á mysu, þó að okkur hafi nú þótt mjólkin betri. Amma var líka dugleg að leyfa okkur að bragða á nýjum réttum og óhætt er að segja að hún hafi verið áhugasöm um að prófa nýjungar í matargerð í bland við gamlar hefðir.

Amma fylgdist alltaf með því hvort við þrifumst ekki örugglega nógu vel og allar heimsóknir hófust á því að hún bretti upp ermarnar okkar, nartaði laust upp eftir handleggnum og sönglaði „amm“ á meðan. Svo klappaði hún okkur og kyssti og sagði „eeelgan ennar ömmu“ með sinni blíðlegu röddu og kallaði okkur blómin sín.

Amma ræddi reglulega við okkur um gildi þess að fara sparlega með peninga, fara vel með hluti, borða hollan mat og forðast sælgæti, tóbak og áfengi.

Hún hvatti okkur óspart til náms enda var hún sjálf góður námsmaður og vandaði til allra verka. Amma vissi sínu viti og sagði okkur snemma að ekkert þýddi að reyna að segja sér ósatt, því hún hefði litla fugla með sér í liði sem hvísluðu að henni hlutum.

Okkur leiddist aldrei í bíltúr með ömmu og afa, en amma var dugleg að leiðbeina afa í umferðinni og hófst tilsögnin gjarnan á orðunum „almáttugur Dýrmundur“.

Á unglingsárunum höfðum við sérstaklega gaman af þessu, enda átti hún það til að orða hlutina mjög skemmtilega. Sem dæmi var afi einu sinni stopp við biðskyldumerki þegar amma sagði ákveðið: „Almáttugur Dýrmundur, varaðu þig. Þeir koma hér á fleygiferð og hika ekki við að keyra okkur niður.“ Seinna meir urðu þessi orð hennar ömmu „almáttugur Dýrmundur“ eðlilegur hluti af samskiptum okkar systra og eru það enn.

Amma kenndi börnunum okkar að kalla sig „ammí“, hún var þeim ætíð góð og fram á síðasta dag benti hún okkur systrum á hættur í umhverfinu til að tryggja að blómin hennar færu sér ekki að voða.

Elsku amma, takk fyrir allt sem þú hefur gefið okkur. Við munum minnast þín með hlýhug og þakklæti í hjarta alla tíð.

Guðrún og Erla Helga

Sveinbjörnsdætur.