— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is „Ég hef ákveðið að svara ákallinu um samráð við sveitarstjórn og íbúa um útfærslu á þjónustu heilsugæslunnar,“ segir Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

„Ég hef ákveðið að svara ákallinu um samráð við sveitarstjórn og íbúa um útfærslu á þjónustu heilsugæslunnar,“ segir Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

Mikil óánægja hefur verið á meðal íbúa Rangárþings eystra með þá ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Suðurlands að hafa heilsugæslustöðina á Hvolsvelli aðeins opna í þrjá daga í viku en vísa íbúunum á stöðina á Hellu þess á milli. Þetta er tímabundin tilraun sem átti að standa til vors.

Mikil óánægja á íbúafundi

Íbúar létu óánægju sína í ljós á fjölmennum íbúafundi 11. janúar sl. á Hvolsvelli, að Herdísi viðstaddri. Hún segir að á íbúafundinum hafi ótti og kvíði íbúanna vegna afgreiðslutímans, sem hún hafi hlustað á, komið berlega í ljós. Hún segir ennfremur mikilvægt að eining og sátt ríki um þjónustuna. Að því sögðu verður tilraun með takmarkaðan afgreiðslutíma heilsugæslustöðvarinnar á Hvolsvelli endurskoðuð og niðurstaða ætti að liggja fyrir fyrir 1. febrúar nk.

Fyrri samráðsfundur af tveimur milli Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og sveitarstjórna í Rangárvallasýslu var haldinn í vikunni. Markmið samráðsfundanna er að skoða hvernig fjármunir í heilbrigðisþjónustunni í Rangárþingi séu nýttir sem best í þjónustu við íbúa. „Við ætlum að leggja spilin á borðið fyrir sveitarstjórnina. Hvernig skipulagið er, hvernig við getum haft það og taka sameiginlega ákvörðun þannig að öllum séu ljósir kostir og gallar við ólíkt skipulag,“ segir Herdís.

Spurð hvort afgreiðslutíminn á heilsugæslunni á Hvolsvelli yrði lengdur að nýju, segist hún ekki geta svarað því að svo stöddu og vísar til niðurstaðna sem eiga að liggja fyrir 1. febrúar.

Upplýsandi samráðsfundur

„Þetta var mjög málefnalegur og upplýsandi fundur. Það var engin endanleg niðurstaða en miðað við umræður fundarins þykir mér meiri líkur en minni á að það verði opið aftur fimm daga vikunnar á heilsugæslunni,“ segir Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra, eftir fyrri fundinn.

Næsti og væntanlega síðasti samráðsfundur verður í næstu viku.

Heilsugæslan
á Hvolsvelli
» Var lokuð í sumar en opnuð að nýju 1. september sl. en var þá opin þrjá daga vikunnar í stað fimm daga áður.
» Stjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands endurskoðar þá ákvörðun eftir mótmæli íbúa svæðisins.