Náttúrustemmur „Hvert verk verður eins og sín eigin sköpunarsaga,“ segir Kristbergur Pétursson um hin nýju verk sín í aðalsal í Hafnarborgar.
Náttúrustemmur „Hvert verk verður eins og sín eigin sköpunarsaga,“ segir Kristbergur Pétursson um hin nýju verk sín í aðalsal í Hafnarborgar. — Morgunblaðið/Einar Falur
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is „Svona upplifi ég náttúruna; jörðina og náttúruöflin.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

„Svona upplifi ég náttúruna; jörðina og náttúruöflin. Fyrir einfaldan mann eins og mig eru þau býsna leyndardómsfull,“ svarar Kristbergur Pétursson brosandi þegar blaðamaður hefur á orði að það sé dularfull stemning í stórum málverkunum á sýningu hans í aðalsal Hafnarborgar, en hún verður opnuð í dag, laugardag klukkan 15.

Sýning Kristbergs nefnist Hraun og á henni getur að líta á annan tug stórra nýrra olíumálverka auk rúmlega þrjátíu vatnslitamynda og nokkurra ljóða listamannsins sem sett eru upp á veggina.

Í kynningartexta um sýninguna segir að hraunið í Hafnarfirði, heimabyggð Kristbergs, móti í flestu viðhorf hans til náttúru og heimsmyndar. Þá sé áferðarríkur og dimmleitur flötur verka hans „eins og ævagamall og hálfgagnsær hamur eða hlífðarlag utan um lifandi innviði“.

Kristbergur stundaði nám við MHÍ 1979 til 1985 og síðan í Ríkisakademíunni í Amsterdam frá 1985 til 1988. Hann hefur haldið yfir 30 einkasýningar og tekið þátt í samsýningum hér heima og erlendis. Hann kom fyrst fram á sjónarsviðið með verk sín á tímum nýja málverksins en hefur síðan þróað list sína í átt að hinu óhlutbundna, þar sem litaflæði og andrúm sækja í oft myrkar náttúrustemmur og drunga en myndefnið er oftar en ekki hrjóstrugt hraunlandslag.

Stemningin í ljósaskiptunum

„Ég er að vinna út frá landslaginu og náttúrunni hér í Hafnafirði. Umhverfinu – og þá hrauninu – sem ég hef haft í kringum mig meðan ég hef alið minn aldur hér í bænum,“ segir Kristbergur um málverkin. Hann bætir við að stundum hvetji hann fólk, sem spyrji hann um uppsprettur verkanna, til að fara í gönguferð um gamla vesturbæinn í Hafnarfirði og líta inn í Hellisgerði. Hann hafi alist upp á þessu svæði og það búi innra með honum.

– Ef við horfum á náttúruvísanir í verkunum þá er það náttúran að vetri eða snemma vors, áður en grænir litir láta á sér kræla.

„Já, miklu frekar en um hásumar. Þetta er stemningin í ljósaskiptunum, og árstíðaskiptunum,“ segir hann. Og þegar Kristbergi var fyrir nokkrum misserum boðið að halda þessa sýningu í stóra salnum í Hafnarborg, þá sá hann í því tækifæri til að mála stærri verk en áður.

„Ég réðst í það en fannst jafnframt að ég þyrfti að vinna röð af litlum pappírsverkum sem mótvægi. Þetta eru andstæður en formin vega hvort annað upp.

Ég málaði öll þessi verk eftir að mér var boðið að sýna; fór þá að hugsa í þessum stærðum sérstaklega fyrir salinn. Ég hef aldrei fyrr sýnt svo stór málverk.“

Tuskast á við strigann

– Eru það annarskonar átök að takast á við verk í þessum stærðum, verk þar sem þú glímir greinilega hart við flötinn?

„Jú, vissulega, en ég vandist því furðu fljótt. Ég beitti sömu tækni við þessi verk og ég hef notað undanfarin ár. Fyrir utan að mun lengri tími fór vitaskuld í hvert verk. Ég byggi upp lag eftir lag á strigann; mála í þykkum og þunnum lögum til skiptis, sletti og ríf meira að segja niður í yfirborðið með rafmagnsfræsara. Nudda fram og til baka.“ Og Kristbergur nýr yfirborð eins verksins. „Ég beiti öllum tækjum sem nýtast við að ná þeim áhrifum sem ég sækist eftir og nýt þess að tuskast á við þau.

Verkin fara smám saman að segja einhverja sögu; hvert verk verður eins og sín eigin sköpunarsaga. Tilfinningin fyrir vinnuferlinu skiptir mig máli. En það er ekki víst að áhorfandinn skynji það, ekki frekar en að lesandi skáldsögu sjái ferlið sem rithöfundurinn hefur lagt að baki. Áhorfandinn sér bara endanlega útgáfu.“