Vígalegur Haukur Helgi Pálsson með vígalega andlitsgrímu sækir að vörn Keflvíkinga en til varnar er Magnús Þór Gunnarsson.
Vígalegur Haukur Helgi Pálsson með vígalega andlitsgrímu sækir að vörn Keflvíkinga en til varnar er Magnús Þór Gunnarsson. — Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Keflavík Skúli B. Sigurðsson skulibsig@mbl.is Erkifjendurnir í Reykjanesbæ háðu enn eina orrustuna í körfunni þegar Keflavík og Njarðvík mættust í Keflavík í gær.

Í Keflavík

Skúli B. Sigurðsson

skulibsig@mbl.is

Erkifjendurnir í Reykjanesbæ háðu enn eina orrustuna í körfunni þegar Keflavík og Njarðvík mættust í Keflavík í gær. Fyrir leik voru Keflvíkingar á toppnum með 22 stig og höfðu unnið fyrri rimmu liðanna í vetur nokkuð sannfærandi í Njarðvík. Særðir Njarðvíkingar mundu vel eftir þeim leik og með seiglu lönduðu gestirnir, 92:86 sigri gegn Keflavík.

Leikurinn hófst með látum og þá sér í lagi hjá Njarðvíkingum sem sýndu loksins varnarleik sem sæmir liði þeirra. Þeir spiluðu fast á leikmenn Keflavíkur og í raun fengu heimamenn skerf af sínu eigin meðali í þeim efnum. Keflvíkingar eru hinsvegar líkt og venjulega skeinuhættir á sínum heimavelli og fáir sem fara þangað og vaða inn á skítugum skónum.

Haukur Helgi öflugur

Haukur Helgi Pálsson fór mikinn í liði Njarðvíkinga framan af og var strax í hálfleik kominn með myndarlega tvennu í 10 stigum og 10 fráköstum. Hann endaði leik með 24 stig og 12 fráköst í sínum fyrsta „derby-slag“ suður með sjó. En bæði lið sýndu á sér flottar hliðar sem og sínar allra verstu. Eins stemmdir og Njarðvíkingar komu inn í byrjun leiks þá leyfðu þeir sér að vera heldur afslappaðir í upphafi seinni hálfleiks. Eitthvað sem þarf virkilega að skoða í þeirra herbúðum ætli þeir sér að synda í djúpu lauginni með stóru strákunum í lok móts. Keflvíkingar að sama skapi gerðu sig seka um hið sama. Öll stemning var þeirra megin og ekkert benti til þess að Njarðvíkingar færu með annað en skítuga búninga sína heim. Keflvíkingar öpuðu eftir þessum ósið Njarðvíkinga og hægðu á leik sínum. Njarðvíkingar spýttu í og nýttu sér tækifærið og 9 stig í röð frá þeim þegar um 6 mínútur voru til loka leiks voru í raun vendipunktur þessa leiks. Þessi afsláttur sem Keflvíkingar gáfu varð þeim að falli, það er engin spurning. Það verður þó ekki tekið af þeim Njarðvíkingum að þeir héldu áfram að berjast þrátt fyrir þung högg heimamanna sem hefðu hæglega getað leitt til rothöggs.

Með komu Odds Kristjánssonar í Njarðvíkurliðið og líkt og þegar Stefan Bonneau kom til liðsins í fyrra þá hefur Logi Gunnarsson tekið á sig eilítið öðruvísi hlutverk. Hann hékk á Val Orra Valssyni líkt og lífrænn áburður og Valur sem er að miklu leyti lykillinn að velgengni Keflavíkur í vetur átti einn sinn slakasta leik sem undirritaður hefur séð í vetur. Njarðvíkingar skörtuðu nýjum erlendum leikmanni, Jeremy Atkinson, og komst hann ágætlega frá sínu en á augljóslega mikið inni til að komast í gott leikform.

Keflavík – Njarðvík 86:92

TM-höllin, Dominos-deild karla, föstudag 22. janúar 2016.

Gangur leiksins : 7:7, 11:11, 17:21, 21:23 , 27:26, 30:30, 33:36, 41:39 , 50:44, 55:44, 65:51, 70:61 , 75:65, 77:76, 84:81, 86:92 .

Keflavík: Reggie Dupree 22/4 fráköst, Earl Brown Jr. 19/13 fráköst, Magnús Már Traustason 12/6 fráköst, Valur Orri Valsson 10/8 stoðsendingar, Magnús Þór Gunnarsson 8, Davíð Páll Hermannsson 7/6 fráköst, Ágúst Orrason 4/8 fráköst, Guðmundur Jónsson 4/5 fráköst.

Fráköst: 34 í vörn, 13 í sókn.

Njarðvík: Haukur Helgi Pálsson 24/12 fráköst/6 stoðsendingar, Jeremy Martez Atkinson 18/10 fráköst, Logi Gunnarsson 17, Oddur Rúnar Kristjánsson 12/4 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 10, Ólafur Helgi Jónsson 9/4 fráköst, Jón Arnór Sverrisson 2.

Fráköst: 28 í vörn, 8 í sókn.