Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjárlaganefnd hefur boðað forsvarsmenn Bankasýslu ríkisins á opinn fund á miðvikudagsmorguninn til að fara yfir sölu á eignarhlutum bankanna í ýmsum fyrirtækjum án útboðs.

Fjárlaganefnd hefur boðað forsvarsmenn Bankasýslu ríkisins á opinn fund á miðvikudagsmorguninn til að fara yfir sölu á eignarhlutum bankanna í ýmsum fyrirtækjum án útboðs. Í bréfi sem nefndin sendi til forstjóra bankasýslunnar er óskað eftir að hann upplýsi hvernig eigendastefnu ríkisins í bönkunum sé framfylgt með þessu.

Þá segir einnig að frá því að bankarnir komust í hendurnar á ríkinu hafi reglulega borist fréttir af eignum sem hafi verið seldar án opins útboðs. Meðal annars eru nefndar sölurnar á Húsasmiðjunni, EJS, Plastprenti, Icelandic, Skýrr, HugAX, Vodafone, Símanum og núna síðast hlut í Borgun.

Undir bréfið rita Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson, en óskað er eftir því að stofnunin skýri hvernig hún hyggist ná fram markmiðum eigendastefnunnar og hvernig það verði gert í nánustu framtíð. Þá verði óskað upplýsinga um hvort gerðar hafi verið athugasemdir við verklag fjármálafyrirtækja sem ríkið á hlut í vegna sölu eigna eða annarrar starfsemi.

„Nú liggur fyrir að enn stærri hluti bankakerfisins verður í höndum ríkisins. Það þarf því ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að traust ríki á fjármálamarkaði og ekki síst þegar um er að ræða sölu á eignum og eignarhlutum í stærri fyrirtækjum og fjármálastofnunum,“ segir í lok bréfsins.