Stundum leiða ófarir og ósköp fram nýja krafta.

Fyrir nokkrum árum voru skoðanir þeirra, sem boðuðu beint lýðræði, eins konar jaðarskoðanir. Fleiri en færri höfðu fyrirvara á þeim sjónarmiðum, að beint lýðræði gæti orðið grundvallarþáttur í stjórnskipan íslenzka lýðveldisins. En nú eru breyttir tímar. Hugmyndirnar um beint lýðræði eru að verða ríkjandi skoðanir í umræðum um þjóðfélagsmál.

Þetta kom skýrt fram í samtali Björns Inga Hrafnssonar við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í sjónvarpsþætti Eyjunnar á Stöð 2 sl. sunnudag.

Í því viðtali kvaðst forsætisráðherra vera hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslum almennt og væri meginástæðan sú, að slíkar atkvæðagreiðslur skiluðu almennt því, sem hann taldi vera réttar niðurstöður. Hann lýsti því jafnframt yfir, að hann væri tilbúinn til að setja spurninguna um afnám verðtryggingar í slíka atkvæðagreiðslu og sagði:

„Þetta er mál, sem maður sæi fyrir sér að væri hægt að setja í að minnsta kosti ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, þannig að stjórnvöld hefðu þá þjóðina á bak við sig í því að fylgja þessu eftir.“

Þessi athugasemd forsætisráðherra er ekki sízt athyglisverð vegna þess að sumir þeirra, sem af nokkurri tregðu fallast á þjóðaratkvæðagreiðslur í ríkara mæli en verið hefur, telja að þær eigi ekki að ná til málefna sem snúa beint að fjárhagslegum hagsmunum.

Forsætisráðherra er hins vegar ekki eini forystumaður núverandi stjórnarflokka, sem tekur með svo afgerandi hætti undir hugmyndir um beint lýðræði. Það gerði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, líka í grein, sem birtist hér í Morgunblaðinu í maí á síðasta ári, en þá sagði Bjarni:

„Ég tel að þróun síðustu ára sýni að mikil þörf sé á almennu ákvæði í stjórnarskrá um þjóðaratkvæðagreiðslur... Ég tel að þjóðaratkvæðagreiðslur á grundvelli undirskrifta eigi fyrst og fremst að þjóna aðhaldshlutverki gagnvart Alþingi og jafnframt vera eins konar öryggisventill lýðræðis.“

Með vísun í þessi ummæli formanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og í ljósi þess að forystumenn annarra stjórnmálaflokka og -hreyfinga á Íslandi hafa lýst áþekkum grundvallarskoðunum fer ekki á milli mála, að allir íslenzku stjórnmálaflokkarnir eru því hlynntir nú, að beint lýðræði verði lykilþáttur í stjórnskipan okkar.

Þessi veruleiki markar auðvitað þáttaskil í umræðum um beint lýðræði.

Að vísu má búast við samkvæmt fenginni reynslu, að þegar kemur að útfærslu þessara hugmynda komi upp ágreiningur og þá reyni sumir þeirra, sem nú tala óhikað fyrir beinu lýðræði, að koma fram alls konar fyrirvörum, sem takmarki með einhverjum hætti úrslitaáhrif hins almenna borgara.

Þannig vakti athygli í fyrrnefndum sjónvarpsþætti að forsætisráðherra hafði þann fyrirvara á þjóðaratkvæðagreiðslu um verðtryggingu að hún yrði „ráðgefandi“ og allir vita hvað það þýðir.

Og búast má við að þegar að því kemur að ákveða, hvert skuli vera lágmark þess fjölda kjósenda, sem með undirskriftum geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál, verði einhverjir til að ýta þeim fjölda sem til þarf frekar upp en niður.

Reynslan sýnir, að þótt samkomulag verði um grundvallarþætti mála geta verið framundan margra ára átök um útfærslu eins og gerzt hefur með auðlindagjaldið. Þótt nú sé ekki lengur deilt um það sem grundvallarþátt í fiskveiðistjórnun gegnir öðru máli um framkvæmdina, sem enn er deilt um einum og hálfum áratug eftir að landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti auðlindagjald sem grundvallarstefnu flokksins.

Þess vegna má búast við að þótt samkomulag sé komið á í megindráttum um beint lýðræði geti það enn tekið mörg ár að útfæra framkvæmd þeirra hugmynda á þann veg að almenn sátt náist um hana.

Grundvallarhugmyndir hins beina lýðræðis snúast ekki bara um það sem gerist í landsmálum. Þær beinast líka að sveitarstjórnum og félagasamtökum.

Sveitarstjórnir geta hver um sig ákveðið nú þegar að leggja ágreiningsmál í sveitarfélögum undir atkvæði íbúanna, eins og gert hefur verið í einstaka tilvikum, en æskilegt væri að fjölga þeim.

Hér á þessum vettvangi hefur oft og ítrekað verið vikið að því forneskjulega fyrirkomulagi, sem ríkir við kjör stjórnarmanna í lífeyrissjóðum. Lífeyrissjóðirnir eru sameiginleg eign félagsmanna þeirra og þess vegna eðlilegt að þeir kjósi stjórnarmenn í sjóðina. Það er úrelt fyrirbæri að atvinnurekendur komi þar við sögu og að stjórnir verkalýðsfélaga ákveði, hverjir skuli sitja í stjórnum lífeyrissjóða, sem fulltrúar eigenda sjóðanna. Athugasemdir VR við kjör stjórnarmanna í lífeyrissjóði eru vísbending um að launþegafélögin séu að byrja að vakna til vitundar um að óbreytt fyrirkomulag gangi ekki lengur.

Þær hugmyndir um beint lýðræði, sem nú eru orðnar ríkjandi skoðanir á vettvangi allra stjórnmálaflokka og -hreyfinga, eru líklegar til að gjörbreyta íslenzku samfélagi á næstu árum og áratugum. Mesta breytingin verður fólgin í því að losa samfélagið úr klóm sérhagsmunahópa, hverju nafni sem nefnast, og stórra viðskiptasamsteypa.

Sú viðhorfsbreyting, sem nú hefur orðið, hefur gengið hratt fyrir sig – ótrúlega hratt.

Hrunið haustið 2008 og margvíslegar afleiðingar þess eru meginskýringin á því.

Það er til marks um að stundum verða ófarir og ósköp til að nýir vindar og nýir kraftar brjótist fram með eftirminnilegum hætti.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is