Veður Veðurfréttirnar eru spennandi og skemmtilegar.
Veður Veðurfréttirnar eru spennandi og skemmtilegar.
„Komiði sæl.“ Þannig hefst uppáhaldssjónvarpsefni allra landsmanna.

„Komiði sæl.“ Þannig hefst uppáhaldssjónvarpsefni allra landsmanna. Veðurfræðingurinn er mættur inn í stofu til okkar og segir til um hvort við eigum að klæða okkur í föðurland, kuldaskó, vettlinga, húfu og trefil á morgun eða hvort húfa og vettlingar dugi til að halda á sér hita.

Ég veit, ég veit, það er hægt að fylgjast með veðrinu á veraldarvefnum nú til dags. Tæknin má samt ekki eyðileggja fyrir okkur gleðina sem fylgir því að sjá veðurfræðingana útskýra veður morgundagsins með áhyggjusvip: „Það er von á suðvestanátt með 12 metrum á sekúndu. Von er á einhverri ofankomu eftir hádegi.“

Ég ætlaði alltaf að verða veðurfræðingur þegar ég var yngri. Sá draumur rættist ekki, það geta ekki allir orðið veðurfræðingar. Hægt er að finna einn galla á annars fullkomnu sjónvarpsefni. Af hverju endar veðurfréttatíminn yfirleitt á því að við „lítum út í heim“? Er það gert til að nudda okkur upp úr því að veðrið hjá okkur sé ekki upp á marga fiska? Birta Líf og félagar: Getum við ekki endað á því að skoða hitatölurnar í Síberíu eða á Grænlandi? Kveðja, ykkar helsti aðdáandi.

Jóhann Ólafsson