Hönnunarsafn Íslands Listfræðingur sem vann fyrir Hönnunarsafnið kannar rétt sinn vegna nýtingar safnsins á höfundarréttindum hennar.
Hönnunarsafn Íslands Listfræðingur sem vann fyrir Hönnunarsafnið kannar rétt sinn vegna nýtingar safnsins á höfundarréttindum hennar.
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

LEX lögmannsstofa hefur fyrir hönd umbjóðanda síns, Hönnu Guðlaugar Guðmundsdóttur, listfræðings, ritað bréf til Hörpu Þórsdóttur, forstöðumanns Hönnunarsafns Íslands í Garðabæ, vegna aðkomu safnsins að nýtingu á höfundarréttindum Hönnu Guðlaugar.

Fram kemur í ofangreindu bréfi að Hönnunarsafn Íslands hafi í janúar 2012 fengið Hönnu Guðlaugu til þess að rita sögu Glits sem áformað hafi verið að kæmi út í bókarformi, en ákveðið hafði verið að sýningin Innlit í Glit yrði haldin í safninu á árinu 2013.

Forstöðumaður safnsins hafi haustið 2012 gert Hönnu Guðlaugu grein fyrir því að erfitt reyndist að fjármagna útgáfu efnisins í bók, sem hafi verið forsenda þess að Hanna tók verkefnið að sér. Hanna Guðlaug hafi lokið verkefninu í þeirri von að af útgáfu yrði. Hún hafi skilað grein sinni til Hörpu áður en sýningin var opnuð í febrúar 2013.

Í bréfinu kemur jafnframt fram að safnið hafi notað texta úr greininni, sem birtir voru á vegg á sýningunni. Textinn hafi einnig verið notaður í fréttatilkynningu, viðtölum og greinum í fjölmiðlum, án þess að Hönnu Guðlaugar væri getið. Orðrétt segir í bréfi lögmannsstofunnar: „Nú nýlega varð umbjóðandi minn þess vör að vorið 2014 lagði Vigdís Gígja Ingimundardóttir fram ritgerð til BA-prófs í listfræði við Háskóla Íslands en heiti hennar er Ísland er svo keramískt – Leirlist Steinunnar Marteinsdóttur. Í ritgerðinni er svofelld færsla í heimildaskrá: Texti af sýningu, unninn úr óbirtri grein eftir Hönnu Guðlaugu Guðmundsdóttur...“

Harpa sú eina sem fékk textann

„Textinn sem umbjóðandi minn lét safninu í té snemma árs nýtur verndar sem höfundarverk samkvæmt 1. mgr. höfundarlaga nr. 74/1972. Umbjóðandi minn hefur ekki afhent textann öðrum en yður fyrir hönd Hönnunarsafnsins. Með vísan til þessa fer umbjóðandi minn fram á að þér upplýsið hvort þér eða aðrir starfsmenn safnsins afhentuð höfundi BA-ritgerðarinnar texta umbjóðanda míns og hvaða heimild þér teljið liggja til grundvallar slíkri afhendingu.“

Harpa Þórsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands, vildi í gær ekkert segja um ofangreint bréf.

Andri Árnason, hrl., fer með málið fyrir Hönnunarsafnið. Hann sagði að erindinu yrði svarað, en ekki væri búið að því.