Arnar Bjarki Jónsson fæddist 21. júní 2015 í Neskaupstað. Hann lést á Barnaspítala Hringsins 31. desember 2015.

Foreldrar Arnars Bjarka eru Jón Kristinn Auðbergsson, f. 26. september 1968, og Helga Sturludóttir, f. 2. mars 1977. Systkini Arnars Bjarka eru Auðbergur, f. 26. nóvember 2000, Siguróli, f. 27. mars 2003, og Þuríður Björk, f. 13. mars 2013. Systir Arnars Bjarka samfeðra er Dagbjört Katrín, f. 19. júní 1993, unnusti hennar er Erlingur Viðarsson.

Útför Arnars Bjarka fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 23. janúar 2016, og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku litli mömmudrengurinn. Núna er hann farinn, stundum trúi ég því ekki.

Eina stund er eins og það sé farg á brjóstinu á mér og mér verður þungt um andardrátt, aðra finnst mér ég algerlega tóm að innan.

Ósk um að fá einn dag enn, að hafa hann í fanginu einu sinni enn, einn koss enn, fá einu sinni enn að knúsa hann í hálsakotið og heyra hann hlæja og skríkja. Sjá fallega brosið hans ljóma af honum. Ekkert getur lýst því hvað ég sakna hans mikið.

Hann fór ekki einn, hluti af mér fór með honum. Þótt ég sé þakklát fyrir tímann sem við fengum með honum var ég ekki tilbúin að kveðja, sennilega er maður það aldrei, en lífið hans gaf minningar sem munu lifa með okkur og eru svo dýrmætar.

Ég verð að trúa því að þeir sem ég unni og eru farnir hafi tekið á móti honum og geymi hann í faðmi sér þar til við hittumst á ný, þá tekur enginn hann frá mér, aldrei.

Elsku Arnar Bjarki minn, nú ertu kominn í Sumarlandið, þar sem allt er gott og fallegt og ekkert getur meitt þig, litli engillinn minn.

Þú ert það fallegasta sem ég geymi í hjarta mínu.

Drauma þína, drengur minn,

djúpt í hjarta geymi.

Alltaf mamma angann sinn

elskar mest í heimi.

(Eivör Pálsdóttir og

Hallveig Torlacius)

Þín

mamma.

Elsku litli Arnar Bjarki, þú komst í þennan heim þegar sól var hæst á lofti og kvaddir þegar myrkrið var sem mest.

Fljótlega eftir fæðingu kom í ljós að þú varst ekki heill heilsu, þá hófst mikil og sársaukafull barátta þín og foreldra þinna. Þau voru hjá þér öllum stundum, annað þeirra eða bæði.

Aldrei var sleppt úr degi. Betri foreldra hefðir þú ekki getað fengið.

Einu sinni heyrði ég mömmu þína segja við þig er hún var að sinna þér og brostir og hjalaðir og dökku augun þín glömpuðu: „Það er svo skrítið að þú skulir vera svona sterkur, elskan mín, eins og þú ert mikið veikur.“ Þetta fannst okkur afa þínum líka.

Elsku Arnar Bjarki, ég veit að nú líður þér vel. Við afi þinn biðjum guð að geyma þig.

Elsku Nonni, Helga, Dagbjört, Auðbergur, Siguróli og Þuríður, guð styrki ykkur í sorginni.

Katrín amma.

Í dag kveðjum við yndislega drenginn Arnar Bjarka. Hetju sem barðist allt sitt líf og kenndi okkur öllum svo margt. Elsku Arnar Bjarki, það var dásamlegt að fá að kynnast þér og munt þú alltaf eiga stóran stað í hjarta okkar.

Sofðu unga ástin mín,

– úti regnið grætur.

Mamma geymir gullin þín,

gamla leggi og völuskrín.

Við skulum ekki vaka um dimmar nætur.

Það er margt, sem myrkrið veit,

– minn er hugur þungur.

Oft ég svarta sandinn leit

svíða grænan engireit.

Í jöklinum hljóða dauðadjúpar sprungur.

Sofðu lengi, sofðu rótt,

seint mun best að vakna.

Mæðan kenna mun þér fljótt,

meðan hallar degi skjótt,

að mennirnir elska, missa, gráta og sakna.

(Jóhann Sigurjónsson)

Elsku Jón, Helga, Dagbjört, Auðbergur, Siguróli og Þuríður, ykkar missir er mikill og megi Guð og allar góðar vættir veita ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.

Bjarki og

Sunna María.

HINSTA KVEÐJA

Öll við færum, elsku vinur,
ástar þökk á kveðjustund.
Gleði veitir grátnu hjarta,
guðleg von um eftirfund.
Drottinn Jesú, sólin sanna,
sigrað hefur dauða og gröf.
Að hafa átt þig ætíð verður,
okkur dýrmæt lífsins gjöf.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Við gleymum þér aldrei.
Með hjartans kveðjum,
Auðbergur, Siguróli
og Þuríður Björk.