Í Massey Ferguson-bolum Haraldur ásamt Guðbjörgu, dóttur sinni.
Í Massey Ferguson-bolum Haraldur ásamt Guðbjörgu, dóttur sinni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Haraldur fæddist á Akranesi 23.1. 1966 og ólst upp á bænum Vestri-Reyni. Hann var í Heiðarskóla og lauk framhaldsskólaprófi frá Bændaskólanum á Hvanneyri.

Haraldur fæddist á Akranesi 23.1. 1966 og ólst upp á bænum Vestri-Reyni. Hann var í Heiðarskóla og lauk framhaldsskólaprófi frá Bændaskólanum á Hvanneyri.

Haraldur var starfsmaður á skólabúi Bændaskólans og hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins – Bútæknideild, og sinnti stundakennslu við sama skóla.

Haraldur sinnti bústörfum á Vestri-Reyni frá 1989 og hefur verið bóndi þar frá 1995. Hann var formaður Búnaðarsamtaka Vesturlands 2002-2005 og starfandi formaður Bændasamtaka Íslands 2004- 2013, sat á Búnaðarþingi 2001-2015 og var kjörinn á alþingi í Norðurlandskjördæmi vestra fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 2013.

Haraldur starfaði með Leikfélaginu sunnan Skarðsheiðar og tók þátt í nokkrum uppfærslum.

„Ég er fjórði ættliðurinn sem sit jörðina Reyni og segi stundum að það sé hluti af mér að fást við ræktun og búskap – tilgangur lífsins.

Ég hef alltaf sömu ánægju af því að hirða skepnur, fást við heyskap og önnur búverk. En nú rekur eiginkonan búið og við höfum góða starfsmenn, enda lítið hægt að treysta á bóndann þessi árin.

Búskapurinn gengur vel enda er eiginkonan fædd og uppalinn í sveit og tók sitt háskólanám í búvísindum. Án hennar væri búskapur okkar ekki jafn öflugur og raun ber vitni.

Í raun stóð aldrei til að ég færi út í bænda- og landsmálapólitík. Það var töluvert tilviljunum háð og enn lít ég svo á að þetta sé tímabundið hliðarspor frá búskapnum. En þessi störf eru gefandi og í gegnum þau hef ég kynnst mörgu góðu fólki.“

Er landbúnaðurinn aftur að öðlast jákvæðan sess með þjóðinni?

„Já, tvímælalaust. Sveitirnar og landsbyggðin eru byggð harðduglegu fólki og landbúnaður er svo miklu meira en bændastétt. Hann er hryggsúla lifandi byggða og uppspretta hreinna matvæla, upplifun ferðamanna og fjölda þjónustu- og framleiðslustarfa víða um land. Efnahagshrunið var erfitt en engu að síður heillandi tími. Þá breyttist viðhorf til landbúnaðar á einni nóttu. Íslenskur landbúnaður mildaði gríðarlega efnahagshöggið. Án hans hefðu útgjöld heimila orðið miklu þyngri en raun varð. Íslendingar vilja íslenskan landbúnað og afurðir hans og standa með honum.

Ég hef haft áhuga á að breyta bændahreyfingunni og gera ásýnd og umræðu um landbúnað nútímalegri. Það er nauðsyn á grundvallaruppstokkun á landbúnaði, skipulagi hans og tengdra greina.

Ég hef líka fengið frábær tækifæri í pólitíkinni. Eitt þeirra var þátttaka í ljósleiðaravæðingu landsins, ásamt Páli Jóhanni Pálssyni alþingismanni og fleira góðu fólki. Engin ein framkvæmd mun breyta meira búsetuskilyrðum á næstu árum. Ríkisstjórnin og innanríkisráðherrar hafa haft skýra sýn í þessum efnum og málið hefur verið eitt helsta áherslumál fjárlaganefndar undanfarin tvö ár. Ég sé fyrir mér að árið 2020 verði Ísland í fremstu röð á sviði fjarskipta, þrátt fyrir stórt land og dreifða byggð.“

Fjölskylda

Eiginkonan Haraldar er Lilja Guðrún Eyþórsdóttir, f. 26.8. 1964, bóndi og fyrrv. ráðunautur. Foreldrar: Eyþór Einarsson, f. 18 6. 1912, d. 23.12. 1987, og Guðborg Aðalsteinsdóttir, f. 11.10. 1933, bændur í Kaldaðarnesi í Flóa og síðar í Hveragerði.

Börn Haraldar og Lilju Guðrúnar eru Benedikta Haraldsdóttir, f. 31.5. 1996, nemi í HR, búsett á Vestri-Reyni; Eyþór Haraldsson, f. 21.1. 2001, nemi, og Guðbjörg Haraldsdóttir, f. 15.4. 2008, nemi.

Hálfsystir Haraldar, sammæðra, var Þórunn Valdís Eggertsdóttir, f. 21.7. 1948, d. 10.4. 2015, var fiskvinnslukona á Akranesi.

Alsystkini Haraldar: Elísabet Unnur Benediktsdóttir, f. 28.12. 1949, búsett á Eystri-Reyni og starfar við félagsþjónustu; Fríða Benediktsdóttir, f. 18.2. 1951, útgerðarmaður á Akranesi; Valný Benediktsdóttir, f. 21.7. 1956, starfsmaður hjá HB Granda á Akranesi; Þorsteinn Ölver Benediktsson, f. 13.11. 1963, d. 9.9. 1966, og Steinunn Fjóla Benediktsdóttir, f. 16.8. 1972, kennari og bóndi í Mófellstaðakoti í Skorradal.

Foreldrar Haraldar voru Halldóra Ágústa Þorsteinsdóttir, f. 3.12. 1928, d. 4.7. 2008, húsfreyja á Vestri-Reyni til 2005 og síðan á Akranesi, og Benedikt Haraldsson, f. 20.8. 1924, d. 13.9. 1995, bóndi á Reyni frá 1948 og Vestri-Reyni frá 1953.