— AFP
Tíu létust, þar á meðal sjö lögregluþjónar, þegar sprengja sprakk í húsi í Giza í Egyptalandi á fimmtudaginn.

Tíu létust, þar á meðal sjö lögregluþjónar, þegar sprengja sprakk í húsi í Giza í Egyptalandi á fimmtudaginn. Lögreglan segir að liðsmenn í sveitum Múslímska bræðralagsins hafi falið sig í húsinu og hafi lögregla verið að koma til að handtaka þá þegar sprengingin varð.

Yfirvöld segja að þeir bræðralagsmenn hafi komið sprengjunni fyrir og sprengt hana. Hermdarverk gegn her og lögreglu hafa stigmagnast frá því að egypski herinn steypti stjórn Morsi forseta af stóli árið 2013. Fjöldi óbreyttra borgara hefur fallið í þessum árásum.

Auk þeirra sem féllu særðust 13 manns í sprengingunni og tveir þeirra eru í lífshættu.

Samtök öfgasinnaðra íslamista í Egyptalandi, Ansar Beit Al-Maqdis, lýstu ábyrgð á ódæðisverkinu á hendur sér. Þau hafa áður lýst sig ábyrg fyrir fjölda hryðjuverka á Sinai-skaga.

Skammt frá vettvangi ódæðisins eru hinir sögufrægu Giza-pýramídar. Mikill fjöldi ferðamanna á reglulega leið um svæðið, en þeim hefur þó stórfækkað eftir að hermdarverk af þessu tagi urðu daglegt brauð í Egyptalandi.