Gunnlaugur Tryggvi Pálmason fæddist á Hofi í Hörgárdal 28. febrúar 1923.

Hann lést á dvalarheimilinu Hornbrekku 13. janúar 2016.

Foreldrar hans voru Halldór Pálmi Magnússon, f. 2.4. 1882 í Ytra-Brekkukoti í Hörgárdal, d. 15.5. 1928 á Akureyri, og Elín Indriðadóttir, f. 5.2. 1890 í Keldunesi í Kelduhverfi, d. 7.4. 1972 á Akureyri.

Systkin Gunnlaugs sem nú eru látin voru Indriði, f. 1910, d. 1964, Soffía, f. 1912, d. 1995, Bjarni, f. 1914, d. 1994, Jakob, f. 1915, d. 1998, Elín Björg, f. 1917, d. 1979, Jón, f. 1918, d. 2003, Erlingur, f. 1925, d. 1997, og Pálmi, f. 1927, d. 2006. Eftirlifandi er Sigríður, f. 1921.

Gunnlaugur kvæntist 20. desember 1947 Önnu B. Árnadóttur, f. 18.9. 1925 á Mjóeyri við Eskifjörð.

Börn Gunnlaugs og Önnu:

(a) Elín grasafr. f. 1947.

(b) Árni Jón, rafm.tæknifr., f. 1948, maki Berglind Snorradóttir, bókari, f. 1954. Dætur Anna Geirlaug, gullsmiður, sambýlism. Ragnar Már Róbertsson leikskólakennari, börn Úlfur Árni og Úrsúla Bergdís; og Eva Alexandra, sjúkraliði og mannfr.nemi, sambýlism. Kári Pálsson, þjóðfr.nemi. Sonur Berglindar Rúnar Júlíus Smárason, fjárm.verkfr., maki Þórunn Kristjánsdóttir, þau eiga þrjú börn.

(c) Soffía, f. 1954, d. 1955.

(d) Pétur Þór, byggingarverkfr., f. 1956, maki Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, stjórnsýslufr., f. 1956. Synir Gunnlaugur Ársæll, stúdent, og Elías Arnar menntaskólanemi. Börn Jakobínu Anna Sigríður Pálsdóttir læknir, maki Jón Ari Arason háskólanemi, synir Hallgrímur Ari og Páll Emil; og Sveinbjörn Hermann Pálsson.

(e) Hannes Valur, f. 1963, búfræðikandidat, maki Hjördís Björk Þorsteinsdóttir smiður, f. 1965. Dóttir Hannesar og fyrrv. sambýlisk., Matthildar Ástu Hauksdóttur, f. 1965, Karen Arna, rafvirki, sambýlism. Auðun Jóhann Elvarsson, vélstj., sonur þeirra ónefndur, dóttir hennar og fyrrv. sambýlism., Óla Hrafns Olsens, Elísabet Emma. Synir Hannesar og Hjördísar eru Ágúst Heiðar, forritari, sambýlisk. Sandra Marín Gunnarsdóttir tölvunarfr.nemi; Höskuldur Logi, menntaskólanemi, og Þorsteinn Viðar. Dóttir Hjördísar erLinda Björk Hjördísar Gunnarsdóttir, verslunarstj.

(f) Halldóra Soffía, f. 11.1. 1965, sjúkraþjálfari og spænskufr.

Gunnlaugur kynntist Önnu tilvonandi eiginkonu sinni þegar hún var í vist hjá séra Sigurði Stefánssyni og Maríu Ágústsdóttur á Möðruvöllum í Hörgárdal. Fyrstu tvö árin eftir að þau giftust var heimili þeirra í Innri-Njarðvík en frá 1949 á Hofi í Hörgárdal þar sem þau voru bændur frá 1950 til 1993. Síðustu árin dvöldu Gunnlaugur og Anna á Hornbrekku í Ólafsfirði, þar sem Anna lést í apríl 2015.

Útför Gunnlaugs fer fram frá Möðruvallakirkju í Hörgárdal í dag, 23. janúar 2016, og hefst athöfnin klukkan 14.

Faðir minn kær. Nú hefur þú kvatt og ert farinn yfir móðuna miklu. Það er von mín og trú að þið móðir mín getið sameinast þar á ný.

Ég minnist þess hve vel þið móðir mín önnuðust mig á uppvaxtarárunum. Ég var ekki gamall þegar þú fórst að taka mig með til ýmissa útiverka og eflaust var ekki mikið gagn í stráknum til að byrja með, hitt þó heldur. En verkin lærast ef fylgst er með og smám saman kenndir þú mér að aðstoða þig og vinna verkin. Hvað er betra veganesti en að læra að leysa úr málum á eigin spýtur? Og ætíð var gott að koma heim og dvelja um skamma eða langa hríð í hlýju og kærleika. Ykkur fæ ég seint fullþakkað.

En þó að á þessari stundu sé ég fullur saknaðar veit ég að í minningunni lifir þú með mér um ókomin ár.

Þinn

Pétur Þór.