Kári Stefánsson
Kári Stefánsson
Undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar til stuðnings kröfunni um endurreisn heilbrigðiskerfisins hófst í gær.

Undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar til stuðnings kröfunni um endurreisn heilbrigðiskerfisins hófst í gær.

Að sögn Kára höfðu milli 15 og 16 þúsund manns skrifað nafn sitt á síðuna laust fyrir klukkan 18 í gær Það svaraði til þess að um 2 þúsund manns hefðu skrifað undir áskorunina á hverjum klukkutíma eftir að vefsíðan var opnuð.

Undirskriftasöfnunin fer fram á vefsíðunni www.endurreisn.is og er krafan sú, að Alþingi verji árlega 11% af vergri landsframleiðslu til reksturs heilbrigðiskerfisins. Á síðunni segir, að nú eyði Íslendingar sem nemi 8,7% af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála sem sé langt undir meðaltali á Norðurlöndum.

„Heilbrigðiskerfi er einn af hornsteinum nútímasamfélags og sýnir vilja þess til þess að hlúa að þeim sem eru sjúkir og meiddir. Gott heilbrigðiskerfi endurspeglar sjálfsagða samhygð en lélegt heilbrigðiskerfi óásættanlegan kulda gagnvart þeim sem eru hjálpar þurfi,“ segir Kári m.a. í rökstuðningi fyrir söfuninni. „Það er okkar mat að á síðasta aldarfjórðungi hafi stjórnvöld vannært íslenskt heilbrigðiskerfi, að því marki að það sé ekki lengur þess megnugt að sinna hlutverki sínu sem skyldi,“ segir ennfremur. Það hafi ekki fylgt framþróun í læknisfræði, hvorki hvað snertir notkun á tækjabúnaði né bestu lyfjum og helstu stofnanir þess séu ekki nægilega vel hýstar.